Fallegar umbúðir en músin er lítil

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Satt best að segja hef ég beðið nokkuð spennt­ur eft­ir ít­ar­leg­um og út­færðum til­lög­um Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í heil­brigðismál­um. Formaður flokks­ins og þing­menn hafa byggt skipu­lega und­ir mikl­ar vænt­ing­ar meðal kjós­enda um áætl­un um stór­sókn í heil­brigðismál­um und­ir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. En fjallið tók joðsótt og síðasta mánu­dag fædd­ist lít­il mús. Í fal­leg­um 24 blaðsíðna bæk­lingi er lítið bita­sætt og fátt nýtt. Eng­ar nýj­ar hug­mynd­ir eða til­lög­ur um breytt skipu­lag heil­brigðis­kerf­is­ins.

„Örugg skref í heil­brigðis- og öldrun­ar­mál­um“ – er sögð verk­lýs­ing fyr­ir nýja rík­is­stjórn með fimm þjóðarmark­miðum og ör­ugg­um skref­um í rétta átt. (Tísku­orð Sam­fylk­ing­ar­inn­ar þessa mánuðina og lík­lega fram að kosn­ing­um er „ör­yggi“.) Þjóðarmark­miðin fimm eru al­menn og raun­ar svo sjálf­sögð að draga verður í efa að það finn­ist Íslend­ing­ur sem set­ur sig upp á móti þeim.

Skýr val­kost­ur?

Kristrún Frosta­dótt­ir formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar seg­ir í eins kon­ar inn­gangi að bæk­lingn­um (inn­gang­ur sem tek­ur stór­an hluta bæk­lings­ins) að það sé „ei­lífðar­verk­efni að passa upp á heil­brigðis­kerfið“. Þess­ari full­yrðingu verður ekki mót­mælt. „Það sem ligg­ur al­gjör­lega fyr­ir er að uppi er póli­tísk­ur ágrein­ing­ur um sýn og stefnu, aðferðir og fjár­mögn­un,“ skrif­ar formaður­inn og bæt­ir við: „Þar vill Sam­fylk­ing­in bjóða upp á skýr­an val­kost.“

Hafi mark­miðið með út­spili Sam­fylk­ing­ar­inn­ar síðasta mánu­dag verið að bjóða upp á skýra val­kosti á flokk­ur­inn langt í land. Nema kannski að einu leyti. Þjóðarmark­miðunum ætl­ar Sam­fylk­ing­in að ná með gam­al­kunn­ug­um aðferðum vinstrimanna; auka út­gjöld­in. Vinstri­menn mega varla sjá vanda­mál eða verk­efni án þess að bjóðast til að leysa þau með aukn­um út­gjöld­um. Og út­gjöld­in verða fjár­mögnuð með auk­inni skatt­heimtu.

Sam­fylk­ing­in boðar hækk­un rík­is­út­gjalda til heil­brigðismála á kom­andi árum um 1-1,5% af vergri lands­fram­leiðslu. Þetta jafn­gild­ir 38 til 57 millj­örðum króna miðað við lands­fram­leiðslu síðasta árs. Auðvitað er forðast að tala um skatta­hækk­an­ir, held­ur verði að „sam­ein­ast um að sækja tekj­ur og taka meðvitaða ákvörðun um að fjár­magna veg­ferðina“. Fjár­mögn­un­ina á að „tryggja á tekju­hlið rík­is­sjóðs“! Full­yrt er að aukn­ing út­gjalda skipti sköp­um „til að nýta bet­ur það fjár­magn sem nú þegar er veitt til mála­flokks­ins“. Í huga sam­fylk­inga er best að auka út­gjöld­in til að tryggja skyn­sam­lega og hag­kvæma nýt­ingu fjár­muna rík­is­ins!

Reist á sandi

Í viðtali við Morg­un­blaðið í maí síðastliðnum sagði Kristrún að end­ur­skoða þyrfti hvernig vel­ferðar­kerfið er fjár­magnað. „Þá er ég að tala um heil­brigðis­kerfið, fjár­mögn­un sem fer í upp­bygg­ingu á hús­næði og stuðning við op­in­ber hús­næðisúr­ræði. Þetta eru kostnaðar­söm úrræði.“ Fram til þessa hef­ur Kristrún ekki lagt spil­in á borðin þegar kem­ur að auk­inni skatt­heimtu. Að „sam­ein­ast um að sækja tekj­ur“ hljóm­ar bet­ur en hækk­un skatta.

