Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Á ég að segja ykkur sögur frá Íslandi, landinu sem þið elskið mest af öllu?“ spurði ungur drengur frá Íslandi í bréfi sem hann skrifaði til dagblaðsins Sunshine sem dreift var meðal Vestur-Íslendinga í Norður-Ameríku fyrir rúmum hundrað árum.
Þetta bréf og fleiri er að finna í nýútgefinni bók, Sólskinsbörnunum eftir Christopher Crocker, en þar skrifar hann um bréf barna sem send voru til birtingar í blaðinu þar sem þau sögðu frá lífi sínu, vonum og draumum í Vesturheimi.
Í huga fjórtán ára drengs sem bjó á Íslandi var enginn vafi á því að börnin í Norður-Ameríku elskuðu Ísland mest af öllu. Hann lýsir náttúru Íslands og fallega sumrinu þegar loksins gafst tækifæri til þess að lesa úti undir opnum himni. Hann hvetur jafnaldra sína til lesturs á Íslendingasögunum sem segja frá dugnaði og hugrekki forfeðra okkar.
Bréfritarinn ungi sem vildi deila sögum úr lífi sínu með börnum í Vesturheimi áritaði bréf sitt H. Guðjónsson frá Laxness, síðar varð hann þekktur sem Halldór Laxness, einn af okkar þekktustu rithöfundum og Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum árið 1955.
Skilaboð hins unga Laxness voru mikilvæg enda voru og eru verðmæti íslensku þjóðarinnar sögurnar okkar. Frásagnarhefðin sem er samofin sögu okkar og menningu. Íslendingasögurnar segja okkar sögu. Saga Vesturfara er hluti af okkar sögu, sögu sem við eigum að vera stolt af.
Í lok 19. aldar lögðu hátt í tuttugu þúsund Íslendingar í hættuför í leit að betra lífi í Norður-Ameríku. Margir yfirgáfu land sitt með litlar veraldlegar eigur. Farangurinn var vonin, vonin um að þau gætu skapað sér og fjölskyldum sínum betra líf í Ameríku.
Vestur-Íslendingar eru stoltir af uppruna sínum og þeim þykir vænt um arfleifðina, söguna, land og þjóð. Það fann ég vel þegar mér hlotnaðist sá heiður að fara fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og taka þátt í Íslendingadeginum. Á Íslendingadeginum er sögu þessara forfeðra okkar og tengslum við Ísland fagnað.
Í ferð minni til Mountain í Norður-Dakóta, Winnipeg, Gimli og Riverton í Kanada heyrði ég sögur fólksins sem þar býr. Sögur frá fólki sem talar reiprennandi íslensku þrátt fyrir að hafa aldrei búið á Íslandi. Þar smakkaði ég Íslands bestu vínartertu og nýbakaðar kleinur. Ég fagnaði Íslendingadeginum í bænum Gimli með 50.000 manns en talið er að í kringum 200.000 manns af íslenskum uppruna búi í Norður-Ameríku.
Við eigum mikla og dýrmæta sögu með frændum okkar og frænkum sem búa rúmlega 4.000 kílómetra í burtu frá okkur. Og þar búa nú kynslóðir sem áttu afa og ömmur, langafa og langömmur sem fóru í langt og erfitt ferðalag frá Íslandi í leit að betra lífi. Þau vilja rækta sambandið við Ísland og í slíkum tengslum felast ómetanleg verðmæti fyrir land og þjóð.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. ágúst 2023.