Stöðva þarf skuldasöfnun Reykjavíkurborgar

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Reykjavíkurborg seldi skuldabréf fyrir samtals 3.660 milljónir króna að nafnvirði í útboði, sem fór fram miðvikudaginn 7. júní 2023. Skuldabréfaútboð og bankalán eru sem fyrr mikilvirkasta úrræði borgarinnar til að fjármagna hallarekstur sinn.

Í skuldabréfaútboðinu tók borgin tilboðum fyrir 2.710 milljónir króna að nafnvirði í verðtryggðum flokki (RVK 32) á ávöxtunarkröfunni 3,9%. Í öðrum verðtryggðum flokki (RVK 48) var tilboðum tekið fyrir 950 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 3,35%.

Þegar verðbólga er 9,5% verður ekki horft fram hjá því að að Reykjavíkurborg er nú að fjármagna sig á um 13% vöxtum þar sem um verðtryggð skuldabréf er að ræða. Það eru afarkjör fyrir stóran opinberan aðila eins og Reykjavíkurborg.

Rík fjárþörf er fyrir hendi enda áformað að reka borgarsjóð með 15,3 milljarða króna halla á yfirstandandi ári. Alls er áætlað að borgarsjóður taki lán fyrir allt að 21 milljarð króna á árinu.

Borgin sætir afarkjörum

Ávöxtunarkrafan endurspeglar lánskjör Reykjavíkurborgar. Á árinu hafa lánskjör borgarinnar versnað verulega miðað við kjör ríkisins, sem hún er gjarnan borin saman við.  Ávöxtunarkrafa RVK 32 skuldabréfaflokksins er nú 1,78 prósentustigum hærra en álag sambærilegra ríkisskuldabréfa. Þessi munur milli borgarbréfa og ríkisbréfa kemur skýrt fram á meðfylgjandi mynd.

Ört versnandi lánskjör Reykjavíkurborgar eru uggvænleg vísbending um fjárhagsstöðu hennar. Vandinn verður ekki leystur með áframhaldandi hallarekstri og skuldasöfnun. Eina færa leiðin er að ná tökum á rekstrinum, koma honum í jafnvægi og hefja niðurgreiðslu skulda.

Miklar og vaxandi skuldir

Skuldir borgarsjóðs námu 174 milljörðum króna um síðustu áramót og höfðu þá hækkað um 21% á milli ára. Áætlað er að skuldirnar verði komnar í 194 milljarða króna í árslok 2023.

Heildarskuldir samstæðu borgarinnar námu 446 milljörðum króna um síðustu áramót og höfðu þá hækkað um 39 milljarða á milli ára. Áætlað er að skuldirnar verði orðnar 464 milljarðar í lok árs 2023.

Reykjavíkurborg er orðin mjög berskjölduð fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum. Gífurleg skuldasöfnun og hækkandi verðbólga hefur gert það að verkum að fjármagnsgjöld eru orðin ein helsta stærðin í bókhaldinu.

Fjárhagsáætlun 2024

Vinna við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024 er hafin. Aldrei hefur verið mikilvægara að borgarfulltrúar snúi bökum saman og náist samstöðu um aðgerðir til að binda enda á langt tímabil hallarekstrar og skuldasöfnunar. Slíkar aðgerðir þurfa að fela í sér gagngera endurskoðun á öllum rekstri borgarinnar og víðtæka hagræðingu. Þá þarf að skoða sölu eigna í því skyni að grynnka á skuldum.

Vonandi ná borgarfulltrúar saman um að koma rekstri Reykjavíkurborgar í jafnvægi og stöðva skuldasöfnun. Slík breyting myndi bæta vaxtakjör borgarinnar og styrkja mjög stöðu hennar á lánsfjármarkaði. Síðast en ekki síst myndi slík breyting einnig hafa góð áhrif í baráttunni við verðbólguna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. júní 2023.