Handhafar sjálfstæðisstefnunnar

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Sjálf­stæðis­stefn­an er sprott­in úr ís­lensk­um jarðvegi og mótuð í takt við nýja tíma af hundruðum flokks­fé­laga sem taka virk­an þátt í stefnu­mót­un. Eng­inn stjórn­mála­flokk­ur á Íslandi vinn­ur með þess­um opna hætti – þar sem al­menn­ir flokks­fé­lag­ar stjórna mál­efn­a­starf­inu. Fólk með ólík­an bak­grunn, kon­ur, karl­ar, ung­ir, gaml­ir, fólk úr þétt­býli og dreif­býli, er sam­einað í trúnni á ein­stak­ling­inn, fái hann frelsi til at­hafna og tæki­færi til að njóta hæfi­leika sinna og dugnaðar. Sann­fær­ing­in um „undra­mátt frels­is­ins“ (svo vitnað sé til orða Bjarna Bene­dikts­son­ar eldri) hef­ur sam­einað ein­stak­linga úr öll­um stétt­um sam­fé­lags­ins í 94 ár.

Þetta er ástæða þess að eng­inn stjórn­mála­flokk­ur býr yfir meiri breidd en Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn og eng­inn ann­ar stjórn­mála­flokk­ur hef­ur náð að búa til öfl­ug­an og lif­andi far­veg fyr­ir al­menna flokks­fé­laga til að hafa áhrif á og móta stefnu og störf flokks­ins.

Styrk­ur sam­keppn­inn­ar

Eng­inn einn er hand­hafi sjálf­stæðis­stefn­unn­ar – eng­inn er þess um­kom­inn eða hef­ur til þess umboð að fella dóma um fé­laga sína sem eru ekki í einu og öllu sam­mála. Sjálf­stæðis­fólk um allt land er sam­eig­in­lega hand­haf­ar hug­sjón­ar um sjálf­stæði ein­stak­lings­ins, at­vinnu­frelsi, eign­ar­rétt­inn og þá sann­fær­ingu að ríkið sé til fyr­ir borg­ar­ana og starfi í þeirra þágu og í umboði þeirra.

En all­ir eiga þann óskoraða rétt að setja fram gagn­rýni á það sem gert er, leggja fram til­lög­ur og berj­ast fyr­ir fram­gangi nýrr­ar hugs­un­ar. Þenn­an rétt hef ég, eins og fjöl­marg­ir aðrir, nýtt mér í ræðu og riti. Styrk­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins hef­ur legið í þeirri sam­keppni hug­mynda sem alltaf hef­ur verið ýtt und­ir og lögð rækt við frá stofn­un flokks­ins. Lif­andi stjórn­mála­flokk­ur er suðupott­ur hug­mynda og hug­sjóna. Rök­ræðan er víta­mínið þar sem all­ir vita eða eiga að vita að Stóri­sann­leik­ur finnst aldrei.

Þeir sem setj­ast í dóm­ara­sæti, sann­færðir um að þeir séu hinir einu rétt­mætu hand­haf­ar sjálf­stæðis­stefn­unn­ar, sjá flís­ina í auga ná­ung­ans en ekki bjálk­ann í sínu eig­in auga. Og þeir eiga það á hættu að gleyma þeim grunni sem flokk­ur­inn er byggður á og grafa um leið und­an umb­urðarlyndi og virðingu fyr­ir ólík­um skoðunum sem eru inn­byggð í hug­sjón­ir flokks sem berst fyr­ir ein­stak­lings­frelsi. Líkt og póli­tísk­ir and­stæðing­ar eiga þeir erfitt með að átta sig á því að flokk­ur frels­is verður að sækja ork­una í skoðana­skipti – stund­um harka­leg – og hef­ur skyld­ur til að mynda far­veg fyr­ir nýj­ar hug­mynd­ir sem byggj­ast á horn­stein­um sjálf­stæðis­stefn­unn­ar.

