Við göngum ekki frá ókláruðu verki

„Ríkisfjármálin þróast þessi misserin með jákvæðum hætti langt umfram væntingar. Tvö ár í röð er afkoman 100 milljörðum betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þar munar um rekstur eins Landspítala hvort árið eða svo. Ekkert af þessu er tilviljun eða heppni,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins í setningarræðu á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins sem nú stendur yfir á Hilton Reykjavík Nordica. Metþáttaka er í fundinum eða á fjórða hundrað flokksráðsfulltrúar.

Ræðuna má finna í heild sinni hér og í spilaranum neðst á síðunni.

Hann sagði stefnu Sjálfstæðisflokksins í ríkisfjármálum eiga stóran þátt í viðsnúningnum, enda hafi lág skuldastaða ríkissjóðs skapað tækifæri til að bregðast myndarlega við þegar á þurfti að halda.

„Við stóðum með heimilum og fyrirtækjum. Störfin komu til baka þegar faraldurinn var afstaðinn og staða ríkissjóðs verður um leið allt önnur,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.

Hann sagði réttan tímann til að koma saman til fundar núna, þegar við finnum að allar vélar séu að hrökkva í gang fyri rhaustið. Það sé skammt til þingsetningar. Þar ræddi hann um frelsið og mikilvægi þess að þingmenn standi með frelsinu.

„Já, það er eins gott, að frjálslynt fólk eigi trausta fulltrúa í þinghúsinu, þegar lög eru skrúfuð saman.

Og örvæntið ekki, þannig vill til, að mörg brýn mál, sem horfa til framfara, eru einmitt á döfinni núna.

Þingflokkurinn kom því saman að Laugum í Sælingsdal í síðustu viku,“ sagði Bjrni og sagði að þingflokkurinn ætli að láta til sín taka í haust til heilla fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki í landinu.

Bjarni sagði sumarið hafa verið tíðindameira í stjórnmálunum en við eigum að venjast, af góðu jafnt sem illu.

„Stjórnmálin geta verið sveiflukennd rétt eins og tíðarfarið og umræða um andann á stjórnarheimilinu hefur ekki farið framhjá mér. Ég heyri líka ýmislegt misgáfulegt sem sagt er um flokkinn okkar,“ sagði Bjarni.

Hann ræddi árangurinn af þátttöku okkar í ríkisstjórn og sagði að við værum við á undan áætlun á nær alla mælikvarða.

Góður gangur á öllum sviðum atvinnulífs

„Þetta er uppskrift okkar í hnotskurn og undirstaða góðra lífskjara – ábyrg ríkisfjármál og kraftmikið atvinnulíf – þessi uppskrift skilar alltaf sama góða árangrinum. Íslenskt atvinnulíf hefur tekið við sér með þvílíkum krafti eftir faraldur að engar spár náðu utan um þann vöxt. Segja má að á öllum sviðum atvinnulífsins sé góður gangur. Nýjar atvinnugreinar halda áfram vaxa, atvinnulífið verður fyrir vikið fjölbreyttara og tækifærin sömuleiðis. Nýlega seldu frumkvöðlar fyrir vestan íslenskt hugvit fyrir tæplega tvöhundruð milljarða króna. Við það tilefni sagði stofnandinn að í dag væri hvergi betra að vera nýsköpunarfyrirtæki en á Íslandi!“

Hann sagði árangur Kerecis vera árangur frumkvöðla og starfsfólks, það sé ekki árangur sem stórnvöld geti eignað sér.

„En það er ekki tilviljun að slíkt fyrirtæki verður til í hvetjandi umhverfi og á grunni sjávarútvegs í landi sem stýrir þeirri flóknu atvinnugrein með langtímahugsun og sjálfbæru, arðbæru fyrirkomulagi, en ekki með niðurgreiddum og fátæklegum skammtíma reddingum, eins og tíðkast víðast hvar í heiminum. Og hvort sem er í tengslum við afurðir sjávar, lands eða bara sköpunargáfu hugans, eins og sér, sækja íslenskir frumkvöðlar fram sem aldrei fyrr, skapa nýjar lausnir, ný störf og tekjur fyrir samfélagið allt,“ sagði Bjarni.

