Óli Björn Kárason alþingismaður:
Satt best að segja hef ég beðið nokkuð spenntur eftir ítarlegum og útfærðum tillögum Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum. Formaður flokksins og þingmenn hafa byggt skipulega undir miklar væntingar meðal kjósenda um áætlun um stórsókn í heilbrigðismálum undir forystu Samfylkingarinnar. En fjallið tók joðsótt og síðasta mánudag fæddist lítil mús. Í fallegum 24 blaðsíðna bæklingi er lítið bitasætt og fátt nýtt. Engar nýjar hugmyndir eða tillögur um breytt skipulag heilbrigðiskerfisins.
„Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum“ – er sögð verklýsing fyrir nýja ríkisstjórn með fimm þjóðarmarkmiðum og öruggum skrefum í rétta átt. (Tískuorð Samfylkingarinnar þessa mánuðina og líklega fram að kosningum er „öryggi“.) Þjóðarmarkmiðin fimm eru almenn og raunar svo sjálfsögð að draga verður í efa að það finnist Íslendingur sem setur sig upp á móti þeim.
Skýr valkostur?
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar segir í eins konar inngangi að bæklingnum (inngangur sem tekur stóran hluta bæklingsins) að það sé „eilífðarverkefni að passa upp á heilbrigðiskerfið“. Þessari fullyrðingu verður ekki mótmælt. „Það sem liggur algjörlega fyrir er að uppi er pólitískur ágreiningur um sýn og stefnu, aðferðir og fjármögnun,“ skrifar formaðurinn og bætir við: „Þar vill Samfylkingin bjóða upp á skýran valkost.“
Hafi markmiðið með útspili Samfylkingarinnar síðasta mánudag verið að bjóða upp á skýra valkosti á flokkurinn langt í land. Nema kannski að einu leyti. Þjóðarmarkmiðunum ætlar Samfylkingin að ná með gamalkunnugum aðferðum vinstrimanna; auka útgjöldin. Vinstrimenn mega varla sjá vandamál eða verkefni án þess að bjóðast til að leysa þau með auknum útgjöldum. Og útgjöldin verða fjármögnuð með aukinni skattheimtu.
Samfylkingin boðar hækkun ríkisútgjalda til heilbrigðismála á komandi árum um 1-1,5% af vergri landsframleiðslu. Þetta jafngildir 38 til 57 milljörðum króna miðað við landsframleiðslu síðasta árs. Auðvitað er forðast að tala um skattahækkanir, heldur verði að „sameinast um að sækja tekjur og taka meðvitaða ákvörðun um að fjármagna vegferðina“. Fjármögnunina á að „tryggja á tekjuhlið ríkissjóðs“! Fullyrt er að aukning útgjalda skipti sköpum „til að nýta betur það fjármagn sem nú þegar er veitt til málaflokksins“. Í huga samfylkinga er best að auka útgjöldin til að tryggja skynsamlega og hagkvæma nýtingu fjármuna ríkisins!
Reist á sandi
Í viðtali við Morgunblaðið í maí síðastliðnum sagði Kristrún að endurskoða þyrfti hvernig velferðarkerfið er fjármagnað. „Þá er ég að tala um heilbrigðiskerfið, fjármögnun sem fer í uppbyggingu á húsnæði og stuðning við opinber húsnæðisúrræði. Þetta eru kostnaðarsöm úrræði.“ Fram til þessa hefur Kristrún ekki lagt spilin á borðin þegar kemur að aukinni skattheimtu. Að „sameinast um að sækja tekjur“ hljómar betur en hækkun skatta.
Að vísu er rætt um að draga úr misræmi milli skattlagningar fjármagns- og launatekna. Hvað í því felst er óljóst. Að venju er lofað að tryggja „að arður af sameiginlegum náttúruauðlindum nýtist í þágu samfélagsins alls“ og boðuð er endurskoðun á tekjuskattskerfinu „með það markmið að færast nær velferðarsamfélögum Norðurlanda“. Hvað átt er við er óljóst enda ætlar Samfylkingin að útfæra aukna skattheimtu „nánar eftir samtal við fólkið í landinu um húsnæðis- og kjaramál frá vori fram á haust 2024“.
Það skal játað að ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum með „öruggu skrefin“ sem Samfylkingin hefur boðað. Ég átti von á ítarlegum tillögum um breytt skipulag og fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Þær vonir voru reistar á sandi.
Sem sagt: Samfylkingin er ekki að boða nýja stefnu – hvað þá nýja hugsun – í heilbrigðisþjónustu. Þjóðarmarkmiðin eru almenn og sett fram þannig að allir geta tekið undir. Það eina sem liggur fyrir er löngun Samfylkingarinnar til að auka útgjöld til heilbrigðismála um tugi milljarða á ári með því að taka stærri sneið af þjóðarkökunni. Enn og aftur skiptir stærð kökunnar ekki mestu heldur hlutfallsleg stærð sneiðarinnar.
Ég hef haldið því fram, m.a. í blaðaskrifum, að íslensk heilbrigðisþjónusta sé í pólitískri sjálfheldu frábreytileika og verri þjónustu – sé fangi kröfunnar um sífellt aukin útgjöld, án skýrra mælikvarða um gæði eða kröfunnar um að fjármunum sé varið af skynsemi. Ekki verður annað séð en að það sé sjálfstætt markmið Samfylkingarinnar að auka útgjöld til heilbrigðismála. Öllum hefur mátt vera það ljóst að við Íslendingar stöndum frammi fyrir því að auka útgjöld til heilbrigðismála á komandi árum. En það má aldrei verða sjálfstætt markmið að auka útgjöldin líkt og Samfylkingin leggur upp með. Keppikeflið er öflug heilbrigðisþjónusta og aukin lífsgæði borgaranna, betri nýting fjármuna, vinnuafls, tækja og fasteigna, samhliða innleiðingu tæknilausna og nýsköpunar.
Valkostirnir að skýrast
Tugmilljarða kosningaloforð í heilbrigðismálum er ekki eina útspilið sem Samfylkingin verður með fyrir komandi kosningar. Auknar millifærslur hafa verið boðaðar, stórátak í félagslegu húsnæði og þannig má lengi telja.
Það blasir því við að á nýju kjörtímabili munu skattar og álögur á einstaklinga og fyrirtæki hækka verulega, komist Samfylkingin í ríkisstjórn. Líklega verður fyrirmyndin sótt til Reykjavíkurborgar. Samfylkingar hugsa með hryllingi til þess þegar hið opinbera „afsalar“ sér tekjum eða þegar tekjustofnar eru „vannýttir“ með því að skattar og gjöld séu ekki í hæstu hæðum.
Það er gömul saga og ný að skattagleði í anda Samfylkingarinnar dregur kraftinn úr samfélaginu. Hvatinn til efnahagslegra umsvifa einstaklinga og fyrirtækja hverfur. Hættan er sú að þjóðarkakan minnki hægt og bítandi sem aftur er ein leið til að auka útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af landsframleiðslu í samræmi við stefnu Samfylkingarinnar, þótt þau lækki jafnvel að raunvirði.
Að þessu leyti eru valkostir kjósenda að skýrast.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. október 2023.