Tug­ir þúsunda Íslend­inga hafa fylkt sér und­ir merki Sjálf­stæðis­flokks­ins en auðvitað eru þeir ekki sam­stiga í einu og öllu. Þótt grunn­hug­sjón sam­eini okk­ur sem fylgj­um Sjálf­stæðis­flokkn­um að mál­um grein­ir okk­ur á um ým­is­legt, sem bet­ur fer. En við höf­um yf­ir­leitt borið gæfu til þess að ná sam­an í mik­il­væg­um mál­um, oft eft­ir erfið átök. Því miður hafa ekki all­ir sætt sig við niður­stöðuna og valið frem­ur að sundra borg­ara­leg­um öfl­um en sam­eina þau. Ein­staka sinn­um hef­ur per­sónu­leg­ur metnaður ráðið för. Fyr­ir vikið er styrk­ur okk­ar, sem berj­umst fyr­ir frelsi ein­stak­lings­ins, byggj­um á trúnni á mann­inn, hæfni manns til að stjórna sér sjálf­ur og leita lífs­ham­ingj­unn­ar án þess að troða öðrum um tær, minni en ann­ars væri. Sundr­ung borg­ara­legra afla hef­ur verið vatn á myllu þeirra sem sækja að eign­ar­rétt­in­um, vinna gegn at­vinnu­frelsi og grafa skipu­lega und­an millistétt­inni, sem mynd­ar bjargið sem öll vel­ferðarsam­fé­lög eru reist á.

Ekki sjálf­gefið

Fyr­ir 12 árum skrifaði ég í Þjóðmál um stöðu Sjálf­stæðis­flokks­ins. Þar hélt ég því fram að sjálf­stæðis­fólk ætti að færa umræðuna um þjóðfé­lags­mál yfir á heima­völl Sjálf­stæðis­flokks­ins. Póli­tík er sam­keppni hug­mynda „og sú sam­keppni verður ekki unn­in með því að benda á hvað stefna and­stæðings­ins sé slæm, held­ur með því að sann­færa kjós­end­ur um að sjálf­stæðis­stefn­an sé besta trygg­ing fyr­ir sókn til betri lífs­kjara og heil­brigðara þjóðfé­lags“. Með öðrum orðum: Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn eigi að end­ur­heimta dag­skrár­valdið. Tala af sann­fær­ingu fyr­ir tak­mörkuðum rík­is­af­skipt­um, lág­um skött­um og auknu frelsi ein­stak­ling­anna, með áherslu á fjár­hags­legt sjálf­stæði þeirra. Marka stefn­una í þjóðarör­ygg­is­mál­um með tryggri varðstöðu um full­veldið. Taka málstað at­vinnu­lífs­ins, sem er for­senda þess að hægt sé að byggja upp öfl­ugt al­manna­trygg­inga­kerfi og gott heil­brigðis­kerfi sem þjón­ar öll­um óháð efna­hag.

Stjórn­mála­flokk­ur sem berst fyr­ir fram­gangi hug­sjóna – vill hrinda hug­mynd­um í fram­kvæmd – þarf stöðugt að vega og meta með hvaða hætti það er best gert. Það er langt í frá sjálf­gefið að mesti ár­ang­ur­inn ná­ist með því að taka þátt í rík­is­stjórn. Ef fá stefnu­mál ná fram að ganga með sam­starfi í rík­is­stjórn – ef stöðugt eru lagðir stein­ar í götu frels­is – er illa hægt að rétt­læta stuðning við rík­is­stjórn. Á stund­um er betra, til lengri tíma litið, að standa tíma­bundið utan rík­is­stjórn­ar, huga að rót­un­um, ydda hug­mynda­fræðina, meitla og slípa nýja hugs­un og stefnu í takt við breytta tíma.

Fyr­ir þann sem lagt hef­ur fyr­ir sig stjórn­mál er einnig nauðsyn­legt að átta sig á því að bar­átta fyr­ir fram­gangi frels­is er ekki aðeins háð í þingsal eða í sveit­ar­stjórn­um. Dag­skrár­valdið er hægt að end­ur­heimta með öðrum og jafn­vel áhrifa­rík­ari hætti.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. júlí 2023.