Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur breytt horfum um lánshæfi ríkissjóðs úr stöðugum í jákvæðar og staðfest A/A-1 lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands.
Telur S&P að sterk innlend eftirspurn og áframhaldandi bati í ferðaþjónustu muni leiða til 3,3% hagvaxtar á yfirstandandi ári og að meðaltali 2,4% hagvaxtar á árunum 2024 til 2026. Ísland hefur tekist á við þrýsting á ytri áskoranir þjóðarbúsins með skilvirkum hætti og sjálfstæði landsins í orkumálum hefur veitt vörn gegn áhrifum innrásar Rússa í Úkraínu. S&P hefur því endurskoðað horfur fyrir lánshæfiseinkunnirnar úr stöðugum í jákvæðar.
„Jákvæðar horfur endurspegla það mat S&P að horfur í opinberum fjármálum eða geta landsins til að mæta ytri áföllum muni halda áfram að batna, mögulega umfram væntingar S&P, á næstu 24 mánuðum. S&P gæti hækkað lánshæfiseinkunnina ef bati opinberra fjármála verður umfram væntingar, ýmist vegna minni halla og lægri hreinna skulda eða vegna minni ríkisábyrgða. Einkunnirnar gætu einnig verið hækkaðar ef S&P teldi að geta landsins til þess að standa af sér ytri áföll hefði batnað,“ segir í tilkynningu Stjórnarráðsins.
Tilkynninguna má nálgast í heild sinni hér.