Afnám jafnlaunavottunar?

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Þann 1. janúar 2018 tóku gildi lög um jafnlaunavottun. Með lögunum var lögfest skylda fyrirtækja og stofnana, þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa, til að öðlast svokallaða jafnlaunavottun frá faggiltum vottunaraðila. Í þessu felst að fyrirtækin og stofnanir skulu undirgangast vottunarferli sem á að leiða það í ljós hvort þar ríki launajafnrétti.

Í greinargerð með lögunum var bent á að þrátt fyrir að jafnrétti kynjanna væri samkvæmt mælingum hvergi meira en á Íslandi, ár eftir ár, hefði jafnrétti ekki náðst á öllum sviðum samfélagsins. Þannig væri kynbundinn launamunur viðvarandi vandi á íslenskum vinnumarkaði. Þessum mun yrði ekki útrýmt nema með aðgerðum, en markmið laganna var að „koma á launajafnrétti kynjanna með jafnlaunavottun á grundvelli lagasetningar“.

Í kjölfar fjölmargra ábendinga og umkvartana frá atvinnulífinu, lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi til forsætisráðherra um árangur laga um jafnlaunavottun. Ég spurði m.a. að því hvort merkja mætti mælanlega breytingu á þróun kynbundins launamunar frá lögfestingunni. Ég spurði sömuleiðis hver munurinn væri á þeim fyrirtækjum og stofnunum sem hlotið hefðu jafnlaunavottun og öðrum þegar kemur að kynbundnum launamun.

Enginn marktækur munur á kynbundnum launamun

Í svari forsætisráðherra kemur fram að samkvæmt nýjustu launarannsókn Hagstofunnar (2008-2020) mældist ekki marktækur munur á kynbundnum launamun hjá aðilum sem hafa fengið jafnlaunavottun og hinum sem ekki hafa gert það. Þó er þar fullyrt að „flest bendi til þess“ að lögfesting vottunarinnar hafi haft áhrif á kynbundinn launamun. Sá fyrirvari var þó gerður í svarinu að skammt sé liðið frá þeim fresti sem atvinnurekendur höfðu til þess að undirgangast ferlið.

Samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknum hefur dregið úr kynbundnum launamun á undanförnum árum og áratugum. Í svarinu er sérstaklega tekið fram að launamunur hafi þó dregist meira saman frá árinu 2018 en árin þar á undan. Þrátt fyrir að ekki mælist marktækur launamunur á þeim sem hlotið hafa jafnlaunavottun og öðrum,  er staðhæft að flest bendi til þess að lögfestingin hafi haft áhrif á launamun kynja. Þetta er undarleg fullyrðing þar eð nákvæmlega ekkert virðist benda til þess í nýlegri rannsókn Hagstofunnar.

Í svari forsætisráðherra kemur einnig fram að ekki séu til upplýsingar um kostnað aðila við jafnlaunavottun, en ekki var lagt mat á kostnað við lögfestingu hennar. Gera má ráð fyrir að kostnaðurinn sé umtalsverður, enda verja aðilar bæði tíma og fjármunum í ferlið. Í könnun sem Samtök atvinnulífsins létu framkvæma meðal félagsmanna sinna á árinu 2021 kom fram að kostnaður fyrirtækja sem höfðu farið í gegnum vottunarferlið nam að meðaltali um 16 milljónum króna. Verði 1.200 fyrirtækjum gert að ljúka vottuninni, verður heildarkostnaðurinn því um 20 milljarðar króna, auk fjármuna sem þarf síðan að verja til að viðhalda vottuninni. Við þekkjum það auðvitað vel að stjórnvöld huga ekki endilega að kostnaði og flækjustigi fyrir atvinnurekendur þegar þau leggja á þá íþyngjandi kvaðir.

Það er mikilvægt að við fylgjum ákvæðum laga og kjarasamninga um jafnrétti kynjanna og um bann við launamismunun. Eins og fram kemur í svari forsætisráðherra hefur mikill árangur náðst undanfarin ár og áratugi. Það er hins vegar sömuleiðis mikilvægt að ekki séu lagðar íþyngjandi kvaðir á fyrirtæki án tillits til kostnaðar, hvað þá ef ótvíræður árangur mælist ekki. Það verður að veita stjórnvöldum ríkulegt aðhald í þeim efnum. Þá er einnig mikilvægt fyrir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs að það sé ekki hlaðið óþarfa álögum og byrðum sem fyrirfinnast ekki á samanburðarmörkuðum. Skylda til jafnlaunavottun hefur ekki verið lögfest í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við, t.a.m. á Norðurlöndunum.

Líkt og forsætisráðherra bendir á, er skammur tími liðinn frá  innleiðingarskyldu, en von er á nýrri rannsókn á árangri (eða árangursleysi) jafnlaunavottunar á þessu ári. Sú rannsókn sem þegar hefur farið fram gefur þó ákveðna vísbendingu. Verði samræmi milli niðurstaðna rannsóknanna er komið ríkt tilefni til að endurskoða íþyngjandi ákvæði laga um jafnlaunavottun.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 20. september 2023