Pappírslaus húsnæðis- og bifreiðakaup í burðarliðnum
'}}

Pappírslaus húsnæðiskaup og bifreiðakaup verða innleidd með nýju frumvarpi til heildarlaga um nýtt lánaform, svonefndar rafrænar skuldaviðurkenningar, sem ólíkt skuldabréfum verða gefnar út og varðveittar á rafrænu formi. Áfram gilda sömu réttarreglur um skuldabréf. Verði frumvarpið að lögum mun þetta eindalda viðskipti til muna fyrir fasteigna- og bifreiðakaupendur.

„Með þessu er líf fólks einfaldað á sama tíma og við spörum pappír, tíma og vinnu,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra á facebook-síðu sinni í dag.

Bjarni segir sömuleiðis að hér sé síðasta skrefið tekið til að hægt verði að klára fasteignakaup og rafrænar þinglýsingar að fullu. Í dag er meira en helmingur þinglýsinga rafrænn.

Í frétt á vef stjórnarráðsins segir að tillögur frumvarpsins séu liður í að fylgja eftir stefnu Alþingis og stjórnvalda um eflingu á stafrænni þjónustu hins opinbera. Þar segir jafnframt að í frumvarpinu sé einnig lagt til að komið verði á fót upplýsingagátt um rafrænar skuldaviðurkenningar, þar sem aðgengilegar verða upplýsingar um efni skuldbindingar samkvæmt rafrænni skuldaviðurkenningu og önnur atriði er hana varða.

Hér má sjá fréttina hjá Stjórnarráði Íslands.