Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins lést í gær, níræður að aldri.
Ólafur var alla tíð virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins og sótti fundi hjá flokknum alveg fram á síðustu æviár. Ólafs er minnst sem öflugs trúnaðarmanns flokksins og boðbera Sjálfstæðisstefnunnar. Hann var prúðmannlegur í fasi, fylginn sér og sanngjarn í málflutningi. Þá gegndi hann embættisfærslum sínum af trúmennsku og alúð.
Ólafur fæddist á Siglufirði 7. júlí 1932 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Einar Kristjánsson forstjóri og Ólöf Ísaksdóttir húsmóðir. Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1953, stundaði nám í læknisfræði 1953–1955 og lauk lögfræðiprófi frá HÍ 1960.
Hann var sveitarstjóri í Garðahreppi 1960–1972, oddviti hreppsnefndar 1972–1975 og forseti bæjarstjórnar 1976–1978. Ólafur var kosinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1971 og sat á þingi til 1999. Hann var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins 1979–1991, menntamálaráðherra 1991–1995 og forseti Alþingis 1995–1999.
Ólafur sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1969–1971 og 1980–1991 og í framkvæmdastjórn flokksins 1981–1991. Hann var formaður Þingvallanefndar 1988–1991, varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs 1983–1986 og formaður 1986–1991. Hann sat í bankaráði Seðlabanka Íslands 1998–2007 og var formaður þess 2001–2006. Ólafur var formaður orðunefndar 2003–2010. Hann var útnefndur heiðursborgari Garðabæjar árið 2010.
Eiginkona Ólafs var Ragna Bjarnadóttir en hún lést árið 2015. Ólafur og Ragna eignuðust eina dóttur sem lést 2021 og þrjú barnabörn.
Sjálfstæðisflokkurinn vottar afkomendum og öðrum ástvinum Ólafs G. Einarssonar innilega samúð við fráfall hans.