Hver hefur eftirlit með eftlirlitinu?

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Virk samkeppni er ein grunnforsenda öflugs efnahagsumhverfis. Samkeppnisumhverfið þarf að vera þannig úr garði gert að hagsmunir almennings séu alltaf hafðir að leiðarljósi. Virk og heilbrigð samkeppni skilar mestum ávinningi til neytenda. Í síminnkandi veröld skiptir samkeppnishæfni atvinnulífsins miklu máli og mikilvægt að sömu samkeppnisreglur og –skilyrði gildi hér og á samanburðarmörkuðum.

Sérstakar umræður voru á Alþingi á dögunum um samkeppniseftirlit, enda öflugt samkeppniseftirlit lykilatriði þegar kemur að því að tryggja virka samkeppni og vinna gegn misnotkun fyrirtækja á markaði. Þar benti undirrituð á að eftirlit samkeppniseftirlitsins væri byggt á vandmeðförnum valdheimildum og að þingið þyrfti að gæta að því að þær væru veittar í lögmætum eftirlitstilgangi. Sömuleiðis væri mikilvægt að samkeppnisyfirvöld, líkt og önnur stjórnvöld, héldu sig innan valdheimilda; færu að lögum í einu og öllu. Væri það ekki gert, yrði sem sé misbrestur þar á, yrði auðvitað að grípa til aðgerða. Undirrituð undirstrikaði jafnframt mikilvægi þess að eftirlitsstofnanir á borð við samkeppniseftirlitið væru sjálfstæðar í störfum sínum.

Annar sjálfstæðismaður, Birgir Þórarinsson, tók þátt í umræðunum og hvatti til þess að samkeppniseftirlitið beitti víðtækum valdheimildum sínum á lögmætan og skynsamlegan hátt.

Píratar töldu hins vegar að slík sjónarmið lýstu andstöðu við samkeppniseftirlitið. Tilgangurinn helgar meðalið, samkvæmt heimasmíðuðum siðferðismælikvarða pírata. Óþarfi er að fara að lögum og virða má mikilsverð réttindi að vettugi í þágu „málstaðarins“. Allra síst má fara fram gagnrýnin umræða nema málstaðurinn standist fyrst mælikvarðann!

Löggjafinn á að fara varlega í útdeilingu valdheimilda og gæta sjálfur meðalhófs í þeim efnum. Stjórnvöld sem fara með valdheimildir eiga sömuleiðis að gæta meðalhófs, fara eftir lögum og halda sig innan marka valdheimilda. Ef vafi er á túlkast hann stjórnvaldinu ekki í hag; þvert á móti. Þetta verður ekki of oft sagt, alhæfa má um öll stjórnvöld og eftirlitsaðila í þessa veru. Slík varnaðarorð eru ekki knúin fram af andstöðu eða andúð, heldur virðingu fyrir lögum og reglu, virðingu fyrir sjálfu réttarríkinu. Það er nokkuð sem píratar mættu e.t.v. tileinka sér.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. október 2023