Áfram unnið að þjóðgarði og bættum orkuinnviðum á Vestfjörðum

„Ég er glaður með samstöðuna hjá sveitarstjórnum um mikilvægi þess að stofna þjóðgarð á Vestfjörðum og að leggja til leiðir til aukinnar grænnar orkuöflunar á svæðinu. Staðan er alvarleg á Vestfjörðum. Notkun dísels til rafmagnsframleiðslu hefur tífaldast á einu ári. Árið 2021 voru 200 þúsund lítrar af díselolíu notaðir til raforkuframleiðslu, en 2022 voru það 2,1 milljón lítra. Það samsvarar áfyllingu á um 40 þúsund bíla. Það eitt og sér segir okkur að það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða strax. Þá liggur það fyrir að orkuþörfin mun aukast um 80% fyrir árið 2030 ef ná á tilsettum markmiðum um orkuskipti.  Vestfirðir hafa átt undir högg að sækja á undanförnum áratugum en jákvæð þróun hefur átt sér stað á undanförnum árum og ég fagna tillögum starfshópsins. Skýrslan sýnir að nauðsynlegt er að bregðast við stöðunni með skipulögðum aðgerðum og mikilvægt er að ráðast í þær strax,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eftir að starfshópur um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum skilaði skýrslu nýverið þar sem hvatt er til þess að áfram verði haldið með undirbúning þjóðgarðs á Vestfjörðum og fjallað um mikilvægi þess að tryggja fullnægjandi raforkuinnviði í fjórðungnum.

Í frétt á vef ráðuneytsins segir: “Í skýrslunni leggur starfshópurinn áherslu á að bregðast þurfi við fyrirsjáanlegri aflþörf með því að auka orkuframboð á Vestfjörðum um 80% fram til ársins 2030 og vísar þar í skýrslu um raforkumál á Vestfjörðum frá 2022. Er það mat hópsins að mikilvægt sé að fylgja eftir ítarlegum og tímasettum tillögum sem þar voru settar fram um framkvæmdir í meginflutningskerfi raforku á Vestfjörðum, svæðisbundna flutningskerfinu og í dreifikerfi Vestfjarða.

Einnig felist mikill ávinningur í því að jarðhiti verði nýttur í auknum mæli til húshitunar og leggur starfshópurinn til að fé verði varið af fjárlögum til verkefnisins. Sérstaklega þurfi að styðja við jarðhitaframkvæmdir í landshlutanum, m.a. með það að markmiði að fasa út notkun jarðefnaeldsneyti til húshitunar á Vestfjörðum fyrir árið 2030.”

Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis var formaður starfshópsins.

Nánari upplýsingar má finna hér.