Meirihlutavald misnotað til að hindra óþægilega umræðu

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Borgarfulltrúar eru ekki forréttindastétt, sem er yfir það hafin að mæta til vinnu á virkum degi.

Borgarstjórn skal funda fyrsta og þriðja þriðjudag hvers mánaðar skv. samþykktum, nema daginn beri upp á helgidag eða almennan frídag. Skýrara gæti það ekki verið.

Erfitt er að halda því fram að borgarfulltrúar séu að kikna undan vinnuálagi. Að undanförnu hefur þó borið á þeirri tilhneigingu að víkja frá áðurnefndu ákvæði og fella niður reglulega fundi í því skyni að lengja frí borgarfulltrúa.

Lengri jólafrí og páskafrí borgarfulltrúa?

Að frumkvæði meirihlutans var lagt til að borgarstjórnarfundur yrði felldur niður þriðjudaginn 3. janúar 2023 til að lengja jólafrí borgarfulltrúa. Með andstöðu komu nokkrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í veg fyrir það að fundurinn 3. janúar félli niður. Bentum við á að borgarfulltrúar gætu vel mætt til vinnu annan virka dag ársins eins og annað launafólk. Borgarfulltrúar eru ekki forréttindastétt, sem er yfir það hafin að mæta til vinnu á virkum degi.

Til málamiðlunar var stungið upp á þeirri lausn að fundurinn 3. janúar yrði ekki felldur niður heldur færður til um viku og haldinn 10. janúar. Á það féllust meirihlutaflokkarnir ekki. Í huga þeirra virtist vera grundvallaratriði að fella fyrsta reglulega fund ársins alveg niður.

Mörg brýn mál lágu fyrir borgarstjórn um áramótin, t.d. slæm fjárhagsstaða borgarinnar sem og aukin skuldsetning vegna margra milljarða króna áhættufjárfestinga Ljósleiðara Orkuveitunnar. Reyndar bannaði meirihlutinn að þær áhættufjárfestingar væru ræddar í borgarstjórn fyrr en borgarfulltrúar stóðu frammi fyrir orðnum hlut. Þá var brýnt að ræða gallað fyrirkomulag snjóruðnings í Reykjavík vegna mikillar ófærðar í borginni vikum saman.

Reglulegur fundur borgarstjórnar var haldinn þriðjudaginn 4. apríl 2023, sem var virkur dagur eins og allt launafólk veit. Fyrir fundinn kom í ljós að vilji meirihlutans stóð til þess að fundurinn yrði felldur niður í því skyni að lengja páskafrí borgarfulltrúa. Ekki kom þó til þess þar sem allir borgarfulltrúar þurfa að samþykkja slíka tillögu svo hún nái fram að ganga.

30 milljarða viðhaldsskuld skólanna

Tvö mál lágu fyrir fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag, bæði frá Sjálfstæðisflokknum.

Annað var umræða um vanrækslu á viðhaldi skólahúsnæðis í Reykjavík og tengd vandamál. Stöðugt berast nýjar fregnir um stórfelld vandræði af völdum myglu og rakaskemmda í skólahúsnæði borgarinnar. Brýnt er að borgarstjórn ræði þessi mál án undanbragða, ekki síst í ljósi svartrar skýrslu, sem lögð var fyrir borgarráð í síðasta mánuði (þ.e. í marz 2023).  Þar kemur m.a. fram að þörf sé á meiriháttar viðhaldi í 83% af skóla- og frístundabyggingum borgarinnar eða 113 af 136! Talið er að uppsöfnuð viðhaldsskuld skóla- og frístundahúsnæðis Reykjavíkurborgar nemi um þrjátíu milljörðum króna.

Slæm stjórnsýsla

Fyrir fundinum 4. apríl, lá einnig fyrir tillaga Sjálfstæðisflokksins um að tekið verði á hinum mikla misbresti, sem er á því að borgarfulltrúar fái svör við fyrirspurnum sínum. Lætur borgarstjóri viðgangast að fyrirspurnum um mikilvæg mál sé ekki svarað mánuðum og jafnvel árum saman. Slíkt vinnulag bindur auðvitað hendur borgarfulltrúa við öflun upplýsinga og hamlar störfum þeirra.

Staða áðurnefndra mála dregur fram slæma stjórnarhætti pólitískrar yfirstjórnar Reykjavíkurborgar, sem meirihlutanum þykir óþægilegt að ræða.

Samþykkti hann í krafti atkvæða að taka umrædd mál af dagskrá borgarstjórnarfundarins sl þriðjudag. Með því tókst meirihlutanum að stytta þennan reglulega fund þannig að hann stóð aðeins í rúma klukkustund.

Afar ámælisvert er að meirihluti borgarstjórnar ryðji dagskrá borgarstjórnarfundar með þessum hætti. Meirihlutinn gengur þannig gegn ákvæðum 27. greinar sveitarstjórnarlaga, sem kveður á um þann rétt sveitarstjórnarmanna að setja á dagskrá hvert það málefni, sem varðar hagsmuni sveitarfélagsins. Slíkur réttur felur að sjálfsögðu í sér að slík mál séu rædd án undanbragða í borgarstjórn en ekki felld niður eða skotið á frest eftir hentugleikum meirihlutans.

Misnotkun meirihlutavalds

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta vissulega sett umrædd mál á dagskrá næsta fundar borgarstjórnar, 18. apríl, í von um að þau fáist þá rædd og afgreidd. Skapast þá um leið hætta á því að ekki reynist unnt að setja ný og jafnvel brýnni mál á dagskrá þess fundar. Til þess er leikurinn einnig gerður hjá meirihlutanum. Með því að fækka borgarstjórnarfundum og setja fundartíma ströng tímamörk, vill meirihlutinn lágmarka möguleika stjórnarandstöðunnar til umræðna á þeim lýðræðislega vettvangi sem borgarstjórn á að vera. Meirihlutavaldið er þannig misnotað í því skyni að múlbinda minnihlutann.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. apríl 2023.