Aukum samkeppnishæfni og bætum lífskjör

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Íslendingar standa í stað í árlegri mælingu IMD-háskólans á samkeppnishæfni þjóða, sem Viðskiptaráð hefur kynnt. Danir eru í efsta sæti listans en Íslendingar í 16. sæti, neðstir Norðurlandaþjóða eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd.

Úttekt IMD nær til 64 ríkja og byggist á 256 atriðum úr hagvísum og svörum úr stjórnendakönnun. Samkeppnishæfni er metin út frá fjórum meginþáttum: efnahagslegri frammistöðu, skilvirkni hins opinbera, skilvirkni atvinnulífs og samfélagslegum innviðum. Allt eru þetta lykilþættir varðandi verðmætasköpun og velferð þjóðarinnar.

Slík mæling á samkeppnishæfni gefur vísbendingu hvernig Íslendingar standa að vígi í alþjóðlegri samkeppni. Eftir því sem þjóðin stendur betur að vígi í þeirri keppni, þeim mun meiri líkur eru á aukinni verðmætasköpun og bættum lífskjörum landsmanna.

Batnandi efnahagur

Efnahagsleg frammistaða batnar verulega á milli ára en þar fara Íslendingar úr 56. Í 45 sæti. Við erum þó enn eftirbátur flestra nágrannaþjóða okkar að þessu leyti. Í þessum flokki er meðaltal hinna Norðurlandanna 25. sæti. Ísland stendur illa varðandi erlenda fjárfestingu og alþjóðaviðskipti en báðir þessir þættir hafa þróast til verri vegar undanfarin áratug.

Léleg framleiðni

Íslenskt atvinnulíf stendur sig vel samkvæmt mælingunni en fellur þó um tvö sæti á milli ára, eða úr 8. í 10. sæti. Léleg framleiðni kemur niður á Íslandi þar sem við sitjum í 60. sæti af 64 þegar kemur að launakostnaði í framleiðslugreinum á vinnustund. Þá minnkar skilvirkni atvinnulífsins í fyrsta sinn í áratug.

Sterkir samfélagsinnviðir

Samfélagslegir innviðir styrkjast á mili ára en þar eru Íslendingar í sjöunda sæti og hækka um eitt á milli ára. Þar vegur þyngst greiður aðgangur að endurnýjanlegri orku og vöxtur í rannsóknum og þróun. Við erum í efsta sæti varðandi nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og í öðru sæti þegar kemur að hlutfalli þeirra, sem vinna við rannsóknir og þróun. Áhyggjuefni er hversu fáir Íslendingar ljúka framhaldsnámi í raunvísindum en í þeirri mælingu lendir Ísland í 53. sæti og lækkar um sjö sæti á milli ára.

Minnkandi skilvirkni hins opinbera

Opinber rekstur á Íslandi kemur ekki vel út en skilvirkni hins opinbera fellur um fimm sæti á milli ára og hafnar í 19. sæti. Samkeppnishæfni hins opinbera hefur staðið í stað frá árinu 2018 og þar eru afturfarirnar einnig mestar nú.

Er það níu sætum neðar en meðaltal Norðurlandanna og hefur skilvirkni hins opinbera hjá okkur ekki mælst lægri í átta ár.

Þá hefur samkeppnishæfni opinberra fjármála á Íslandi hríðfallið á undanförnum árum eftir mikið framfaraskeið frá 2013-2019. Þessi hæfni er m.a. metin út frá útgjöldum, skuldum og jöfnuði hins opinbera í hlutfalli af vergri landsframleiðslu. Árið 2017 vorum við Íslendingar í efsta sæti listans varðandi þennan þátt en vermum nú 26. sætið. Slíkt er óviðunandi, ekki síst í ljósi góðrar stöðu hagkerfisins, lítils atvinnuleysis og gífurlegs tekjuauka hins opinbera undanfarin ár.

Verk að vinna

Það er umhugsunarefni að Ísland hafi ekki náð að hækka sig milli ára á listanum yfir samkeppnishæfni þjóða. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að umrædd mæling gefur skýrar vísbendingar um til hvaða umbóta þarf að grípa til að efla samkeppnishæfnina. Brýnt er að jafnvægi náist sem fyrst í rekstri hins opinbera, hjá ríki jafnt sem sveitarfélögum. Það má þó ekki gerast með frekari skattahækkunum enda borga Íslendingar nú næsthæstu skatta innan OECD. Draga þarf úr íþyngjandi regluverki og búa atvinnulífinu þannig sem best skilyrði til aukinnar framleiðni, verðmætasköpunar og kjarabóta. Síðast en ekki síst þarf að stuðla að auknum stöðugleika á vinnumarkaði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júní 2023.