„Það er algjörlega kristalskýr afstaða mín og íslenskra stjórnvalda að gerðin verður ekki tekin upp í EES-samninginn án þess að tekið sé tillit til íslenskra aðstæðna. Það hefur kallað á marga fundi og mikla vinnu og greiningar að koma fólki í skilning um þessar sérstöku aðstæður,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um loftslagsskatta ESB á tengiflug.
„Það er í mínum huga aðalatriðið í málinu og þess vegna höfum við verið að taka málið föstum tökum til þess að koma í veg fyrir að neikvæð áhrif myndu koma hér fram og að óbreyttu myndu þau koma hér hratt fram. Útreikningar okkar benda til þess að farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll gæti dregist saman um 8% árið 2028 og áfangastaðir um 12%. Þess vegna er unnið er að því að jafna stöðu okkar tengiflugvallar svo þessi áhrif komi einfaldlega ekki fram,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Þá ítrekaði hún að það væri skýr afstaða íslenskra stjórnvalda að gerðin verði einfaldlega ekki tekin upp án þess að tekið sé tillit til íslenskra aðstæðna.
„Ísland skorast ekki undan því að taka þátt í og styðja við heildarmarkmið þessarar nýju löggjafar til þess að ná fram sameiginlegum loftslagsmarkmiðum. Við höfum reyndar sjálf sett okkur metnaðarfylltri markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og að við verðum þá einnig óháð jarðefnaeldsneyti. Þetta er risastórt verk sem liggur ekki fyrir með hvaða hætti við eigum að ná. En það sem liggur hinsvegar fyrir til þess að svo megi verða þarf að framleiða meiri raforku til að framleiða sjálfbærara eldsneyti sem hægt er að blanda í við annað. Þar þarf tæknin að vera til staðar og nægilegt framboð á markaði. Þar mun Ísland ekki eitt og sér tryggja allt þar magn heldur þarf fleira að koma til,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Hún sagði að við þyrftum fyrst að brúa bilið með því að jafna samkeppnisstöðu okkar tengiflugvalla og flugfélaga þar til það væri raunhæfur möguleiki að nota sjálfbært flugvélaeldsneyti eða aðrar tækniframfarir til þess að losun frá flugi minnki.
„Í því liggja hinsvegar efnahagsleg tækifæri líka fyrir Ísland og þess vegna finnst mér skipta máli að talað sé af skynsemi, unnin sé vinnan og náð sé ásættanlegum árangri fyrir Ísland,“ sagði Þórdís Kolbrún.