„Ef að ríkissjóður fer skyndilega í halla af því að það verður aflabrestur, alþjóðaflugvellir lokast eða einhver önnur meiriháttar röskun á sér stað – þá þarf ríkissjóður að taka lán á þeim tíma sem vextirnir hækka,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra í viðtali í Þjóðmálum og bendir á að þjóðarsjóður gæti létt mjög á ríkissjóði í slíkum aðstæðum, en frumvarp þess efnis er í undirbúningi.
Þjóðarsjóður yrði varasjóður sem hægt væri að grípa í þegar efnahagslegir erfiðleikar kæmu upp. Sjóðurinn fengi framlög af arði ríkisins af m.a. orkuvinnslu.
Bjarni segir að nauðsynlegt sé að skuldahlutföll hins opinbera þurfi að vera lág og ríkið þurfi að hafa borð fyrir báru þegar eitthvað brestur á. Hann hafi í þessu sambandi talað fyrir þjóðarsjóð.
„Það er það sem við höfum séð núna. Við höfum þurft að taka lán á meðan ríkissjóður er í halla, á allt öðrum kjörum en átti við áður en heimsfaraldur skall á. Þá hefði verið mjög gott að eiga fyrir útgjöldunum í einhvers konar áfallavarasjóði og koma út úr kreppunni miklu skuldalægri. Og þegar kreppan er yfirstaðin og vextirnir komnir aftur niður, þá getur [ríkissjóður] endurfjármagnað sig og lækkað vaxtabyrðina,“ segir Bjarni
Bjarni var spurður út í hættuna á því að stjórnmálamenn gangi að óþörfu í slíkan sjóð og nýti hann í önnur verkefni.
„Það þarf að hugsa fyrir því, að honum sé ekki spreðað í einhver slíka mál,“ segir Bjarni og ennfremur: „Þú getur sagt það sama með alla hluti, eins og skatta. Við sjáum skína í það nú þegar að Samfylkingin talar fyrir auknum ríkisútgjöldum á grundvelli þess að skattar verði hækkaðir.“
Í hlaðvarpsþættinum er rætt við Bjarna um margt fleira, s.s. ríkisstjórnarsamstarfið, málefni hælisleitanda, helstu áskoranir framundan á vettvangi íslenskra stjórnmála, um möguleiga sölu á ríkisfyrirtækjum o.fl.
Þáttinn í heild sinni má finna hér.