Hildur Sverrisdóttir nýr þingflokksformaður

Hildur Sverrisdóttir er nýr formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hún var kjörin á fundi þingflokks í dag í stað Óla Björns Kárasonar sem gegnt hefur embættinu síðan 2021 og óskaði eftir að láta af formennsku í dag.

Hildur settist fyrst á Alþingi 2017 og aftur 2021 fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður. Hildur er fædd 22. október 1978. Hún er með lögfræðipróf frá Háskólanum í Reykjavík og fékk héraðsdómslögmannsréttindi 2009.

Hildur sat í borgarstjórn Reykjavíkur 2016-2017. Hún var aðstoðarmaður ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 2018-2021. Hildur sat í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis 2017 og aftur síðan 2021. Sat í velferðarnefnd Alþingis 2017 og hefur setið í atvinnuveganefnd frá 2021. Þá er hún formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins síðan 2021.