Hvalveiðar

Teitur Björn Einarsson alþingismaður:

Kallað hef­ur verið eft­ir umræðu um hval­veiðar í kjöl­far eft­ir­lits­skýrslu Mat­væla­stof­unn­ar (MAST) um veiðar á langreyðum við Ísland. Rétt er að bregðast við því og rekja nokk­ur sjón­ar­mið sem halda verður til haga í þess­ari umræðu.

Það er höfuðskylda hvers veiðimanns að hitta og af­lífa bráðina eins skjótt og fum­laust og hægt er þannig að það valdi dýr­inu sem minnst­um sárs­auka. Þetta er grund­vall­ar­regla sem gild­ir um all­ar veiðar á öll­um dýr­um á Íslandi og haf­inu um kring og er ákvæði þess efn­is lög­fest í lög­um um vel­ferð dýra, sbr. 27. gr. Lög­in gilda um öll hrygg­dýr auk tí­fætlukrabba, smokk­fiska og bý­flugna en fisk­veiðar eru und­an­skild­ar. Hval­ir falla und­ir lög­in þótt líta verði jafn­framt til þess að um hval­veiðar gilda sér­lög og eiga þær sér langa for­sögu.

Samt er það svo í raun­heimi að skot geiga og jafn­vel reynd­ustu veiðimönn­um tekst ekki í öll­um til­vik­um að af­lífa bráð sína sam­stund­is. Ekki hafa all­ar hrein­dýra­skytt­ur hitt í fyrsta skoti og ljóst að særð hrein­dýr hafa verið elt uppi í dágóða stund þar til þau voru tryggi­lega af­lífuð. Mýs drep­ast ekki um­svifa­laust í öll­um til­vik­um í gildr­um og því fer fjarri að fugla­skot­veiðimenn hitti í öll­um skot­um og því miður sær­ist vafa­laust fjöldi fugla sem ekki eru hand­samaðir á hverju veiðitíma­bili.

Þetta er hinn ís­kaldi veru­leiki veiða enda ljóst að meg­in­regl­an um að af­lífa skuli dýr eins skjótt og hægt er er mats­kennd og án frek­ari hlut­lægra viðmiðana. Það fer eft­ir aðstæðum og eðli þeirra veiða sem um ræðir hvort veiðimaður telst hafa brotið regl­una eða ekki. Veiðar á villt­um dýr­um verða held­ur ekki lagðar að jöfnu við af­líf­un búfjár.

Eft­ir­lits­skýrsla MAST

Niðurstaða MAST er að óviðun­andi hátt hlut­fall veiddra langreyða við Ísland árið 2022 hafi þjáðst við af­líf­un og telst út­kom­an verri en við svipaða at­hug­un árið 2014. 75% dýr­anna drep­ast við fyrsta skot, 92-97% við annað skot. 59% dýra drep­ast sam­stund­is og miðgildi tíma til dauða þeirra dýra sem ekki drep­ast strax er um 11 mín­út­ur. Frá­vik­in eru skilj­an­lega frétt­næm­ust og vekja sterk viðbrögð en á sama tíma hef­ur lítið borið á marg­vís­leg­um at­huga­semd­um Hvals hf. við skýrslu MAST í op­in­berri um­fjöll­un. Eins hef­ur sá mik­il­vægi þátt­ur máls­ins, að eng­ar regl­ur voru brotn­ar að mati stofn­un­ar­inn­ar og veiðarn­ar hafi stuðst við þekkt­ar og viður­kennd­ar aðferðir, ekki held­ur farið hátt.

Sá hæng­ur er á mats­kenndri niður­stöðu MAST, um að óviðun­andi hátt hlut­fall hval­anna þjá­ist við af­líf­un, að það eru eng­in skýr lög­bund­in viðmið um það hvað telst óviðun­andi í þess­um veiðum. Fram til þessa hafa ýms­ar full­yrðing­ar hags­muna­hópa og stjórn­mála­manna verið byggðar á til­finn­ingarök­um. Þær eiga vissu­lega rétt á sér en eru ekki hald­bær­ar máls­ástæður sem á er byggj­andi við frek­ari ákv­arðana­töku af hálfu stjórn­valda um framtíðarfyr­ir­komu­lag þess­ara veiða.

Er það al­veg skýrt og öll­um ljóst að það er óviðun­andi að 75% dýr­anna drep­ist við fyrsta skot eða að ein­ung­is 59% dýr­anna drep­ist sam­stund­is? Er það mik­il breyt­ing frá því sem áður hef­ur verið viður­kennt eða vitað um veiðarn­ar sl. hálfa aðra öld? Hver setti slík viðmið eða er til þess bær, á hvaða grunni byggj­ast þau og hafa öll rök og sjón­ar­mið verið sett fram á mál­efna­leg­an hátt? Standa aðrar hval­veiðiþjóðir sig bet­ur?

Sjálf­bær nýt­ing og stjórn­ar­skrá

Þá verður ekki und­an því vikist að líta jafn­framt til þeirra meg­in­sjón­ar­miða og reglna sem gilda um hval­veiðar al­mennt. Hval­veiðar byggj­ast á vís­inda­rann­sókn­um, lúta sér­stök­um lög­um sem og eft­ir­liti, eru sjálf­bær­ar og í sam­ræmi við alþjóðalög. Sjálf­bær nýt­ing auðlinda í hafi og á landi er grund­vall­arþátt­ur í vel­meg­un þjóðar­inn­ar og verður áfram til framtíðar litið. Þetta eru ekki göm­ul og úr sér geng­in gildi eða sjón­ar­mið, þvert á móti.

Eins er það al­veg skýrt að óljós og hug­læg viðmið sem ekki eru byggð á lög­mæt­um grunni hagga í engu ákvæðum stjórn­ar­skrár­inn­ar um at­vinnu­frelsi og at­vinnu­rétt­indi. Ef gera á breyt­ing­ar á inn­taki veiðirétt­ar á hvöl­um verður slíkt á byggj­ast á lög­mæt­um grunni og sam­ræm­ast meg­in­regl­um stjórn­skip­un­ar­rétt­ar. Íþyngj­andi laga- og reglu­gerðar­á­kvæði sem tak­marka stjórn­ar­skrár­var­inn rétt verða t.a.m. að fylgja virt­um sjón­ar­miðum um meðal­hóf og skýr­leika. Ef litið væri t.d. fram hjá því að hægt er að ná betri ár­angri með nýj­um veiðiaðferðum væri verið að brjóta regl­una um meðal­hóf.

Næst samstaða um fram­haldið?

Það sem rétt­ast væri að gera nú er að taka eft­ir­lits­skýrslu MAST til gagn­gerr­ar um­fjöll­un­ar og rýna niður­stöður henn­ar sam­hliða þeim at­huga­semd­um sem gerðar hafa verið við skýrsl­una. Þetta verður gert inn­an at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþing­is og von­andi víðar, t.a.m. hjá vís­inda- og fræðasam­fé­lag­inu og ýms­um hagaðilum. Lík­lega er þörf á frek­ari at­hug­un­um og eft­ir­liti sem og til­raun­um við inn­leiðingu á nýj­um veiðibúnaði og tækni. Slík umræða, byggð á vís­inda­leg­um og mál­efna­leg­um grund­velli, leiðir þá mögu­lega fram ein­hvers kon­ar sam­stöðu um al­menn og skýr viðmið sem eiga að gilda fram­veg­is um þess­ar veiðar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. maí 2023.