Hann sagði stefnu okkar um að veita skattaafslætti og endurgreiðslur til þeirra sem láta hendur standa fram úr ermum hafa sannað gildi sitt svo um munar. Að skapa jákvætt og hvetjandi umhverfi fyrir fólk sem vilji láta til sín taka sé kjarnamál sjálfstæðismanna. Frumkvöðlastarf á öllum sviðum og í öllum landshlutum. Hann sagði tækifærin í matvælaframleiðslu gríðarleg, við sjáum stærri og tæknivæddari gróðurhús rísa og að kornrækt sé að taka hressilega við sér.

„Í febrúar heimsótti þingflokkurinn fjölda bæja vítt og breitt um landið, þar sem framsýni og hagnýting nýrrar tækni blasti alls staðar við. Við fengum meira að segja að smakka ískaffi beint af býli! Lattelepjandi þingmenn okkar úr Reykjavík kunnu vel að meta það!,“ sagði hann og uppskar mikinn hlátur úr sal.

Þá sagði hann að í bændum þessa lands megi segja að sjálfstæðisstefnan kristallist.

„Þeir taka áhættu, byggja upp rekstur, aðlagast síbreytilegum aðstæðum og fæða þjóðina með afurðum á heimsmælikvarða. Má ég segja í þessu samhengi að auðvitað var það nauðsynlegt að matvælaráðherrann hætti við boðaðar gjaldskrárhækkanir MAST.“

„Á landsfundi nefndi ég líka frumkvöðlana sem hafa blásið lífi í lítil samfélög um land allt með rekstri brugghúsa. Mér er til efs að nokkurt annað ríki búi að jafn blómlegri menningu á því sviði miðað við mannfjölda – og öll þessi gróska er nýlega til komin. Og ég get sagt það við þennan hóp hér að ég hyggst leggja fram frumvarp í haust um sérstaka skattaafslætti fyrir þessa frumkvöðla til að létta þeim róðurinn og leggja grunn að enn öflugri starfsemi!,“ sagði hann.

Verkefninu er aldrei lokið

Bjarni vék að verkefnum ríkisstjórnarinnar og sagði að þó afkoma ríkisins fari batnandi látum við ekki þar við sitja. Það sé verið að reisa nýjan landspítala, stöðugt verið að styrkja heilbrigðiskerfið, sjúkratryggingar og byggja ný hjúkrunarheimili. Löggæslan hafi verið elfd sem og háskólar og stuðningur við nýsköpun hafi skilað miklum árangri.

„Ólíkt vinum okkar í stjórnarandstöðunni lítum við hins vegar ekki á veski landsmanna sem opinn tékka. Nei, við sýnum ábyrgð og forgangsröðum,“ sagði Bjarni.

Hann sagði atvinnulífið stöðugt leita leiða til að gera meira fyrir minna.

„Þið þekkið öll dæmin úr daglegu lífi, samskipti við fjármálastofnanir hafa gjörbreyst, við rekum flest erinda okkar við bankann í símanum, notum sjálfsafgreiðslu í matvöruverslunum. Það er eðlileg krafa að hið opinbera aðlagist nýjum tímum ekki síður en einkageirinn. Í gær hélt ég blaðamannafund um stöðu ríkisfjármálanna og kynnti þar 17 milljarða hagræðingaraðgerðir á næsta fjárlagaári. Við ætlum að spara í launakostnaði, einfalda kerfið, sameina stofnanir, auka aðhald í ráðuneytum og draga úr nýjum verkefnum,“ sagði hann.

Bjarni sagði einhverja úr stjórnarandstöðunni hafi spurt fyrir hvikið hvort ríkisstjórnin hafi ekki ætlað að vera búna að gera þetta fyrir löngu.

„Svarið við því er að við byrjuðum vissulega fyrir löngu – en við verðum aldrei búin. Það þarf stöðugt að fara fram á aukna framleiðni, gera betur, endurmeta útgjaldaþörfina, forgangsraða, nýta tæknina. Verkefninu er aldrei lokið!“

Aldrei farið ein með völd í landinu

„Ég minntist hér áðan á stjórnarsamstarfið. Áður en lengra er haldið vil ég segja, að í sögu Sjálfstæðisflokksins höfum við aldrei farið ein með völd í landinu. Ólafur Thors myndaði ríkisstjórn með Sósíalistum. Alvöru gamaldags moskvu sósíalistum. Þetta stjórnarsamstarf var aldeilis umdeilt, hópur þingmanna flokksins okkar neitaði að styðja stjórnina og hún féll síðar vegna deilunnar um veru bandaríska varnarliðsins hér á landi,“ sagði Bjarni.

