Kostnaður við hælisleitendakerfið er kominn í um 15 milljarða króna á ári en var fyrir 13 árum á bilinu 0,5-1 milljarður. Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í hlaðvarpsþættinum Þjóðmálum nýverið. Hlusta má á viðtalið hér.
„Þetta er algjörlega óásættanlegt. Við erum ekki að setja þennan pening í að hjálpa þeim sem við höfum ákveðið að veita vernd. Uppistaðan af þessum peningum er að fara í það að halda uppi fólki sem við höfum ekki ennþá getuna til að svara hvort að fái vernd,“ segir Bjarni.
Hann segir augljóst að koma þurfi upp móttökubúðum sem myndu bæði lækka kostnað og mögulega draga úr hvatanum til að koma til Íslands. Það sé óeðlilegt hlutfall milli þess á Íslandi hversu margir komi frá sumum svæðum samanborið við önnur lönd.
Þá kemur fram í máli Bjarna að honum virðist sem víðast hvar í Evrópu séu þessi mál að valda spennnu og ólgu. Nefnir hann í því samhengi nýjasta dæmið stjórnarslitin í Hollandi sem urðu vegna ágreinings um þessi mál. Þá nefnir hann að kosningaúrslitin í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi hafi ráðist að hluta til af áherslum flokkanna í þessum málaflokki.
Þurfum að vera með sömu viðmið og aðrir
Hann segir aðal atriðið að við ætlum ekki að vera hér með stærri hlið inn í landið og lægri þröskulda en í alþjóðlegi kerfi um alþjóðlega vernd. Að við þurfum að komast aftur á þann stað að vera með sömu viðmið og aðrir. Það eigi ekki að vera sjálfstætt markmið að fá fleiri hælisleitendur til Íslands sem kosti skattgreiðendur mjög mikið að halda uppi, meira en almennt gerist í öðrum ríkjum. Þá segir hann rétt að þeir hælisleitendur sem uppfylli skilyrði hér fái að aðlagast samfélaginu sem hraðast og að hann trúi því að þeir verði góðir og gegnir samfélagsþegnar í framtíðinni ef við bregðumst þeim ekki.
Þurfum ekki að vera sammála
„Við erum bara því miður í augnablikinu of víða að bregðast fólki sem hefur ákveðið að flytja til Íslands t.d. til að vinna vegna þess að okkur er ekki að takast nógu vel upp í tungumálakennslunni. Það eru merki um það að það séu erfiðleikar í skólum hjá krökkunum. Það er ýmislegt sem bendir til þess að okkur sé að mistakast að mæta þörfum þessara hópa til þess að þeir geti blómstrað eins og við viljum að þeir geti gert sem hérna búa,“ segir hann.
Hann segir að það verði að vera hægt að tala um þessa hluti eins og þeir séu.
„Þeir sem ætla að vera með einfeldni og barnaskap, eins og mér til dæmis hefur fundist Píratarnir gera í þinginu, þeir verða þá bara að vera þar. Ég treysti mér alveg í þá umræðu. Það er bara ekkert vandamál. Við bara mætum með okkar rök og okkar sýn á það hvernig á að greiða úr þessum málum og hvað er líklegt til þess að skila þjóðfélaginu árangri og fram á við til lengri tíma eða skemmri. Svo þurfum við ekkert að vera sammála um þetta. Það er allt í lagi að við séum ósammála um þetta og svo bara tökumst við á um þetta. Það verður þroskaðari og dýpri umræða. Það er ástæða fyrir því að ég er ekki í Pírötum,“ segir Bjarni.
Ekki náðst niðurstaða fyrr en á þessu ári í þinginu
Í viðtalinu bendir Bjarni á að það hafi verið ítrekað lögð fram frumvörp um hælisleitendamálin í þinginu, ár eftir ár, sem ekki hafi náðst niðurstaða um fyrr en á þessu ári. Það hafi valdið ólgu í stjónarsamstarfinu og að sjálfstæðismenn hafi ekki verið sáttir við hvernig áherslur þingflokksins hafi verið meðhöndlaðar í þinginu.
Það segir hann ekki hafa verið til þess fallið að lægja öldurnar og að við sjáum afleiðingar af því hversu lengi það hafi dregist. Afleiðingarnar séu m.a. þær að mun fleiri sæki um vernd hérlendis frá ákveðnum ríkjum en gerist í nágrannalöndunum. Þá birtist afleiðingarnar einnig með margvíslegum öðrum hætti eins og t.a.m. þegar kærunefnd útlendingamála komist að niðurstöðu sé það gert í armslengd frá stjórnvöldum og þurfi meiriháttar kerfisbreytingar til að vinda ofan af þeim niðurstöðum. Nú sé verið að endurskoða þau mál.
„Hérna er ég að vísa sérstaklega í það þegar kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að umsækjendur frá Venesuela ættu að fá aukna vernd á Íslandi til fjögurra ára á skjön við það sem almennt er að gerast annarsstaðar þó það kunni að hafa verið fordæmi fyrir einhverju viðlíka annarsstaðar. Þetta hefur Útlendingastofnun tekið til endurskoðunar,“ segir Bjarni.
Afgreiðslan tekur allt of langan tíma
Hann segir algjörlega óþolandi og ekki hægt að sætta sig við að við séum hér búin að byggja upp stjórnkerfi sem getur ekki tekist á við þessar beiðnir öðruvísi en að kalla yfir sig fleiri beiðnir en aðrir eru að gera.
Auk þess sem það taki allt of langan tíma að afgreiða beiðnir, það kosti 350.000 kr. á mánuði fyrir hvern og einn sem bíði niðurstöðu. Á undanförnum árum hafi verið dæmi um að eftir ár og upp í tvö ár sé verið að sækja fólk til að vísa því úr landi þegar niðurstaða sé loks fengin.
„Það eru kannski börn þar við sögu sem eru komin inn í íslenska skólakerfið. Þetta eru dæmi um það hversu lengi íslenska stjórnkerfið hefur verið að komast að niðurstöðu,“ segir Bjarni.
Hann segir að ekki sé hægt að halda því fram að það séu einhver mannréttindi sem kerfið sé að passa upp á þegar fólki sé haldið svona lengi í óvissu.
„Auðvitað hefur maður fullan skilning þegar fólk er búið að aðlagast og börn eiga í hlut að kerfið er auðvitað að bregðast þessu fólki. Þetta er algjörlega óþolandi, þetta kostar allt of mikið og við þurfum að hætta með einhver séríslensk einkenni á því hvenær við samþykkjum að veita fólki sem er að flýtja stríðshrjáð svæði eða aðrar hörmungar skjól með því að veita því hérna alþjóðlega vernd. Við eigum síðan að fara að vanda okkur í því hvernig við höldum utan um og hjálpum þeim að aðlagast sem að fá þá stöðu,“ segir Bjarni
Viðtalið við Bjarna í heild sinni má finna hér.