Að vísu er rætt um að draga úr mis­ræmi milli skatt­lagn­ing­ar fjár­magns- og launa­tekna. Hvað í því felst er óljóst. Að venju er lofað að tryggja „að arður af sam­eig­in­leg­um nátt­úru­auðlind­um nýt­ist í þágu sam­fé­lags­ins alls“ og boðuð er end­ur­skoðun á tekju­skatt­s­kerf­inu „með það mark­mið að fær­ast nær vel­ferðarsam­fé­lög­um Norður­landa“. Hvað átt er við er óljóst enda ætl­ar Sam­fylk­ing­in að út­færa aukna skatt­heimtu „nán­ar eft­ir sam­tal við fólkið í land­inu um hús­næðis- og kjara­mál frá vori fram á haust 2024“.

Það skal játað að ég varð fyr­ir tölu­verðum von­brigðum með „ör­uggu skref­in“ sem Sam­fylk­ing­in hef­ur boðað. Ég átti von á ít­ar­leg­um til­lög­um um breytt skipu­lag og fjár­mögn­un heil­brigðis­kerf­is­ins. Þær von­ir voru reist­ar á sandi.

Sem sagt: Sam­fylk­ing­in er ekki að boða nýja stefnu – hvað þá nýja hugs­un – í heil­brigðisþjón­ustu. Þjóðarmark­miðin eru al­menn og sett fram þannig að all­ir geta tekið und­ir. Það eina sem ligg­ur fyr­ir er löng­un Sam­fylk­ing­ar­inn­ar til að auka út­gjöld til heil­brigðismála um tugi millj­arða á ári með því að taka stærri sneið af þjóðar­kök­unni. Enn og aft­ur skipt­ir stærð kök­unn­ar ekki mestu held­ur hlut­falls­leg stærð sneiðar­inn­ar.

Ég hef haldið því fram, m.a. í blaðaskrif­um, að ís­lensk heil­brigðisþjón­usta sé í póli­tískri sjálf­heldu frá­breyti­leika og verri þjón­ustu – sé fangi kröf­unn­ar um sí­fellt auk­in út­gjöld, án skýrra mæli­kv­arða um gæði eða kröf­unn­ar um að fjár­mun­um sé varið af skyn­semi. Ekki verður annað séð en að það sé sjálf­stætt mark­mið Sam­fylk­ing­ar­inn­ar að auka út­gjöld til heil­brigðismála. Öllum hef­ur mátt vera það ljóst að við Íslend­ing­ar stönd­um frammi fyr­ir því að auka út­gjöld til heil­brigðismála á kom­andi árum. En það má aldrei verða sjálf­stætt mark­mið að auka út­gjöld­in líkt og Sam­fylk­ing­in legg­ur upp með. Keppikeflið er öfl­ug heil­brigðisþjón­usta og auk­in lífs­gæði borg­ar­anna, betri nýt­ing fjár­muna, vinnu­afls, tækja og fast­eigna, sam­hliða inn­leiðingu tækni­lausna og ný­sköp­un­ar.

Val­kost­irn­ir að skýr­ast

Tug­millj­arða kosn­ingalof­orð í heil­brigðismál­um er ekki eina út­spilið sem Sam­fylk­ing­in verður með fyr­ir kom­andi kosn­ing­ar. Aukn­ar milli­færsl­ur hafa verið boðaðar, stór­átak í fé­lags­legu hús­næði og þannig má lengi telja.

Það blas­ir því við að á nýju kjör­tíma­bili munu skatt­ar og álög­ur á ein­stak­linga og fyr­ir­tæki hækka veru­lega, kom­ist Sam­fylk­ing­in í rík­is­stjórn. Lík­lega verður fyr­ir­mynd­in sótt til Reykja­vík­ur­borg­ar. Sam­fylk­ing­ar hugsa með hryll­ingi til þess þegar hið op­in­bera „af­sal­ar“ sér tekj­um eða þegar tekju­stofn­ar eru „vannýtt­ir“ með því að skatt­ar og gjöld séu ekki í hæstu hæðum.

Það er göm­ul saga og ný að skattagleði í anda Sam­fylk­ing­ar­inn­ar dreg­ur kraft­inn úr sam­fé­lag­inu. Hvat­inn til efna­hags­legra um­svifa ein­stak­linga og fyr­ir­tækja hverf­ur. Hætt­an er sú að þjóðarkak­an minnki hægt og bít­andi sem aft­ur er ein leið til að auka út­gjöld til heil­brigðismála sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu í sam­ræmi við stefnu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, þótt þau lækki jafn­vel að raun­v­irði.

Að þessu leyti eru val­kost­ir kjós­enda að skýr­ast.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. október 2023.