Samkeppnishæft umhverfi fyrir öflugt atvinnulíf

Sjálfstæðisstefnan snýst um að skapa samkeppnishæft umhverfi fyrir atvinnulífið. Þannig verða til vel borgandi og spennandi störf og ríkissjóður getur haldið úti þéttriðnu velferðarkerfi og rekið ábyrga og skilvirka opinbera þjónustu í þágu fólksins í landinu. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna Benediktsson á Sprengisandi og hægt er að hlusta á í heild sinni hér.

“Þeir sem að halda að lausnin sé að hækka og hækka skatta enda á að taka svo mikið að þeir drepa allt niður í dróma og slíkt hefur sannað sig aftur og aftur,” sagði Bjarni.

Bjarni fór jafnframt yfir það að frá 2013, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór í ríkisstjórn, hefur hér verið samfleytt stöðugleikatímabil eða allt þar til við lendum í heimsfaraldri. Síðan komi stríð í Úkraínu og margar aðrar þjóðir Evrópu séu að glíma við verðbólgu í kjölfarið. “Við getum náð tökum á verðbólgunni ef við missum ekki þolinmæðina en það er vandasamt verkefni og ríkisfjármálin skipta þar miklu máli. Ríkisstjórnin er að leggja sitt af mörkum með því að bæta afkomu ríkissjóðs, draga úr ríkisumsvifum og fara í hagræðingaraðgerðir en standa samt með uppbyggingu innviða,” segir Bjarni.