Boðar aðhald í ríkisrekstri
'}}

„Við sjáum að skuldahlutföllin eru þar af leiðandi mjög heilbrigð og fara lækkandi. Þetta gerir okkur kleift að vera í stórum innviðafjárfestingum en við þurfum að fara fram á aðhald í ríkisrekstrinum en getum verið að byggja nýjan Landspítala, setjum fimmtíu milljarða í Landspítalann í ár og á næsta ári,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í samtali við visir.is eftir að hafa kynnt fjárlagafrumvarpið í dag.

Hann segir það helsta í fjárlagafrumvarpinu vera sterka stöðu ríkissjóðs. Afkoman í fyrra og í ár hafi verið mun betri en gert hafi verið ráði fyrir og að væntingar séu góðar fyrir næsta ár.

Bjarni segir að áform séu uppi um að byggja upp samgöngukerfið, styðja við íbúðauppbyggingu og að styðja áfram við rannsóknir og þróunarstarf.

Hann segir mörg jákvæð teikn á lofti í ríkisrekstri. Hagvöxtur sé mikill og að störfum hafi fjölgað gríðarlega. Áfram séu þó áskoranir framundan þar sem verðbólgan sé enn tiltölulega há þó hún sé á niðurleið.

„Þess vegna þarf að halda þétt utan um stöðuna til að sjá framhald á þeirri þróun. Það mun skapa skilyrði fyrir lægri vöxtum og þá getum við sótt fram á þeim nýja grundvelli. Við erum að ná andanum eftir gríðarlega mikla sókn undanfarin ár,“ segir Bjarni.

Bjarni segir að bætta afkomu ríkissjóðs megi m.a. útskýra með auknum efnahagsumvifum sem skili sér beint í ríkissjóð.

„Við höfum verið með nokkuð varfærnar áætlanir en síðan höfum við líka farið fram úr spám í ýmsu tilliti. Það hefur verið töluvert mikil einkaneysla, mikill fjöldi ferðamanna og neysla þeirra hefur verið töluvert mikil. Þetta eru þættir sem hafa mikil áhrif, virðisaukaskatturinn skilar meiru þegar er svona mikill hagvöxtur,“ segir hann.

Gert er ráð fyrir umtalsverðu aðhaldi í ríkisrekstrinum á árinu 2024.

„Við horfum þannig á stöðuna að þetta geti í fyrsta lagi þýtt það að verði ekki ráðið aftur í stöður sem losna. Í einhverjum tilvikum geti þurft að fækka fólki. Við teljum að það séu aðstæður til þess í dag vegna þess að ástandið á vinnumarkaði er mjög gott. Það er mjög mikil eftirspurn eftir vinnuafli á Íslandi og stjórnendur flestir telja að þeir verði í vandræðum með að ráða í þær stöður sem þeir vilja í í einkageiranum,“ segir Bjarni.