Hann sagði Ólaf Thors aldrei hafa hvikað frá grundvallargildum flokksins en metið það sem svo á sínum tíma að rétt væri að efna til þessa stjórnarsamstarfs þjóðinni til heilla – þó hann hafi gert sér fulla grein fyrir því að slíkt stjórn byggði á málamiðlunum.

„Ég rifja þetta upp vegna þess að málamiðlanir eru órjúfanlegur hluti samstarfs í stjórnmálum á Íslandi. Auðvitað viljum við öll vera miklu meiri sjálfstæðismenn. Helst viljum við auðvitað að sjálfstæðisstefnan ráði för í öllum málum sem glímt er við, auðvitað og nema hvað. En gleymum því ekki að samstarfsflokkar okkar vilja sömuleiðis gera miklu meira af sínu, oft þvert á okkar eigin stefnu. Og þegar gengið er of langt í þeim efnum verðum við að sjálfsögðu að bregðast við.

Það er oft þannig að samstarfið getur tekið á. Það getur verið erfitt. Ég heyri jafnvel talað um að það sé orðið þreytt. En þó við verðum stundum þreytt. Þó hlutirnir taki á. Þá gefumst við ekki upp. Það er einfaldlega ekki í boði að gefast bara upp!“

„Við það loforð hyggjumst við standa“

Bjarni rifjaði einnig upp hve miklum árangri við hefðum oft náð í samsteypustjórnum. Undanfarin ár hafi tekjuskattur og tryggingagjald lækkað og frítekjumörk verið hækkuð. Skattahvatar hafi verið nýttir til að blása auknum krafti í atvinnulífið til að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft. En það hafi líka verið notað til að hjálpa öðrum með frádrætti fyrir styrki til almannaheilla. Lífskjör hafi vaxið ár frá ári. Tollar og vörugjöld hafi verið afnumin, stofnanir sameinaðar, úrelt regluverk afnumið, bótakerfi almannatrygginga verið stórbætt og haldið sjó og gott betur í gegnum efnahagsáföll.

„Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem þjóðin hefur ítrekað og oftast veitt mestan stuðning og flokkurinn því verið í forystu landsmála meira og minna í hartnær hundrað ár. Kjósendur hafa getað gengið að því vísu að Sjálfstæðisflokkurinn byggi yfir þeim pólitíska þroska að ríkisstjórnir sem hann ætti aðild að, hversu ólíkir sem samstarfsflokkarnir væru, létu hagsmuni íslensku þjóðarinnar í bráð og lengd ganga fyrir öllu. Og ólíkt óstjórntækum smáflokkum, sem við þekkjum alltof vel af eigin raun, þá göngum við ekki frá hálfkláruðu verki þótt móti blási. Við mynduðum ríkisstjórn um stöðugleika og við það loforð hyggjumst við standa,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að í pólitískri upplausn sé atvinnulífið og velferð alls samfélagsins undir, enda eigi fólkið sem berst harðast fyrir upplausn og glundroða í stjórnmálum það sameiginlegt að skeyta almennt ekkret um atvinnulíf og hagsæld í landinu.

„Ég veit að við sem erum hér saman komin brennum fyrir enn meiri árangri fyrir landið okkar og vitum að Sjálfstæðisflokkurinn þarf að sækja enn meiri stuðning, meiri kraft til að tryggja árangur fyrir landsmenn,“ sagði Bjarni.

Gæti vart hugsað sér meiri meðmæli með nokkrum ráðherra

„Ég sé það í fréttum síðustu daga að þingmaðurinn Helga Vala Helgadóttir er mjög óánægð með dómsmálaráðherrann okkar. Ég get vart hugsað mér meiri meðmæli með nokkrum ráðherra! Já, margir sem háværir og fyrirferðarmiklir eru í fjölmiðlum sjá enga þörf fyrir umbætur í útlendingamálum, né að markmið laganna séu virt. Markmið um að hafa stjórn á landamærunum og reglu á því hverjir ávinni sér rétt til búsetu og þjónustu á Íslandi. Þegar við höfum fylgt löngu og allt of kostnaðarsömu ferli til að meta umsóknir um vernd á Íslandi og niðurstaðan er neitun – nú, þá er það niðustaðan. Og hana ber að virða,“ sagði Bjarni. Í kjölfarið risu fundarmenn úr sætum og hylltu Jón Gunnarsson og Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem gegnt hafa embætti dómsmálaráðherra á kjörtímabilinu fyrir þeirra festu og dug í vandasömum málaflokkum.

