Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Bætt umferðarstýring var eitt helsta markmið svonefnds samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2019. Ljóst er að því markmiði yrði helst náð með því að nýta kosti snjalltækni við umferðarljósastýringu í sem ríkustum mæli.
Tækjabúnaðurinn er fyrir hendi hjá Reykjavíkurborg en hins vegar fer því fjarri að hann sé nýttur sem skyldi. Enn er að langmestu leyti notast við svonefnt klukkukerfi, sem ekki er hægt að segja að byggist á snjalltækni nema að mjög takmörkuðu leyti. Nokkur skynjaratengd gangbrautar- og umferðarljós hafa verið tekin í notkun. Góð reynsla er af þeim en innleiðingin gengur afar hægt fyrir sig.
Síðast í sumar bauð Reykjavíkurborg út umferðarljósakerfi fyrir Höfðabakka. Um er að ræða sjö gatnamót milli Breiðholts og Grafarvogs, þar sem kjörið hefði verið að setja upp snjallstýrt kerfi. Því miður kaus borgin hins vegar að halda sig við gamla klukkufyrirkomulagið.
Slíkt sleifarlag í umferðarstýringu gerir að verkum að tafir í umferðinni eru miklu meiri en þær þyrftu að vera og umferðaröryggi jafnframt minna. Úr því þarf að bæta.
Hef ég lagt fram eftirfarandi tillögu um málið á vettvangi borgarstjórnar fyrir hönd borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Tillaga Sjálfstæðisflokksins
- Lagt er til að gerðar verði úrbætur á stýringu umferðarljósa í Reykjavík í því skyni að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun í borginni.
- Leitast verði við að nýta kosti tiltækrar tölvutækni betur en nú er gert til að ná þessum markmiðum. Það verði m.a. gert með aukinni notkun snjalltækni, sem stýrir viðkomandi umferðarljósum í þágu umferðaröryggis og -flæðis gangandi, hjólandi og akandi vegfarenda.
- Gervigreind verði notuð til að besta stýringuna út frá gögnum, sem aflað verði með skynjurum á umferðarljósum.
- Í þessari vinnu verði hafður til hliðsjónar árangur þeirra borga á Norðurlöndunum og fleiri nágrannaríkjum, sem hafa náð góðum árangri við að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun með slíkri snjalltækni.“
Mikill ávinningur fyrir alla vegfarendur
Tillagan var tekin til meðferðar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 20. september 2023 og samþykkt að vísa henni til skoðunar og umsagnar í borgarkerfinu. Vonandi leiðir sú skoðun til þess að ráðist verði af heilum hug í snjallvæðingu allra umferðarljósa í borginni.
Með slíkri snjallvæðingu væri hægt að lágmarka umferðartafir í borginni og auka umferðaröryggi. Til dæmis myndu skynjarar tryggja að akandi eða hjólandi vegfarendur þyrftu sjaldnast að bíða á rauðu ljósi ef engin umferð væri á hliðargötunni. Einnig væri hægt að sjá til þess að gangandi og hjólandi vegfarendur fengju forgang og kæmust alltaf örugglega yfir gangbrautina en ættu það ekki undir ósveigjanlegri sekúnduklukku. Þá væri hægt að tryggja strætó víðtækan forgang með slíkri tækni.
Varlega áætlað gæti slík snjallstýring umferðarljósa bætt umferðarflæði í Reykjavík um 15% og minnkað tafir strætisvagna um 20%.
Tafirnar kosta tugi milljarða
Miklum tíma og fjármunum er sóað með umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu og ljóst að sá kostnaður nemur tugum milljörðum króna á ársgrundvelli. Í fimm ára gamalli greiningu Samtaka iðnaðarins var áætlað að 15 þúsund klukkustundum væri sóað í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu á hverjum degi. Það samsvarar um 25 klukkustundum árlega á hvern borgarbúa. Tafirnar kosta sitt, bæði í beinhörðum peningum og tíma, sem við vildum öll gjarnan nota til annars en að bíða í bílaröð.
Snjallvæðing umferðarljósa og bestun borgarumferðar með hjálp gervigreindar hefur nú þegar sannað sig erlendis í því skyni að stytta tafatíma og auka öryggi í umferðinni. Fjárfesting í sambærilegri snjallvæðingu hér þyrfti ekki að kosta mikið í samhengi hlutanna, e.t.v. einn til tvo milljarða króna, sem hægt væri að skipta á nokkur ár. Slík fjárfesting væri hins vegar fljót að skila sér margfaldlega með greiðari umferð, fækkun slysa og minni mengun.
Það er því ekki eftir neinu að bíða.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, 28. september 2023.