Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Ekki hafði ég fyrr sent ríkisstjórninni bréf, þar sem ég hvatti til þess að áhersla yrði lögð á að íslenskt regluverk yrði ekki meira íþyngjandi en þörf krefur við innleiðingu EES-gerða, en tilefni gafst til að brýna þetta fyrir ráðherra.
Á dögunum lagði heilbrigðisráðherra í annað sinn fram frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum og lögum um lækningatæki. Markmið frumvarpsins er að lögfesta upplýsingaskyldu um birgðastöðu lyfja og lækningatækja. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á ESB-reglugerð þar um, sem hefur að vísu ekki enn verið tekin upp í EES-samninginn. Frumvarp heilbrigðisráðherra gengur engu að síður langtum lengra en reglugerðin og er skýrt dæmi um að gengið sé lengra við innleiðingu en þörf er á; dæmi um svokallaða gullhúðun.
Íþyngjandi kröfur frumvarpsins eru af ýmsum toga. Þar er gerð krafa um að upplýsingar um birgðastöðu séu gefnar í rauntíma og tekur til allra lyfja og lækningatækja. ESB-reglugerðin tekur samt aðeins til stakra lyfja og tækja sem eru á skilgreindum lista. Frumvarp heilbrigðisráðherra leggur skyldu á herðar mun fleiri aðilum en reglugerðin og gengið er lengra varðandi deilingu þeirra upplýsinga sem er aflað. Þá felur frumvarpið í sér alveg gríðarlegan kostnað, m.a. við þróun og rekstur sérstaks kerfis. Enga slíka kröfu er að finna í reglugerðinni.
Innlend fyrirtæki og neytendur eiga að sitja við sama borð og aðrir á innri markaði ESB. Engin haldbær rök hafa heldur verið færð fyrir því að hér séu þær aðstæður að við þurfum að ganga margfalt lengra en þjóðirnar á meginlandinu við að safna og deila þessum upplýsingum.
Í umræðum um frumvarpið á Alþingi hvatti ég heilbrigðisráðherra til að tóna niður frumvarpið svo að það verði í samræmi við ESB-reglugerðina sem því er ætlað að innleiða. Ráðherrann brást að vísu vel við athugasemdum mínum og fleiri þingmanna sem tóku til máls og gefur það tilefni til bjartsýni í þessu máli.
Því er reyndar ósvarað hvernig rauntímaaðgangur íslenskra stjórnvalda að birgðastöðu lyfja og lækningatækja muni draga úr skorti sem má nær alltaf rekja til framleiðenda. Í öllu falli er það ólíðandi að gengið sé lengra við
meinta innleiðingu ESB-reglna en þörf er á og þannig meiri byrðar lagðar á íslenskt atvinnulíf en keppinauta þeirra annars staðar í Evrópu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. september 2023.