Þórdís Kolbrún sat leiðtogafund NATO í Litháen

„Fyrir utan samstöðuna sem ríkir um mikilvægi þess að styðja Úkraínu til sigurs gegn innrásarstríði Rússlands má nefna að nýjar varnaráætlanir marka vatnaskil í varnarviðbúnaði og öryggi allra bandalagsríkja. Áætlanirnar skerpa á öllu skipulagi og framkvæmd sameiginlegra varna sem eykur fælingarmátt bandalagsins og tryggir að þegar bregðast þarf við ógnarástandi verðum við betur undir það búin með liðsafla, skipum og flugvélum. Í þeim endurspeglast einnig ríkur skilningur á mikilvægi Norður-Atlantshafsins fyrir öryggi bandalagsríkja. Við eigum að vera góðir og verðugir bandamenn og halda áfram að leggja okkar af mörkum með aukinni þátttöku og framlögum til sameiginlegra varna,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra sem í vikunni sat leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Vilníus, en fundinum lauk í gær.

Á fundinum voru teknar mikilvægar ákvarðanir um sameiginlegar varnir og aukið pólitískt samstarf og stuðning við Úkraínu. Þá var einnig tilkynnt að Svíþjóð fengi fljótlega fulla aðild að bandalaginu.

Í frétt á vef utanríkisráðuneytisins segir að nýjar svæðisbundnar varnaráætlanir hafi verið samþykktar á fundinum sem sé ætlað að styrkja varnar- og fælingarmátt Atlantshafsbandalagsins alls. Þá hafi verið rætt um þær áætlanir sem samþykktar voru í Madrid í fyrra, meðal annars á sviði loftslagsaðgera og þegar komi að öryggi óbreyttra borgara.

„Á fundinum var einnig ákveðið að auka framlög og fjárfestingar í varnarmálum til að styðja við aukinn varnarviðbúnað. Einnig var ákveðið að setja á fót sérstaka miðstöð á vegum bandalagsins sem styður við eftirlit og upplýsingamiðlun vegna ógna sem stafa að neðansjávarinnviðum,“ segir einnig í fréttinni.

Leiðtogar NATO funduðu með forseta Úkraínu. Ákveðið var að efla pólitískt samband við Úkraínu og að leggja grunn að framtíðaraðild landsins að bandalaginu þegar aðstæður leyfi.

Þá kemur m.a. fram að Þórdís Kolbrún hafi fundað með Elina Valtonen utanríkisráðherra Finnlands. Norðurslóðamál og norrænt samstarf voru efst á baugi þess fundar. Ráðherra tók einnig þátt í málstofum um lýðræði í Belarús, aðgerðir NATO í lofslagsmálum og sótti óformlegan fund kvenkyns utanríkis- og varnarmálaráðherra.

Fréttina í heild má finna hér.