Haraldi þakkað fyrir góð störf á aðalfundi kjördæmisráðs
'}}

Aðalfundur Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fór fram laugardaginn 18. mars sl. í Borgarnesi.

Fundurinn var vel sóttur og fóru þar fram hefðbundin aðalfundarstörf. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, utanríkisráðherra og oddviti kjördæmisins ávarpaði fundinn ásamt þeim Haraldi Benediktssyni alþingismanni, sem í vor mun hætta á þingi eftir 10 ára starf og taka við starfi bæjarstjóra á Akranesi, Teiti Birni Einarssyni, varaþingmanni sem mun taka sæti Haraldar á Alþingi og Óla Birni Kárasyni, formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Haraldur Benediktsson fékk miklar þakkir og lof fyrir sín störf á umliðnum 10 árum fyrir kjördæmið, bæði af samþingmönnum hans á Alþingi og eins frá fulltrúum víðsvegar úr kjördæminu.

Kosið var í stjórn kjördæmisráðs, flokksráð, miðstjórn og fleiri trúnaðarstörf á fundinum.

Sigríður Ólafsdóttir, Víðidalstungu, var endurkjörin formaður kjördæmisráðsins. Sigríður Finsen frá Grundarfirði lét af störfum í stjórn eftir löng og farsæl störf og við sæti hennar tók Björn Ásgeir Sumarliðason frá Stykkishólmi.

Ólafur Adolfsson frá Akranesi var kjörinn í miðstjórn og varamaður hans er Hafdís Gunnarsdóttir frá Ísafirði.

Eftir hefðbundin aðalfundarstörf og ávörp tóku við almennar stjórnmálaumræður og voru helstu umræðuefni; efnahagsmál, ríkisfjármál, utanríkismál, stuðningur við Úkraínu auk þess sem málefni kjördæmisins voru rædd.