Bjarni nefndi einnig að nú í fyrsta sinn í sögu flokksins væri meirihluti ráðherraliðs hans konur.

Staðan í fjármálum borgarinnar táknræn

Bjarni vék ræðunni að málefnum Reykjavíkurborgar og sagði: „Sjálfstæðisflokkurinn er ekki fullkominn, rétt er það. En það er munur á því að vera ekki fullkominn og vera fullkomlega vonlaus. Og já – flestir hér inni vita hvaða flokk ég á við. Nýverið hefur umræddur flokkur til dæmis verið að innleiða nýja umhverfisstefnu í Reykjavík,“ sagði hann.

Hann sagði hana felast í því að íbúar stundi ósjálfviljugir moltugerð í tunnunum heima. Verkefnið sé afrakstur nokkurra stýrihópa, en niðurstaðan sé einföld – ruslið sé ekki sótt. Borgarbúar hamist við að flokka en sorpið safnist upp.

„Þetta eru stjórnvitringarnir sem bíða handan við hornið, fólkið sem á í mestu vandræðum með að tæma úr ruslafötum en telur að Íslandi muni vegna best undir þeirra stjórn. Það er reyndar mjög gagnlegt að það er hægt að bera skýrt saman annars vegar stjórn landsmála undir forystu ríkisstjórnarflokkanna og hins vegar stjórn Reykjavíkur undir forystu Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata,“ sagði Bjarni

„Staðan á fjármálum borgarinnar er enda táknræn: Þau eru í rusli. Öll grunnþjónusta er að drabbast niður, en pólitísku gæluverkefnin þenjast út næstum jafnhratt og fjölmiðlatröllasvið borgarstjóra.

Skólastarf er víða úr skorðum, á hverjum degi kemur það borgarstjóra og vinum hans verulega á óvart að borgarbúar þurfi að komast til og frá vinnu um götur borgarinnar,“ sagði hann.

Þá ræddi hann snjómokstur í Reykjavík.

„Í vetur kom upp vandamál sem flestum þótti augljóst hvernig ætti að leysa. Það þurfti að moka snjó af götunum. Orðrétt voru viðbrögð borgarinnar þessi: ,,Eitt af því sem við erum núna að skoða er að við erum með stýrihóp um endurskoðun á þjónustuhandbók vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg.” Þetta var í desember. Skiljanlega tók það tíma að finna út úr þessu með snjóinn. En þegar snjóa tók að leysa, svona um miðjan apríl, kom niðurstaðan: Snjómokstur skal taka mið af snjómagni. Maður má reyndar þakka fyrir það að vinnuhópurinn um snjómokstur komst ekki að þeirri niðurstöðu að ódýrast væri að moka snjó á sumrin,“ sagði hann.

Stærsta hagsmunamálið að ná niður verðbólgu og lægri vöxtum

„Á síðasta landsfundi okkar ræddum við saman um að þegar Sjálfstæðisflokkurinn gengi til næstu kosninga, þá myndum við leggja höfuðáherslu á að létta skattbyrði almennings. Til þess að að við getum lagt fram trúverðuga stefnu í næstu kosningum þá þurfa ríkisfjármálin að vera í jafnvægi þannig að hægt sé að standa við loforð um lægri skatta. Í upphafi ræðu minnar fór ég yfir hversu góðum árangri við höfum náð í að snúa við afkomu ríkissjóðs.

Ég skil vel þau í okkar flokki sem vilja ná enn betri árangri, það er eðlilegt og veitir okkur nauðsynlegt aðhald. En ég skora á ykkur að bera saman árangur okkar og stöðu ríkissjóðs Íslands við stöðu ríkissjóða í Evrópu almennt. Þá blasir við að árangur okkar er glæsilegur,“ sagði Bjarni

Hann sagði að næstu misseri myndu að verulegu leyti snúast um efnahagsmálin og stöðuna á vinnumarkaði. Enn og aftur séu kjaraviðræður framundan. Öllu skipti að ekki verði aftur samið um launahækkanir umfram framleiðnivöxt í hagkerfinu.

