Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Eitt mikilvægasta hlutverk stjórnmálanna er að sinna ekki aðeins verkefni dagsins í dag heldur að búa í haginn fyrir framtíðina. Við vitum ekki alltaf hvernig hún verður og hversu hratt hún kemur, en við vitum þó að hún kemur og við þurfum að vera undirbúin. Breytingarnar eru hraðar, þær eiga sér stað núna og þær verða enn meiri á komandi árum.
Þau sem skilja hvert straumur breytinganna liggur og eru í stakk búin til þess að nýta hann skapa sér ávinning en þau sem gera það ekki dragast aftur úr. Þetta þekkjum við vel. Mestu vaxtarsprotarnir í íslensku efnahagslífi í dag eru ung fyrirtæki þar sem vísindi, þróun og frumkvöðlahugsun fara saman. Þar verða nú þegar til mikilvægar lausnir á áskorunum samtímans, góð störf og mikil útflutningsverðmæti.
Kraftmiklir háskólar með öflugu vísinda- og þekkingarstarfi eru lykilforsenda þess að við getum haldið áfram að byggja hér þróttmikið samfélag. Hugvit á að vera ein af máttarstoðum landsins og er sú útflutningsgrein sem felur í sér langmest tækifæri næstu áratugi ásamt því að stækka aðrar atvinnugreinar.
Það er sjálfsagt og eðlilegt markmið íslenskra háskóla að standa sig í alþjóðlegum samanburði. Við viljum að hér á landi bjóðist nám í hæsta gæðaflokki og að háskólarnir styðji við samfélagið okkar með öflugum rannsóknum og vísindastarfi. Ef við látum íslensku háskólana dragast aftur úr er hættan sú að fólk haldi í enn frekara mæli í nám erlendis og skili sér aðeins að hluta til baka. Um leið minnka líkurnar á að hér verði til fyrirtæki og verkefni sem skapa störfin og samkeppnishæfnina sem við þurfum svo mjög á að halda.
Ég hef því ráðist í mestu uppstokkun háskólakerfisins í áratugi með það eina leiðarljós að gera miklu betur. Árangurstengd fjármögnun háskólanna kemur í stað eldra líkans frá árinu 1999, sem var orðið barn síns tíma og studdi ekki við sókn háskólanna. Það hvetur til aukinna gæða náms og meiri stuðnings við nemendur – með því að umbuna skólum fyrir loknar einingar og útskriftir nemenda. Það styrkir grundvöll rannsóknastarfs með mun sýnilegri hætti en áður og tekur tillit til bæði afkasta og gæða með fjölbreyttum mælikvörðum. Um leið stóreykst gagnsæi í kerfinu í þágu betri nýtingar fjármuna.
Háskólarnir eru máttarstólpi í heilbrigðu og kröftugu þjóðfélagi og því ekki einkamál háskólasamfélagsins. Góðum háskólum fylgja tækifæri fyrir allt samfélagið, þeir rækta hæfileika fólks, laða að sér kraftmikla einstaklinga, úr nærumhverfinu og hvaðanæva. Þannig tryggjum við að hér verði til nýjar kynslóðir sérfræðinga, vísindamanna, hugsuða, listafólks, lækna, frumkvöðla og allra hinna með öll þau tæki sem þau þurfa til að gera það besta úr sínum hæfileikum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. september 2023.