Árni Johnsen, blaðamaður og fv. alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, lést í gær 6. júní 2023, 79 ára að aldri. Árni var ötull baráttumaður Sjálfstæðisflokksins og var þekktur fyrir að láta til síns taka í málefnum Suðurkjördæmis, ekki síst í samgöngumálum, atvinnumálum og menntamálum. Málefni Vestmannaeyja voru honum ávallt hugleikin. Hann var fylginn sér í ræðu og riti.
Við andlát Árna þakkar Sjálfstæðisflokkurinn honum mikilvæg störf í þágu sjálfstæðisstefnunnar, lands og þjóðar og færir eftirlifandi eiginkonu, afkomendum og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur.
Árni var fyrst kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Suðurlandi 1983. Hann var varaþingmaður á árunum 1988-1991 en náði aftur kjöri 1991 og sat til 2001. Hann fór aftur á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi 2007 en hætti þingmennsku 2013.
Hann fæddist í Vestmannaeyjum 1. mars 1944 og ólst þar upp. Árni lauk kennaraprófi 1966 og starfaði sem kennari í Eyjum og í Reykjavík. Síðar starfsmaður Surtseyjarfélagsins sumur og haust á árunum 1966-1967. Þá blaðamaður á Morgunblaðinu frá 1967-1991. Hann vann einnig að dagskrárgerð fyrir Ríkisútvarpið og Sjónvarpið.
Á Alþingi sat Árni í fjölmörgum þingnefndum. Hann var í fjárlaganefnd 1991-2001, samgöngunefnd 1991-2001 og 2007-2011 (formaður 1999-2001), menntamálanefnd 1991-2001, félagsmálanefnd 2007, félags- og tryggingamálanefnd 2007-2009, umhverfis- og samgöngunefnd 2011-2013. Þá sat hann í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 1994-2001 og 2007-2013, þar af formaður 1996-2001. Árni vann að ýmiskonar félagsmálum í gegnum tíðina, var formaður tóbaksvarnarnefndar, formaður stjórnar Sjóminjasafns Íslands 1989-1992, í stjórn Grænlandssjóðs og sat í flugráði í 14 ár svo eitthvað sé nefnt.
Árni skrifaði all nokkrar viðtalsbækur og bækur um gamanmál alþingismanna, hann skrifaði hundruð greina í Morgunblaðið og önnur blöð, samdi svítu, sönglög og spilaði eigin lög og annarra inn á hljómplötur. Þá sá hann um brekkusönginn á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um langt árabil.
Eftirlifandi Eiginkona Árna er Halldóra Filippusdóttir. Þau eignuðust einn son en fyrir átti Árni tvær dætur.