Óli Björn Kárason alþingismaður:
Satt best að segja þá skil ég ekki hvernig stýrihópur mennta- og barnamálaráðherra komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að sameina Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri. Boðað var til fundar og sameiningaráformin kynnt þrátt fyrir að eftir væri að „greina tækifæri, kosti og galla þess að sameina skólana“, eins og kom fram í tilkynningu á vef ráðuneytisins. Sú vinna var sögð eiga að fara fram „í samstarfi við starfsfólk beggja skóla, nemendur og foreldra, og munu skólameistarar VMA og MA stýra þeirri vinnu“. Skólunum er (var) ætlað að „skila drögum að skipulagi og uppbyggingu hins sameinaða skóla í byrjun nóvember“.
Sem sagt: Ráðherra ákveður að sameina tvo rótgróna framhaldsskóla, draga úr fjölbreytileika og valmöguleikum ungs fólks, áður en undirbúningsvinna hefur farið fram eða ítarleg greining á kostum og göllum sameiningar. Af minna tilefni hefur verið sagt: Svona gera menn ekki!
Ekki farið eftir leiðbeiningum
Í ágætu leiðbeiningariti sem fjármálaráðuneytið gaf út árið 2008 um sameiningu stofnana og tengdar breytingar er bent á að sameining sé iðulega nokkurra ára ferli sem kalli á umfangsmeiri og vandasamari breytingar en almennt. Margt geti farið úrskeiðis og vandaður undirbúningur stuðli að góðum árangri:
„Hlutaðeigandi ráðuneyti þarf að gæta þess að sameining sé vel undirbúin og veita henni öflugan stuðning þar til sameiningarferlinu er lokið. Fyrsta skrefið er að fela hópi manna að gera frumathugun áður en ákvörðun um sameiningu er tekin. Vinnan felst einkum í því að fjalla um stöðuna, móta framtíðarsýn, setja skýr markmið með sameiningu, velja viðmiðanir, skoða valkosti, greina hindranir og fjalla um álitamál. Mælt er með því að setja niðurstöður í skýrslu sem lögð er til grundvallar vandaðri kynningu og ákvörðun.
Sameiningu stofnana fylgja yfirleitt bæði kostir og gallar sem ætti að vega og meta með tilliti til annarra valkosta. Sameining er ekki sjálfstætt markmið, heldur leið til að ná öðrum markmiðum.“
Í desember 2021 skilaði ríkisendurskoðandi stjórnsýsluúttekt á stofnunum ríkisins, fjölda, stærð og stærðarhagkvæmni. Úttektin var frumkvæðisathugun og þar var sérstök athygli vakin á eftirfarandi:
„Afar mikilvægt er að undirbúa sameiningar af kostgæfni eigi þær að skila tilætluðum árangri. Brýnt er að gera frumathugun/fýsileikakönnun og skilgreina markmið með sameiningu. Efna þarf til víðtæks samráðs og gera ítarlega samrunaáætlun. Þá þarf að virkja starfsfólk þegar sameiningu er hrint í framkvæmd og meta árangur af sameiningu.“
Leiðbeiningar fjármálaráðuneytisins og ábendingar ríkisendurskoðanda eru raunar svo sjálfsagðar að ekki ætti að þurfa að setja þær niður á blað. En reynslan sýnir annað. Ekki verður séð að mennta- og barnamálaráðuneytið hafi farið eftir vinnureglum sem þykja nauðsynlegar við undirbúning sameiningar.
Á hálu lagalegu svelli
Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins, færir rök að því að ráðherra skorti lagaheimild til að fyrirskipa sameiningu skólanna. Á facebook-síðu sinni bendir hann á að sérstaða skóla, sjálfstæði og samkeppni þeirra á milli hafi verið ofarlega í huga löggjafans þegar lög um framhaldsskóla voru sett árið 2008. „Markmið laganna var þannig m.a. að framhaldsskólarnir gætu markað sér sérstöðu, fetað eigin leiðir og byggt upp getu sína og færni til að þjóna markmiðum sínum á eigin forsendum. Sjálfstæði skólanna var aukið og miðstýring var minnkuð.“
Hlutverk ráðherra var skilgreint með afmarkaðri hætti en áður í 3. gr. og í lögskýringargögnum sé tekið fram að greinin „í heild sinni undirstriki „aukið faglegt sjálfstæði framhaldsskóla“. Samkvæmt 8. gr. laganna njóti skólastjóri í samráði við skólanefnd mun meira sjálfstæðis við ráðningar starfsfólks en áður var. Í lögskýringargögnum er tekið fram að með þessu sé eldra fyrirkomulag aðlagað „auknu sjálfstæði skóla um fyrirkomulag starfsmannamála“. Auk þess er tekið fram að miðað sé við að einstakir skólar „ákveði sjálfir skipulag sitt“.“
Niðurstaða Reimars er að skynsamlegast sé fyrir ráðherra, standi vilji hans til víðtækra sameininga framhaldsskóla, að mæla „fyrir frumvarpi á Alþingi til sérstakra laga um efnið þar sem mælt væri fyrir um efnislegar forsendur sameiningar og aðild skólayfirvalda, nemenda og annarra að sameiningarferlinu“.
