Endurskoðun samgöngusáttmálans

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Ánægjulegt er að þeim stjórnmálamönnum fari fjölgandi, sem styðja endurskoðun svokallaðs samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Mikilvægt er að arðsemi og umferðaröryggi verði höfð að leiðarljósi við endurskoðun sáttmálans en dýrum og óarðbærum gæluverkefnum hafnað.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sagt, að kostnaður vegna samgöngusáttmálans sé slíkur að endurskoða þurfi allar forsendur hans. Mjög langt sé frá því að fjárhagslegar forsendur sáttmálans geti gengið upp.

Í sáttmálanum er kveðið á um ýmsar samgönguframkvæmdir og ríkir breið samstaða um flestar þeirra. Nefna má stofnvegaframkvæmdir sem og lagningu hjóla- og göngustíga. Svonefnd borgarlína er hins vegar umdeild enda ríkir mikil óvissa um kostnað við það verkefni og hvaða árangri það muni skila.

Skattgreiðendur hljóta að gera þá kröfu til stjórnmálamanna að ekki verði ráðist í borgarlínu eða önnur samgönguverkefni upp á tugi eða hundruð milljarða króna, nema raunhæf kostnaðaráætlun liggi fyrir og ávinningurinn sé ljós.

Gífurlegur kostnaður

Árum saman hafa undarlegar forsendur verið kynntar varðandi fjárfestingarkostnað og notkun borgarlínu, sem byggjast á hreinni óskhyggju. Þá hafa hugmyndasmiðirnir aldrei viljað ræða hver rekstrarkostnaðurinn verður eða á hverjum hann lendir. Allt bendir til að borgarlínan verði óarðbær með öllu en tapreksturinn lendi á skattgreiðendum eins og fyrri daginn.

Árið 2019 var því haldið fram að fjárfestingarkostnaður við borgarlínu myndi nema um 60 milljörðum króna. Nú er talið að fjárfestingin verði ekki undir 100 milljörðum og geti jafnvel farið vel yfir 200 milljarða króna. Við þetta bætist svo rekstrarkostnaðurinn, sem enginn veit hvað verður mikill.

Borgarlínuskattur

Stuðningsmenn borgarlínu vilja fjármagna framkvæmdir við hana með sérstökum veggjöldum á Reykvíkinga, sem nú þegar greiða einhverja hæstu bensínskatta og bifreiðagjöld í heimi. Hugmyndin er sú að rafskynjarar, sem settir verða upp á ákveðnum stöðum í borginni, skrái alla bílaumferð og síðan verði viðkomandi bíleigandi skattlagður til viðbótar út frá þeim upplýsingum.

Verði nýr vegskattur lagður á höfuðborgarbúa, er grundvallarkrafa að önnur skattheimta, t.d. bensínskattur, verði minnkuð jafnmikið á móti. Fáir trúa því að það verði gert. Miðað við fyrirliggjandi hugmyndir myndi slíkur skattur leggjast þyngst á þá Reykvíkinga, sem búa austan Elliðaánna.

Ótækt er að skattgreiðendur séu látnir fjármagna slíkt verkefni þegar allar forsendur varðandi ávinning, fjárfestingu og rekstur eru svo veikar.

Eflum almenningssamgöngur

Hægt er að stórbæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu með því að ráðast strax í endurbætur á núverandi kerfi í stað þess að byggja upp annað kerfi til viðbótar, sem tæki mörg ár og óheyrilega mikið fé.

Á skömmum tíma væri hægt að bæta leiðakerfi Strætó, endurnýja vagnaflotann, bæta biðskýlin, skipta út lélegu greiðslukerfi og hefja að nýju lagningu sérakreina fyrir strætisvagna.

Ekki þyrfti að bíða eftir borgarlínunni til þess að ráðast í slíkar umbætur á strætókerfinu í Reykjavík. Þær væri hægt að gera strax.