Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:
Fréttir af sölu íslenska fyritækisins Kerecis inn í alþjóðlega samstæðu hafa vonandi þau áhrif að auka enn frekar skilning hér á landi á mikilvægi þess að á Íslandi sé framúrskarandi umhverfi fyrir nýsköpunardrifna frumkvöðlastarfsemi. Þessi ánægjulegi árangur undirstrikar rækilega þá staðreynd að hugvit og sköpunargáfa eru grundvöllur verðmætasköpunar og ef rétt er á málum haldið geta hugmyndir orðið að miklum verðmætum.
Í tilviki Kerecis hafa komið saman fjölmargir jákvæðustu eiginleikar frjáls markaðshagkerfis. Ekki er gengið á náttúruauðlindir við framleiðslu á vöru fyrirtækisins; þvert á móti byggist hún á bættri nýtingu á náttúrulegri afurð (fiskroði). Starfsemi fyrirtækisins býður upp á fjölda áhugaverðra og hátt launaðra starfa sérfræðinga víða um heim, og hafa margir þeir sem tekið hafa þátt í uppbyggingunni þar að auki notið ríkulegs ávaxtar af velgengni fyrirtækisins þar sem stofnandinn hefur lagt áherslu á að áhöfnin hans eigi hlutdeild í þeim árangri sem hún hefur tekið þátt í að skapa. Síðast en ekki síst hefur sjálf varan sem fyrirtækið framleiðir það markmið að lina þjáningar fólks og draga úr afleiðingum af alvarlegum sárum.
Lýsingar Guðmundar Fertrams stofnanda Kerecis á hvernig hugmynd hans um að nota fiskroð til að græða sár kviknaði sýna einnig fram á það hvernig fjölþætt reynsla, víðsýni og hugmyndaauðgi geta orðið kveikja að glænýjum og skapandi lausnum. Í nýlegu viðtali á Sprengisandi sagði hann frá því hvernig reynsla hans við að sinna roðflettivél í fiskvinnslu á Ísafirði leiddi beint til þess að með honum kviknaði hugdettan um að nota þorskroð til að græða sár. Þessi litla saga um uppruna hugmyndar sem er upphaf gríðarlegrar verðmætasköpunar er gagnleg áminning um að leiðirnar sem sköpunarkraftur mannsins getur farið eru ófyrirsjáanlegar og geta aldrei lotið snyrtilegum verkferlum eða passað inn í fyrirframgefin skapalón. Samfélag sem byggist á sköpun þarf að hafa skilning á því að slíkt krefst umburðarlyndis gagnvart óvissu og óreiðu.
Viðsnúningur í stuðningi
Hugmyndin sjálf er aðeins fyrsta skrefið á langri og óvissri vegferð sem er ætíð líklegri til þess að enda með uppgjöf en sigri. Það er í eðli raunverulegrar nýsköpunar að frumkvöðlarnir sjálfir, starfsmennirnir, fjárfestarnir og samfélagið, sætta sig við þann veruleika að gríðarlega margt þarf að ganga upp til þess að jafnvel hinar bestu hugmyndir hjá hinu hæfasta fólki skili árangri og ávöxtun.
Undanfarin ár hefur umhverfi frumkvöðladrifinnar nýsköpunar styrkst mjög á Íslandi. Hér skiptir ekki minnstu að smám saman hefur orðið til aukin þekking á gangverki hins alþjóðlega fjármögnarumhverfis vísifjárfesta (e. venture capital) og hröð uppbygging á slíkum sjóðum innanlands. Samkvæmt tölum frá Northstack var Ísland árið 2022 líklega það land í heiminum þar sem vísifjárfestingar voru mestar miðað við höfðatölu. Er þetta algjör viðsnúningur á stuttum tíma. Hér skiptir einnig máli að nú starfa á Íslandi fjölmargir frumkvöðlar sem þegar hafa markað brautina, öðlast alþjóðlega velgengni og leggja hart að sér við að miðla af þekkingu sinni, reynslu og tengslaneti svo aðrir íslenskir frumkvöðlar eigi betri færi til þess að láta hugmyndir sínar þroskast upp í raunveruleg verðmæti. Til þess að snjöll hugmynd eigi möguleika á vexti eins og dæmið um Kerecis sýnir þarf henni að fylgja bæði þrautseigja og fjármagn; en einnig mikil og alþjóðlega samkeppnishæf þekking á sviði vöruþróunar, vísinda, markaðsmála, fjármála og viðskipta. Allt þetta getur myndað umhverfi árangurs sem allt samfélagið nýtur góðs af.
Fimm undirstöður
Í hlutverki mínu sem ráðherra nýsköpunarmála kynnti ég í október 2019 nýsköpunarstefnu íslenskra stjórnvalda. Í henni var ekki gerð tilraun til þess að giska á hvert nýsköpunarkraftur Íslands ætti helst að renna. Þar var ekki að finna neins konar endanleg svör um hvort framtíðin fælist í fiskroði, sýndarveruleika eða einhvers konar annarri tækni. Í nýsköpunarstefnunni var einmitt lögð ofuráhersla á að ýta undir hið almenna umhverfi nýsköpunar á Íslandi og að auka skilning á eðli þeirrar tegundar atvinnustarfsemi sem felur í sér litlar líkur á árangri, en gríðarlegan ábata í þeim fáu tilvikum þegar allt smellur saman. Þar voru fimm undirstöður nýsköpunar skilgreindar sem fjármagn, mannauður, markaðsaðgengi, umgjörð og hugarfar. Í núverandi hlutverki mínu sem utanríkisráðherra tel ég miklu skipta að efla skilning á mikilvægi þess að gæta að hagsmunum frumkvöðladrifinnar nýsköpunar. Í því samhengi nefni ég áherslu mína á þátttöku Íslands í nýsköpunarsjóði Atlantshafsbandalagsins en íslenskir frumkvöðlar geta vitaskuld lagt sitthvað af mörkum í viðfangsefnum sem geta varðað öryggismál.
Hinn mikli fjárhagslegi ábati sem stofnendur, starfsmenn og fjárfestar í Kerecis hafa nú uppskorið ætti að vera hvatning. Svona árangur er þó undantekning og þess vegna þarf að tryggja að þeir sem leggja saman út í slíkar óvissuferðir, hvort sem það eru skipstjórarnir eða hásetarnir á slíkum skútum, njóti ávaxtanna af þeim þegar þær lukkast. Þannig styrkist smám saman geta okkar sem samfélags til þess að nýta þá óþrjótandi og umhverfisvænu náttúruauðlind sem mestu ræður um lífsgæði okkar og velferð – sköpunargleði og framkvæmdamátt einstaklingsins.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 16. júlí 2023.