Skipulag Keldnalands

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Fyrirhugað íbúðahverfi í Keldnalandi er mikilvægasta skipulagsverkefni í Reykjavík í áratugi. Þar gefst einstakt tækifæri til að hanna eftirsóknarvert íbúðahverfi enda er svæðið fallegt og staðsetningin góð. Meirihluti borgarstjórnar vill hins vegar leggja áherslu á ofurþéttingu og hámarksávinning af lóðasölu, frekar en að skapa þar fallegt og mannvænlegt hverfi.

Hámarksgróði hins opinbera af lóðasölu verður tryggður með okurverði til íbúðakaupenda í Keldnalandi. Komið hefur fram að viðhalda skuli ríkjandi lóðaskorti í borginni til að tryggja að sem hæst verð fáist fyrir byggingarlóðir þar.

Niðurstöður alþjóðlegrar skipulagssamkeppni um Keldnaland hafa verið kynntar og voru þær ræddar í borgarstjórn í vikunni. Upplýst var að kostnaður við samkeppnina hefði numið um 100 milljónum króna. Í verðlaunatillögunni er skautað fram hjá mörgum atriðum sem varða aðstæður í hverfinu, sem og ýmsa hagsmuni núverandi íbúa Grafarvogs. Spurningar hafa því vaknað um gæði tillögunnar.

Ofurþétting

Fyrirætlanir eru nú um að íbúar í Keldnalandi verði 10-15 þúsund en áður voru mun lægri tölur nefndar. Ef önnur áform um uppbyggingu í Grafarvogi ganga eftir gæti raunin orðið sú að íbúafjöldi þar tvöfaldist: fari úr 18 þúsundum í allt að 36 þúsund manns. Svo mikil fjölgun myndi hafa mikil áhrif á þá íbúðabyggð sem fyrir er í Grafarvogi og lífsgæði íbúa. Myndi hún jafnframt krefjast mun meiri uppbyggingar innviða í hverfinu en nú er fyrir hendi.

Friðlýsing Grafarvogs

Undirbúningur að friðlýsingu Grafarvogs stendur nú yfir á vegum umhverfisráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Lagt hefur verið til að grunnsævi, leirur og fjörur innan Grafarvogs verði friðlýstar, auk menningarminja og skilgreinds útivistarsvæðis Grafarvogsbúa. Verðlaunatillagan er þó ekki í samræmi við fyrirhugaða friðlýsingu.

Íþróttir og útivist

Verði áðurnefnd íbúafjölgun í Grafarvogi að veruleika er ljóst að hverfisíþróttafélagið Fjölnir myndi þurfa á stórauknu landrými að halda í þágu barna- og unglingastarfs í hverfinu. Samkvæmt verðlaunatillögunni verður þrengt mjög að núverandi útivistarsvæðum og ekki gert ráð fyrir íþróttasvæði fyrir hið nýja og fjölmenna íbúðahverfi.

Samgöngur

Samkvæmt tillögunni munu umferðarlausnir Keldnalands við aðra hluta borgarinnar standa og falla með borgarlínunni. Umferðartengingar fyrir bifreiðar yrðu veigalitlar og ótrúverðugar. Ljóst er að íbúar Keldnalands munu að miklu leyti sækja þjónustu í norðurhluta hverfisins: í Spöngina, Egilshöll og Borgarholtsskóla. Því er líklegt að umferð muni stóraukast um Víkurveg, Borgaveg og fleiri götur. Að óbreyttu geta þær þó illa tekið við svo mikilli umferðaraukningu.

Bílastæði íbúa

Bílastæðaskipulag tillögunnar tekur ekki mið af aðstæðum og veðurfari í nyrstu höfuðborg heims. Óraunhæft er að ætla íbúum í hinu nýja hverfi að ganga langar leiðir frá heimilum sínum að bílastæðahúsum, sem virðast eiga að koma í stað hefðbundinna bílastæða.

Kynna þarf tillöguna í Grafarvogi

Umrædd verðlaunatillaga var til sýnis í nokkra daga í ráðhúsinu við Tjörnina. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að slík sýning verði einnig sett upp í Grafarvogi sem fyrst, svo Grafarvogsbúar geti kynnt sér tillöguna í sínu heimahverfi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. október 2023.