Árangurstengd fjármögnun háskólanna er forsenda þess að íslenskir háskólar geti náð enn betri árangri, að því er fram kom í máli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í dag, en hún kynnti í dag áform sín um breytingar á fjármögnunarlíkani háskólanna. Að mati hennar tryggir gagnsæi hins nýja fyrirkomulags að skólarnir sjái að árangur þeirra skili þeim auknu fjármagni.
„Íslenskir háskólanemar eiga skilið betra háskólanám og samfélagið á skilið að hér séu háskólar á heimsmælikvarða. Sú er því miður ekki raunin. Hin Norðurlöndin hafa öll átt skóla á meðal 100 bestu háskóla heims, en enginn íslenskur háskóli nær á listann yfir 300 bestu. Við eigum frábæra kennara og hæfileikaríka og metnaðargjarna nemendur en kerfið hefur leitt til ákveðinnar sóunar og hvorki veitt skólunum þann stuðning né búið til þá hvata sem eru forsenda framúrskarandi árangurs,“ sagði Áslaug Arna, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins. Um árabil hafi skólarnir kallað eftir endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi sem byggi á reiknilíkani frá árinu 1999.
Samkvæmt fyrra reiknilíkani byggðust fjárframlög til háskóla á þreyttum einingum (65%), brautskráningum (5%) og „rannsóknum og öðru“ (30%), að því er fram kom í kynningu Áslaugar Örnu. Reiknilíkanið hafi verið mikil framför á sínum tíma en hafi tekið óverulegum breytingum á aldarfjórðungi á meðan samfélagið og væntingar nemenda hafi tekið stakkaskiptum. Jafnframt hafi liðurinn „rannsóknir og annað“ orðið afar ógagnsær með tímanum og æ minni hluti raunverulega farið til rannsókna.
Hið nýja reiknilíkan byggir í grófum dráttum á þremur hlutum, þ.e. kennsluhluta (60%), rannsóknahluta (15%) og samfélagslegu hlutverki (25%), en þessi skipting er áþekk þeirri aðferð sem notast er við á Norðurlöndunum.
Á vef Stjórnarráðsins er að finna myndræna framsetningu á frekari sundurliðun hinnar árangurstengdu fjármögnunar háskólanna, auk myndbandsupptöku af kynningu Áslaugar Örnu, en undirflokkarnir eru tíu talsins. Þeir eru eftirfarandi:
- Kennsluhluti (60%)
- Loknar einingar (42%)
- Útskriftir í grunn- og meistaranámi (18%)
- Rannsóknahluti (15%)
- Birtingatölfræði rannsókna (8,2%)
- Útskriftir doktorsnema (Ph.D.) (2,25%)
- Erlendir styrkir til rannsókna og vísindastarfs (4,5%)
- Samfélagslegt hlutverk (25%)
- Kennsluauki (5%)
- Rannsóknarauki (5%)
- Efling byggða (3%)
- Innleiðing (6%)
- Sókn í þágu háskóla og samfélags (6%)
Þá kom einnig fram í kynningu Áslaugar Örnu að sjálfstætt starfandi skólar fengju 75% þess fjármagns sem þeir fengju ef rekstrarform þeirra væri opinbert og þeir innheimtu ekki skólagjöld, en það er sameiginlegt með sjálfstæðu skólunum að þeir hafa lögum samkvæmt heimild til að innheimta skólagjöld sem opinberir háskólar hafa ekki.