Guðrún Hafsteinsdóttir nýr dómsmálaráðherra

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom saman í dag til að ræða breytingar á ríkisstjórn. Þingflokkurinn samþykkti tillögu Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins um að Guðrún Hafsteinsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi tæki við embætti dómsmálaráðherra á ríkisráðsfundi á morgun af Jóni Gunnarssyni sem gegnt hefur embættinu því eftir síðustu þingkosningar haustið 2021.

Guðrún hefur setið á Alþingi síðan haustið 2021 og er 1. þingmaður Suðurkjördæmis. Frá því hún settist á þing hefur hún verið formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og átt sæti í velferðarnefnd.

Hún er fædd 9. febrúar 1970. Hún lauk prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2008 og diplóma í hagnrýtri jafnréttisfræði frá sama háskóla 2011. Guðrún var fjármálastjóri Kjöríss frá 1992-1993, framkvæmdastjóri frá 1993-1994 og markaðsstjóri fyrirtækisins frá 2008-2021. Hún sat í stjórn Samtaka iðnaðarins frá 2011-2020, þar af formaður 2014-2020. Hún sat í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins 2014-2020, þar af varaformaður 2015-2017. Guðrún sat í stjórn Háskólans í Reykjavík 2014-2021. Hún var formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna 2016-2019 og 2021 og varaformaður 2019-2021. Þá sat hún í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða 2017-2021, þar af formaður 2018-2021.

Nánar má lesa um Guðrúnu hér.