Ný nálgun í uppbyggingu vegakerfisins
'}}

Haraldur Benediktsson þingmaður Norðvesturkjördæmis og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis hefur sett fram nýja hugsun varðandi fjármögnun vegakerfisins á Íslandi, s.k. samfélagsvegum. Haraldur gerir nánar grein fyrir tillögu sinni í meðfylgjandi myndbandi.

Sjá fyrirlestur Haraldar um samfélagsvegi hér.

Þessi nýja hugsun gengur út á að nærsamfélögum og sveitarfélögum verði heimilt að stofna félög utan um uppbyggingu einstakra vega sem komnir eru inn á samgönguáætlun til að hraða framkvæmdum og tryggja að vegakerfið geti þjónað sem lífæðar íslensks samfélags um allt land.

Haraldur setur fram fimm skilyrði sem vegir þurfi að uppfylla til að þessi leið geti verið fær. Sú fyrsta að fyrirhuguð vegaframkvæmd sé á samgönguáætlun til næstu 15 ára. Sveitarfélög og áhugasamir fjárfestar leggi til framkvæmdakostnað. Umferðartalning sýni fram á verulega umferð, t.d. 250-300 bíla á dag. Rekstrarfélagið sé og verði ekki í neinni annarri starfsemi. Að fyrir liggi kostnaður við viðhald og rekstur vegarins án framkvæmdanna.

Fjámögnunin yrði með þeim hætti að 50-80% af uppbyggingunni kæmi með skuldbindingu úr ríkissjóði inn í rekstrarfélögin en 20-50% yrðu fjármögnuð með greiðslu hóflegra veggjalda. Með þessum hætti mætti hraða uppbyggingunni sem kostur er. Sveitarfélögin fengu meiri áhrif á það hvar uppbyggingin færi fram, svo framarlega sem viðkomandi vegur er á samgönguáætlun, fjármögnun ríkisins dreifist á fleiri ár og þeir hagaðilar sem nýta vegina greiða á móti hóflega fyrir uppbygginguna. Í raun ávinningur fyrir alla.

Þegar búið yrði að greiða vegina upp í gegnum viðkomandi rekstrarfélög færist eignarhald veganna til ríkisins og í umsjón Vegagerðarinnar. Með þessari leið gæti ríkið á sama tíma einbeitt sér í meira mæli að fáfarnari vegum þar sem veggjöld geta ekki staðið undir uppbyggingunni.

Hraðar uppbyggingu og skapar aukið svigrúm fyrir ríkissjóð

Verði tillaga Haraldar að veruleika getur sveitarfélag eða fjárfestar, að uppfylltum þeim skilyrðum sem nefnd eru hér að ofan, ákveðið að stofna félag um uppbyggingu tiltekins samfélagsvegar með skuldbindingu um framlag ríkisins. Vegurinn verður þá byggður upp hraðar en 15 ára samgönguáætlun gerir ráð fyrir. Sanngjörn ávöxtunarkrafa fjárfesta og vextir af lánsfé yrði greidd með framlagi ríkisins og veggjöldum yfir tímabil verkefnsins.

Á rekstrartíma, þegar vegurinn er fullkláraður, verði lögð á hófleg veggjöld á umræddan veg yfir ákveðið tímabil sem geti verið á bilinu 20-50% af rekstrarkostnaði verkefnsins. Veggjöldin verði innheimt á alla umferð. Reglulegum notendum standi til boða afsláttarkjör. Með nýju skattlagningarkerfi á umferð mætti mögulega fella tekjur af viðkomandi umferð til veghaldara t.d. ef skattkerfið byggði á GPS mælingum.

Framlag ríkisins standi undir 50-80% af kostnaði yfir tímabilið. Framlaginu verði dreift yfir tímabil og hefjist á þeimi tíma sem áætlun geri ráð fyrir framlagi. Framlagið verði því aðeins hluti af því sem stendur til að leggja í verkefnið af hálfu ríkisins skv. samgönguáætlun.

Samhliða verði uppbygging fjarskipta tryggð

Til viðbótar við ofangreint gengur tillagan út á að vegirnir uppfylli ströngustu kröfur fyrir sjálfakandi bíla með öflugu 5G/6G sambandi, fullkomnum merkingum og fullkominni lýsingu þar sem við á. Hönnun og skipulag tæki mið af framtíðar eldsneytislausnum. Að auki verði hugað að áningastöðum og öðrum þátttum sem geri þá sérstaklega ferðamannavæna, með bílastæðum, gönguleiðum og merktum upplýsingum.

Vegurinn verði markaðssettur sem hluti af upplifun sem felur í sér sóknarfæri fyrir frekari dreifingu á ferðamönnum um landið. Þessi leið opni þannig aðgengi að „perlum“. Jafnframt fari fram markviss kynning á bættu aðgengi með þarfir ferðamanna í huga.

Vegirnir og áningastaðirnir njóti heilsársþjónustu sem tryggir aðgengi að þeim allan ársins hring.

Hjólreiðastígar verði lagðir meðfram vegunum. Þeir verði þannig paradís hjólreiðafólks og sérstaklega markaðssettir sem slíkir.

Að öðru leyti er vísað í myndbandið þar sem Haraldur fer mun betir yfir þessa nýju hugsun um uppbyggingu samfélagsvega.