Svo segir mér hugur að frumvarp af þessu tagi falli í grýttan jarðveg í þingsal.
Misskilningur
Áform um sameiningu MA og VMA eru byggð á miklum misskilningi. Hér er ekki verið að sameina stjórnsýslustofnanir eða eftirlitsstofnanir ríkisins. Ekki einkynja sýslumannsembætti eða dómstóla, ekki skatt- og tollstjóra, ekki veikburða ríkisstofnanir sem sinna afmörkuðum verkefnum. Nei. Ætlunin er að sameina menntastofnanir, með ólíkar hefðir, uppbyggingu og skipulag náms. Skóla sem byggjast á ólíkri hugmyndafræði, sögu og menningu og hafa hvor um sig náð góðum árangri. Skóla sem bjóða nemendum mismunandi nám. Skóla sem eiga samvinnu en keppa engu að síður um nemendur. Skóla sem hafa myndað festu og tækifæri á öllu Norðurlandi.
Hlutverk yfirvalda menntamála er að fjölga valmöguleikum ungs fólks og tryggja gæði námsins.
Það er ekki hlutverk þeirra að draga úr fjölbreytileika, reyna að steypa alla í sama mótið – ríkismótið. Þvert á móti er það ein grunnskylda stjórnvalda að stuðla að sem mestum fjölbreytileika þannig að ungt fólk geti betur
fundið nám við hæfi – þar sem áhugi þess og hæfileikar fá að blómstra.
Einhæfni og samkeppnisleysi dregur úr gæðum og líkur eru á því að færri finni nám við hæfi. Sömu lögmál gilda um menntun og flesta aðra þjónustu. Samkeppni kallar fram það besta fyrir neytendur. Skólar eiga að keppa um nemendur en ekki taka þeim sem sjálfgefnum þar sem þeir eiga ekkert annað raunhæft val. Skortur á samkeppni er dragbítur í menntakerfinu, ekki tveir sjálfstæðir framhaldsskólar á Akureyri.
Með sama hætti og hagsmunir nemenda verða fyrir borð bornir með sameiningu verður starfsmöguleikum kennara fórnað. Sögunni og menningunni er kastað á hauga sögunnar. Það er kórrétt sem Jón Már Héðinsson, fyrrverandi skólameistari MA, sagði í viðtali við mbl.is. Áformin um sameiningu „eru virðingarleysi við það öfluga nám og starf sem unnið er í báðum skólunum“. Jón Már veltir því fyrir sér hvort ástæða þess að reynt sé að knýja á um sameiningu sé sú að ekki sé „til skólasýn og skólastefna fyrir Ísland, hvernig skólastarf og skóla við viljum hafa í landinu“. Ég veit að við Jón Már vonumst báðir eftir því að hann hafi rangt fyrir sér.
Sameiningin andvana fædd
Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með hvernig nemendur, kennarar og atvinnulífið á Akureyri hafa tekið höndum saman um að koma í veg fyrir að áform um sameiningu gangi eftir. Fyrrverandi nemendur hafa ekki látið sitt eftir liggja (undirritaður er stúdent frá MA). Andstaðan er mikil – svo djúpstæð að sameiningin er andvana fædd.
Mennta- og barnamálaráðherra er ágætlega skynsamur. Þess vegna geng ég út frá því að hann grafi tillögur stýrihópsins djúpt niður í ómerkta skúffu ráðuneytisins, læsi henni og fleygi lyklinum.
Í stað fábreytileikans á að lofa vindum valfrelsis að blása um framhaldsskólakerfið með öllum blæbrigðum sem fjölbreytileikinn gefur. Samfélagið mun allt uppskera; betri skóla og meiri gæði menntunar, nýsköpun og hagkvæmari og arðbærari nýtingu fjármuna.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. september 2023.