„Og reyndar er skortur á framleiðnivexti undanfarin ár sérstakt áhyggjuefni. Við verðum að tryggja atvinnulífinu skilyrði til að vaxa og dafna, stækka og sækja fram svo hægt sé að standa undir kröfunni um betri lífskjör og hið opinbera má aldrei vera leiðandi í launaþróuninni. Það er frumskylda aðila vinnumarkaðarins að ná saman. Þeirri ábyrgð verður ekki velt í fangið á ríkisstjórninni. En sameiginlegir hagsmunir allra landsmanna eru að verðbólgan haldi áfram að lækka og skilyrði þannig sköpuð fyrir lækkun vaxta að nýju. Það er eitt stærsta hagsmunamál heimilanna nú um stundir,“ sagði hann.

Hann sagði að nú væri að komast á betra jafnvægi á húsnæðismarkaði, það skipti miklu en að ekki verði horft framhjá því að fyrir ungt fólk sé þröskuldurinn inn á húsnæðismarkaðinn orðinn g´riðarlega hár. Til að standa vörð um þá stefnu okkar að allir geti eignast eigið húsnæði þurfi að ná vöxtum niður og svo að tryggj atil langs tíma nægilegt framboð húsnæðis af öllum gerðum.

Brýn þörf fyrir grænni orku

„Við erum í brýnni þörf fyrir græna orku. Nú er unnið að því að ryðja brautina fyrir frekari orkuöflun í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu samhliða stefnumörkun til framtíðar. Það er tómt mál að tala um orkuskipti án orkuöflunar. Þetta hjóta allir að sjá. Við ætlum okkur stóra hluti í málaflokknum á kjörtímabilinu og ég veit að við munum skila árangri.

Og við ætlum að halda áfram að efla háskólastarf, nýsköpun, rannsóknir og þróun. Við þurfum fleiri Kerecis, fleiri Marel og fleiri Controlant. Fyrirtæki sem hafa heiminn allan sem sitt framtíðarmarkaðssvæði, gríðarlega vaxtarmöguleika, draga þekkingu til landsins og greiða góð laun fyrir spennandi störf,“ sagði Bjarni.

Hann sagði því fylgja ábyrgð að vera leiðandi aflið í íslenskum stjórnmálum.

„Þeirri stöðu fylgir líka að stöðugt er sótt að okkur. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það eflaust alltaf vera. Ég verð þó að segja að undanfarin ár hefur mér þótt sundrungin verða stöðugt meiri. Samfélagsmiðlar auka hraðann og tíðnina í skoðanaskiptum. Öfgar aukast og minna er skeytt um staðreyndir. Það er aðeins einn sannleikur og þeir sem ekki ganga í takt mega fara norður og niður. Ryki þyrlað upp og okkur og samstarfsflokkum okkar gerður upp illur hugur. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum aldrei tekið upp slík brögð, enda samræmist það ekki okkar lífssýn. Við brennum fyrir framförum og uppgangi í samfélaginu, en ekki aðeins fyrirsögnum og fjaðrafoki.

Við höfum löngum búið að þeirri sérstöðu að við tökumst á og deilum, en alltaf komum við sterkari til baka undir merkjum frelsis, fullveldis og framfara. Í þessa sérstöðu þurfum við ávallt að halda,“

Erum lýðræðislegur flokkur

Þá sagði hann alla flokksráðsfulltrúa og hvern einasta þeirra tugþúsunda Íslendinga sem fylkji sér bak við flokkinn um allt land vera sanna sjálfstæðismenn.

„Það hugtak á aldrei að nota til að kljúfa okkar raðir. Við erum innbyrðis ólík, í aldri, með ólíkan bakgrunn og ólíka sýn á allt mögulegt. En öll sameinumst við um sjálfstæðisstefnuna, þá lífssýn sem hefur fært Ísland úr viðjum fátæktar í að vera eitt fremsta samfélag sem fyrirfinnst á byggðu bóli.

Því við erum lýðræðislegur flokkur. Það er kjarnaatriði í lýðræðislegum flokki að skiptast á skoðunum. Við höfnum þeirri þröngsýni að skoðanir geti ekki verið ólíkar um mál, erum víðsýn og viljum tryggja að sem flestir megi vel við una. Þannig eigum við að bera okkur að, og vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrels og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum, líkt og frá upphafi.

Við erum Sjálfstæðisflokkurinn. Þegar við snúum bökum saman, öll sem eitt, með sjálfstæðisstefnuna að vopni, þá fær okkur einfaldlega ekkert stöðvað,“ sagði Bjarni að lokum.