Kjördæmisráð Norðausturkjördæmis ályktar um loftlags- og orkumál
'}}

Aðalfundur Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi var haldinn á Hallormsstað laugardaginn 18. mars sl.

Fundurinn var að venju vel sóttur og mikil dagskrá. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa flutti Vilhjálmur Árnason ritari Sjálfstæðisflokksins erindi um innra starf flokksins og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra flutti erindi um stöðu orkumála. Þá ávörpuðu þingmenn og varaþingmenn kjördæmisisns fundinn. Fundurinn sendi frá sér ályktun um loftslags- og orkumál og í lok fundar fóru fram almennar stjórnmálaumræður.

Að fundi loknum snæddu fulltrúar kjördæmisráðs og aðrir gestir hátíðarkvöldverð á Hótel Hallormsstað og skemmtu sér fram eftir kvöldi.

Þórhallur Harðarson var einróma endurkjörinn formaður kjördæmisráðs. Kosið var í stjórnina að öðru leyti og hlutu eftirfarandi kjör; Dýrunn Pála Skaftadóttir, Almar Marinósson, Helena E. Ingólfsdóttir, Karl Indriðason, Hilmar Gunnlaugsson, Jakob Sigurðsson, Hanna S. Ásgeirsdóttir, Oddný Daníelsdóttir, Gunnlaug H. Ásgeirsdóttir, Harpa Halldórsdóttir, Þórunn Sif Harðardóttir, Íris Ósk Gísladóttir og Benedikt Snær Magnússon.

Oddný Daníelsdóttir var kjörin í miðstjórn af hálfu kjördæmisráðsins og varamaður hennar var kjörin Harpa Halldórsdóttir.

 

Ályktun aðalfundar Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi:

„Íslendingar eiga mikið undir náttúru, umhverfi og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Sjálfbær þróun mætir kröfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða. Metnaðarfull markmið Íslands um samdrátt í losun og bindingu kolefnis og markmið um kolefnishlutleysi kalla á skýra sýn og nálgun sem á að byggja á frumkvæði og framtaki einstaklinga og atvinnulífs, og vera í sátt við þjóð og nærsamfélag.

Átak í loftslagsmálum er eitt mikilvægasta og stærsta framlag mannkyns til náttúruverndar. Án lífvænlegs loftslag verður lítil náttúra. Með skynsamlegri nýtingu lands og sjávar, byggt á nýjustu tækni, getur framlag Íslands í loftslagsmálum verið okkur til sóma og heiminum til gagns. Eina raunhæfa leiðin til að fasa út jarðefnaeldsneyti er endurnýjanleg orka sem kemur í þess stað. Það er ekki nóg að tala, það verður að framkvæma.

Norðausturkjördæmi er orku- og auðlindaríkt landsvæði. Sama gildir um hafsvæðið úti fyrir Norðausturhluta landsins. Í kjördæminu eru stórar vatnsafls- og jarðhitavirkjanir auk sívaxandi fjölda smærri virkjana. Svæðið er landmikið og aðstæður til uppbyggingar vindorkuvera á landi og á sjó sérstaklega góðar á heimsvísu.

Þrátt fyrir þetta búa íbúar í dreifbýli kjördæmisins við hærra raforkuverð en flestir aðrir landsmenn og flutnings- og dreifikerfi raforku kemur í veg fyrir uppbyggingu á öflugum atvinnusvæðum, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Sá mikli loftslagsávinningur sem raforkuvæðing uppsjávarfyrirtækja hefur haft í för með sér verður að engu gerður með sífelldri skerðingu á orku til þessara fyrirtækja.

Í kjördæminu eru góðar aðstæður til að byggja upp fleiri en einn grænan iðn- eða orkugarð, þar sem áhersla yrði lögð á loftslagsmál, endurnýjanlega orku og nýjustu tækni.

Tryggja þarf að nýting náttúruauðlinda í þágu loftslagsmála og sem undirstaða almennrar velmegunar í landinu, sé framkvæmd á sjálfbæran hátt. Virðing fyrir eignarrétti og sanngjörn hlutdeild nærsamfélaga skiptir þar miklu máli. Samtök sveitarfélaga hafa nú í áratugi barist fyrir þeirri sjálfsögðu leiðréttingu að orkufyrirtæki, ein arðbærustu fyrirtæki landsins, njóti ekki sérstakrar niðurgreiðslu í formi undanþágu frá fasteignamati, sem hefur leitt til 94% afsláttar af fasteignaskatti á orkumannvirki, sé miðað við það sem önnur atvinnustarfsemi þarf að greiða.

Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi telur að sá tími sé liðinn, þar sem íbúar og sveitarfélög, sérstaklega í dreifbýlinu, eru látin bera uppi verðmætasköpun í orkuiðnaði með hærra orkuverði og afslætti frá grunnsköttum. Kjördæmisráðið hvetur þingmenn Sjálfstæðisflokksins að hafa forgöngu um, að tekið verði á þessum málum, svo tryggja megi áframhaldandi lífskjarasókn á máta sem stuðlar að því að loftslagsmarkmið þjóðarinnar náist.“