Bréf til ríkisstjórnarinnar

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Utanríkismálanefnd Alþingis hefur yfirumsjón með umfjöllun nefnda þingsins um EES-mál. Löggjafinn leggur ríka áherslu á virka þátttöku þingsins í samstarfi um EES-samninginn og hefur sett sérstakar reglur um þinglega meðferð EES-mála. Þar kemur m.a. fram að við framlagningu nauðsynlegra frumvarpa til lagabreytinga, vegna innleiðinga EES-gerða í íslensk lög, skuli tilgreint sérstaklega í greinargerð ef gengið er lengra en lágmarksákvæði viðkomandi gerðar kveða á um. Í þeim tilfellum skal rökstuðningur fylgja slíkri ákvörðun, sbr. 8. gr. reglnanna.

Í skýrslu starfshóps um EES-samstarfið frá 2019 er m.a. fjallað um framangreint, þ.e. tilvik þar sem stjórnvöld herða á íþyngjandi EES-gerðum við innleiðingu þeirra. Þar kemur fram að víða sé pottur brotinn hvað þetta varðar, en Alþingi samþykkti á liðnum vetri skýrslubeiðni undirritaðrar til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um slík tilvik á málefnasviði ráðherrans.

Það er mikilvægt að ekki sé gengið lengra við innleiðingu EES-gerða en þörf er á. Innlend fyrirtæki og neytendur eiga að sitja við sama borð og aðrir á innri markaði Evrópusambandsins, auk þess sem íþyngjandi og óskilvirkar reglur sem eru sagðar stafa frá EES-samstarfinu koma óorði á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Með vísan til framangreinds hefur undirrituð sent ráðherrum ríkisstjórnarinnar bréf og hvatt til þess að áhersla verði lögð á framangreint í ráðuneytum þeirra, þ.e. að við innleiðingu EES-gerða verði íslenskt regluverk ekki meira íþyngjandi en þörf krefur. Verði ákvörðun tekin um að ganga lengra við lagasetningu séu slík frávik tilgreind sérstaklega og athygli þingsins vakin á því með sérstökum rökstuðningi í samræmi við framangreindar reglur um þinglega meðferð EES-mála.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. september 2023