Ályktun stjórnar Varðar
Traust fjármálastjórn er forsenda öflugrar grunnþjónustu
Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík lýsir yfir stuðningi við borgarstjórnarhóp Sjálfstæðisflokksins í andstöðu hans við stefnu Samfylkingarinnar og meirihlutaflokkanna við fjármálastjórn borgarinnar. Um árabil hefur stefnt í skipbrot í borginni og þetta hefur Sjálfstæðisflokkurinn ítrekað bent á. Staðan sem nú blasir við ætti að koma engum á óvart, en er þó sláandi.
Rekstur Reykjavíkurborgar er á leið í vaskinn og afleiðingin er sú að um þessar mundir vefjast einföldustu viðfangsefni sveitarstjórnarmálanna fyrir meirihlutaflokkunum. Í tíð borgarstjórnar Samfylkingarinnar hafa skuldir á hvern borgarbúa aukist um 76,4% að raunvirði á sama tíma og meðalskattbyrði á hvern Reykvíking hefur aukist um 19% að raunvirði. Til vitnis um stöðu mála uppfyllir Reykjavíkurborg ekkert þriggja lágmarksviðmiða eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga um A-hluta rekstrar sveitarfélaga. Nú er mál að linni.
Óráðsía í starfsmannamálum borgarinnar og yfirbygging umfram efni eru til marks um fráleita forgangsröðun meirihlutans sem virðist fyrir löngu síðan hafa tapað tilfinningunni fyrir því hvaðan þeir fjármunir koma sem borgin hefur til umráða. Það sýnir vöxtur í rekstrarútgjöldum borgarinnar. Borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins er aftur á móti ljóst að þeir koma frá skattgreiðendum sem búa við hámarksútsvar og eiga skilið að njóta góðrar þjónustu af hálfu borgarinnar fyrir þá fjármuni sem þeir láta af hendi.
Traust fjármálastjórn er forsenda þess að reka megi öfluga grunnþjónustu. Augljóst er að meirihluta Dags B. Eggertssonar hefur mistekist að halda úti mannsæmandi grunnþjónustu gagnvart ýmsum hópum fólks í borginni, t.d. grunnskólabörnum, ungum barnafjölskyldum, eldri borgurum, heimilislausum og svo mætti lengi telja. Það er ábyrgðarhluti að reka stjórnmálastefnu sem er sjálfbær hvað varðar fjármögnun þeirra verkefna sem sett eru á dagskrá.
Alvarlegasti þátturinn í þeirri stöðu sem upp er komin er að meirihluti borgarstjórnar skuli ekki sjálfur viðurkenna augljósan vanda í fjármálunum. Þvert á móti hefur borgarstjóri reynt að hylma yfir þá stöðu sem uppi er og benda á aðra, í stað þess að kynna til sögunnar raunverulegar áætlanir um viðsnúning í rekstrinum.
Kjósendur virðast þó í auknum mæli vera að átta sig á holum hljómi í stefnu Samfylkingarinnar. Í síðustu tveimur sveitarstjórnarkosningum hefur fylgi Samfylkingarinnar samtals dregist saman um meira en þriðjung. Af þessu er ljóst að borgarbúar hafa fengið nóg af stefnu Samfylkingarinnar og munu í næstu sveitarstjórnarkosningum leita í auknum mæli á ný mið. Öllum má vera ljóst að hugmyndafræði Framsóknarflokksins er ekki lausnin út úr þeirri klípu sem Samfylkingin hefur skapað borgarbúum. Framsóknarmenn eru enda orðnir þátttakendur í þeirri vegferð allri, þvert á loforð sín um breytingar.
Haldi sama þróun áfram í fjármálum borgarinnar án þess að gripið sé inn í með ábyrgum hætti, mega borgarbúar búast við því að þjónusta borgarinnar versni enn og borgarbúar líði fyrir enda eru skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar nú orðnar 450 milljarðar króna og hafa vaxið um 150 milljarða króna frá því síðasta kjörtímabil hófst.
Stjórn Varðar er andsnúin hugmyndafræði Samfylkingarinnar og treystir stefnu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík best til að tryggja ábyrga fjármálastjórn Reykjavíkurborgar; forsendu mannsæmandi grunnþjónustu og velferð borgarbúa.
Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík