Fjöll og framsýnt fólk

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Mjóifjörður er senni­lega einn af af­skekkt­ustu stöðum lands­ins. Mjóifjörður ber nafn með rentu, hann er mjór og 18 kíló­metra lang­ur. Leiðin þangað er stór­feng­leg og aðeins fær nokkra mánuði á ári en ann­ars er ein­ung­is hægt að kom­ast þangað sjó­leiðina.

Ég er svo hepp­in að hafa heim­sótt flesta staði á Íslandi en ný­verið fór ég til Mjóa­fjarðar í fyrsta sinn ásamt rík­is­stjórn­inni. Við funduðum þar en kom­um líka við á Norðfirði, Fá­skrúðsfirði og Eg­ils­stöðum. Vinnufund­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar var gagn­leg­ur en það sem sit­ur eft­ir er ekki aðeins nátt­úru­feg­urðin á Aust­fjörðum held­ur líka fólkið. Fólkið sem þar býr og hef­ur byggt upp öfl­ugt og sam­heldið sam­fé­lag.

Við funduðum með fjór­um sveit­ar­fé­lög­um og samstaðan var eft­ir­tekt­ar­verð. Slík sam­heldni skipt­ir miklu máli fyr­ir svæðið og er að ég tel einn af lyk­ilþátt­um þess ár­ang­urs sem þau hafa náð. Árangri þar sem áskor­an­ir eru marg­ar og vega­lengd­ir lang­ar.

Aust­f­irðing­ar eru fyrst­ir íbúa dreif­býl­is­lands­hluta utan höfuðborg­ar­svæðis­ins sem skipu­leggja sam­eig­in­legt svæðis­skipu­lag um sam­eig­in­lega framtíðar­sýn í hinum ýmsu mála­flokk­um og sam­starfið því víðtækt.

Aust­ur­brú er frá­bært dæmi þar sem nám, ný­sköp­un, at­vinnuþróun, rann­sókn­ir og fleira flétt­ast sam­an. Tækn­in er nýtt með neti starfs­stöðva og dreifðri þjón­ustu þar sem tæki­fær­in eru grip­in.

Nem­end­ur á Aust­ur­landi geta nú stundað tölv­un­ar­fræði í sinni heima­byggð vegna sam­starfs Aust­ur­brú­ar, Há­skól­ans í Reykja­vík og Há­skól­ans á Ak­ur­eyri og í kjöl­farið kem­ur tækni­fræðin. Í þessu sam­starfi hef­ur verið lögð áhersla á STEAM-grein­ar, þ.e. grein­ar sem byggja á vís­ind­um, tækni, verk­fræði, list­um og stærðfræði.

At­vinnu­lífið hef­ur ein­mitt verið með ákall til stjórn­valda um fjölg­un nem­enda í slíku námi enda vant­ar fólk í störf sem tengj­ast þess­um grein­um. Þannig hafa Aust­f­irðing­ar leyst enn meiri kraft úr læðingi og von­andi mun at­vinnu­tæki­fær­um fjölga þegar fjöl­breytt­ari störf skap­ast með nýj­um at­vinnu­grein­um.

Það eru verðmæti fólg­in í því að geta stundað nám í sinni heima­byggð og fjar­nám gegn­ir þar oft lyk­il­hlut­verki. Mik­il­vægi fjar­náms hef­ur ekki farið fram hjá mér á ferðum mín­um um landið þar sem ég funda með fólki á lands­byggðinni. Ljós­leiðara­væðing­in hef­ur einnig verið mik­il­væg fyr­ir svæðin.

Aust­f­irðing­ar geta vissu­lega verið stolt­ir af þeim verk­efn­um sem þeir hafa komið á lagg­irn­ar. Staðan væri allt önn­ur og lak­ari ef ekki hefði verið fyr­ir öfl­uga heima­menn og traust at­vinnu­líf sem hafði metnað fyr­ir sína heima­byggð og skýra framtíðar­sýn.

Hlut­verk okk­ar sem sitj­um í rík­is­stjórn er að styðja við öfl­ug sam­fé­lög um land allt og tryggja að innviðir stand­ist kröf­ur sam­tím­ans. Þannig tryggj­um við sann­gjarn­ara sam­fé­lag og náum betri ár­angri um land allt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. september 2023.