Óli Björn Kárason alþingismaður:
Er það merki um „Báknið“ að tveir sjálfstæðir framhaldsskólar, sem byggja á mismunandi hugmyndafræði, séu starfræktir á Akureyri? Því miður svara einhverjir þessari spurningu játandi. Er það bákn að reynt sé að tryggja fjölbreytileika og valfrelsi ungs fólks í námi? Innan ríkisstjórnarflokkanna eru þingmenn sem eru sannfærðir um að svo sé (sem ætti líklega ekki að koma mér á óvart). Að tryggja samkeppni í menntakerfinu er eitur í beinum of margra, enda hafna þeir því að samkeppni leysi úr læðingi það besta í þjónustu og veiti um leið aðhald.
Í liðinni viku birti ég grein um fyrirhugaða sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri. Sameiningin virðist sem betur fer hafa verið lögð á hilluna, enda illa undirbúin og flestar grunnreglur um sameiningar voru hafðar að vettugi. Hugmyndin byggist á misskilningi um eðli menntunar, þar sem litið er framhjá mikilvægi þess að ungt fólk eigi eitthvert raunverulegt val um nám. Ég hélt því fram að það væri ekki hlutverk yfirvalda menntamála að draga úr fjölbreytileika og reyna að steypa nemendur í sama ríkismótið. „Þvert á móti er það ein grunnskylda stjórnvalda að stuðla að sem mestum fjölbreytileika þannig að ungt fólk geti betur fundið nám við hæfi – þar sem áhugi og hæfileikar þeirra fá að blómstra.“
Greinarskrifin ollu nokkurri geðshræringu hjá þeim sem hafa verið sannfærðir um ágæti sameiningar og varið hana á stundum með gífuryrðum, þrátt fyrir að ekki sé búið að „greina tækifæri, kosti og galla þess að sameina skólana,“ eins og viðurkennt var í frétt mennta- og barnamálaráðuneytisins. Í engu var fylgt leiðbeiningariti fjármálaráðuneytisins. Brýning ríkisendurskoðanda um „gera frumathugun/fýsileikakönnun og skilgreina markmið með sameiningu“ og efna til „víðtæks samráðs og gera ítarlega samrunaáætlun“ var höfð að engu. Hægt er að gefa slíkum vinnubrögðum einkunn sem faglærðir iðnaðarmenn nota gjarna þegar þeir verða vitni að vondu handbragði.
Birtingarmynd Báknsins
Satt best að segja skil ég ekki hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að tveir sjálfstæðir framhaldsskólar séu táknmynd Báknsins. Þeir sem telja sér trú um slíkt hljóta að vera með böggum hildar þegar þeir frétta af því að ný heilsugæslustöð hafi tekið starfa á Suðurnesjum fyrir nokkrum dögum (og það einkarekin!). Á fyrstu tveimur vikunum skráðu sig hátt í tvö þúsund íbúar Suðurnesja á heilsugæsluna.
Báknið snýst ekki um fjölda framhaldsskóla eða heilsugæslustöðva. Aukinn fjöldi lækna og hjúkrunarfræðinga er ekki merki um að Báknið sé að þenjast út. Birtingarmynd Báknsins er þegar einstaklingar þurfa að ganga á milli Heródesar og Pílatusar til að fá leyfi til að opna veitingastað eða bifreiðaverkstæði. Báknið er runnið undan rifjum stjórnmálamanna sem telja það nauðsynlegt að þvinga einstaklinga til að skrásetja leigusamninga um íbúðarhúsnæði í opinberan gagnagrunn. Báknið birtist framtaksmanninum í formi íþyngjandi reglna og eftirlits, þar sem gjaldmælirinn er stöðugt í gangi af minnsta tilefni. Báknið hirðir ekki um að svara einföldum erindum fyrr en eftir dúk og disk, eftir eigin hentisemi.
Báknið kemur í veg fyrir að kraftar einkaframtaksins séu nýttir til að tryggja að fólk fá úrlausn sinna mála, s.s. með liðskiptaaðgerðum. Báknið refsar einstaklingum fyrir yfirsjónir en forðast að bera ábyrgð á eigin gjörðum. Báknið birtist í eindregnum vilja heilbrigðisyfirvalda til að geta farið sínu fram í sóttvörnum og skert frelsi fólks, án þess að löggjafinn eða almenningur hafi nokkuð um það að segja. Allt í nafni almannaheilla. Báknið stendur dyggan vörð um ríkisrekstur í fjölmiðlun og vill fremur stinga sjálfstæðum miðlum í súrefnisvélar ríkisins en að tryggja heilbrigða samkeppni. Báknið er birtingarmynd stjórnlyndis og ríkisrekstrarhyggju. Mannleg hegðun skal römmuð inn. Með lögum og reglum á að koma böndum á einstaklinga.
Kerfi tilskipana
Báknið vegur og metur ráðherra og þingmenn eftir því hversu miklu þeir afkasta. Því fleiri lög sem samþykkt eru, því betra. Dugmikill ráðherra er alltaf með hugann við nýja reglugerð. Þegar ljóst er í upphafi þingvetrar að á þriðja hundrað mála séu á þingmálaskrá ríkisstjórnar kætist Báknið. Innihald, skýrleiki og einfaldleiki í lögum og reglum ræður ekki för heldur fjöldi laga sem flækja líf einstaklinga og fyrirtækja.
Báknið er kerfi tilskipana, þar sem samkeppni er af hinu vonda. Báknið skipar fyrir um sameiningu öflugra sjálfstæðra skóla, án samráðs og undirbúnings en klæðir í fagurgala hagræðingar. Þegar búið er að steypa alla framhaldsskóla í sama mótið andar Báknið léttar. Markmiðið virðist vera að innleiða framhaldsskólakerfi tilskipana, þar sem sjálfstæði skólastjórnenda og kennara er virt að vettugi. Tilskipanir búa ekki til jarðveg fyrir nýja hugsun og nýsköpun. Kennarar fá ekki að njóta eigin frumkvæðis og hæfileika. Kostir nemenda til náms verða fábreytilegir.
Undir hatti hagræðingar (og enginn veit hvort eða hversu mikil hún verður) vinnur Báknið gegn fjölbreytileika og valfrelsi. Skipulag menntakerfisins líkt og heilbrigðiskerfisins skal vera á forsendum kerfisins, ekki þeirra sem nýta þjónustuna. Þess vegna má ekki greina á milli þess hver greiðir fyrir þjónustuna (við öll sameiginlega) og hver veitir þjónustuna. Með fábreytileika er komið í veg fyrir gagnsæi og virkt kostnaðaraðhald.
Báknið lifir því miður ágætu lífi í skjóli stjórnmálamanna sem vilja takmarka valmöguleika nemenda og skilja ekki að skortur á samkeppni í þjónustu, sem greidd er úr sameiginlegum sjóðum okkar allra, er alvarleg meinsemd. Stjórnlyndi á sér djúpar rætur. „Báknið burt“ er rótgróið slagorð okkar sjálfstæðismanna. Við höfum verið minntir alvarlega á það, síðustu daga, hversu dýrkeypt það getur verið fyrir samfélagið ef við slökum á í baráttunni við að koma böndum á Báknið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. september 2023.