Fleiri smásalar hefja sölu áfengis á netinu

Costco, Hagkaup, Heimkaup og Nettó eru meðal þeirra smásala sem nú bætast í hóp þeirra fyrirtækja sem hyggjast selja einstaklingum áfengi í netsölu.

Aukið frelsi í sölu áfengis á neytendamarkaði hefur um árabil verið eitt af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins. Hægt hefur verið að versla áfengi erlendis frá í gegnum netsölu um árabil en fá ár eru síðan slík sala hófst hérlendis.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp í desember um netsölu með áfengi en það náðist ekki í gegn á síðasta þingi.

„Ég get ekki dregið aðra álykt­un en þá að vef­versl­un með áfengi sé lög­mæt. Hér hafa verið marg­ar vef­versl­an­ir með áfengi um nokk­urra ára skeið og þetta hef­ur gengið vel. Per­sónu­lega finnst mér gott að sjá einkafram­takið stíga þarna inn og sú þjón­usta er greini­lega vel þegin af neyt­end­um,“ sagði Jón Gunn­ars­son, dóms­málaráðherra við mbl.is þegar fréttist af því að Costco hyggðist hefja netsölu með áfengi.

„Í dag gilda eng­ar sér­stak­ar regl­ur um af­hend­ingu sölu­tíma og á leyf­um fyr­ir svona versl­un. Því mætti segja að frum­varpið sem ég lagði fram sé frek­ar til þess fallið að þrengja að svona versl­un. Að ramma inn nú­ver­andi ástand. Ég tel að það sé eðli­legt. Deil­urn­ar hafa stund­um snúið að því að þetta sé ekki fyr­ir allra aug­um í versl­un­um. Eng­inn er að tala um það og þetta er í fullu sam­ræmi við þróun sem er í gangi á neyt­enda­markaði. Menn geta reynt að loka aug­un­um fyr­ir því en einn dag­inn verða menn að opna þau og horfa fram­an í veru­leik­ann,“ sagði Jón af sama tilefni.