„Fyrsta fasteignasalan þinglýsti í síðustu viku afsali vegna fasteignakaupa með rafrænum hætti og er það stór áfangi í verkefni sem unnið hefur verið að í samstarfi Stafræns Íslands við ráðuneyti og stofnanir um rafrænar þinglýsingar. Má áætla að ávinningur af rafrænum þinglýsingum verði á bilinu 1,2-1,7 milljarðar króna á ári þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda.“
Þetta kemur fram í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins í gær.
Þær fasteignasölur sem nýta sér þetta gera viðskiptavinum sínum kleift að ljúka kaupum á fasteign með mun einfaldari hætti en hingað til hefur verið þar sem fara þar með pappíra til þinglýsingar hjá sýslumanni. „Þinglýsing afsals er lokaskrefið í uppgjöri seljanda og kaupanda í fasteignaviðskiptum og innsiglar flutning eignarinnar frá þeim fyrrnefnda til þess síðarnefnda og hefur aðdragandi þessa lokaáfanga verið langur og undirbúningur mikill,“ segir í fréttinni.
Þar kemur einnig fram að næstu stóru áfangar verkefnisins verði að bjóða upp á rafræna þinglýsingu á öllum skjölum sem tengjast fasteignakaupum einstaklinga í þéttbýli. Stendur til að ljúka vinnunni á seinni hluta þessa árs.
Þjóðhagslegur ávinningur 1,2-1,7 milljarðar króna á ári
„Í upphafi verkefnisins var lagt mat á þjóðhagslegan ávinning af rafrænum þinglýsingum. Þegar handvirkt vinnuframlag fasteignasala, lánveitenda og sýslumanna sem verður óþarft með tilkomu lausnarinnar er tekið saman er áætlaður ávinningur af notkun hennar metinn á bilinu 1,2–1,7 milljarðar króna á ári. Ofan á það bætist svo ávinningur af því að ekki þarf að ferðast með pappírsskjöl á milli aðila og aukinn hraði viðskipta fyrir lánveitendur og fasteignasala,“ segir í frétt ráðuneytisins.