Hvorki ESB né evran tryggja lægri verðbólgu

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Hinir sann­trúuðu eru í nokkru öf­undsverðir. Ekk­ert hagg­ar sann­fær­ingu þeirra – ekki einu sinni staðreynd­ir. Þeir sem telja sig hafa fundið lausn allra vanda­mála okk­ar Íslend­inga láta fátt slá sig út af lag­inu. Og hvert tæki­færi sem gefst er nýtt til að boða „stóru lausn­ina“ – aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og upp­töku evru.

Kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn og efna­hags­leg­ar þreng­ing­ar sem hon­um fylgdu átti að vera enn ein ástæða þess að Ísland gengi til liðs við Evr­ópu­sam­bandið. Niðurstaðan var þver­öfug. Fáar þjóðir sigldu af meira ör­yggi í gegn­um efna­hags­lega erfiðleika en Ísland. Þrátt fyr­ir tíma­bund­inn sam­drátt náðist að verja kaup­mátt launa og gott bet­ur. Í gegn­um Covid jókst kaup­mátt­ur launa og er hann sá þriðji mesti meðal ríkja OECD. Kaup­mátt­ur meðallauna hér á landi er sá hæsti á Norður­lönd­un­um.

Inn­rás Rússa í Úkraínu átti að sýna og sanna nauðsyn þess að Ísland gengi Evr­ópu­sam­band­inu á hönd. Hvernig banda­lag sem frem­ur treyst­ir á NATO í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um, en á eig­in hernaðarmátt, trygg­ir bet­ur ör­ygg­is­hags­muni Íslands hef­ur aldrei verið skýrt út. Hér skal full­yrt að ör­ygg­is­hags­mun­um Íslands er bet­ur borgið en Evr­ópu­sam­bands­ins, með aðild að NATO og varn­ar­samn­ingn­um við Banda­rík­in.

Verðbólga og hinir sann­trúuðu

Og nú er það verðbólg­an sem hinir sann­trúuðu telja að hafi gengið til liðs við þá. Enn og aft­ur er hamrað á því að ís­lenska krón­an sé ónýt og aðeins með Evr­ópu­sam­bandsaðild og upp­töku evru verði hægt að kveða þenn­an forna fjanda niður.

Það geta verið ýmis rök fyr­ir því að Ísland taki upp evru (rök sem sá er hér skrif­ar er í flestu ósam­mála), en auk­in verðbólga hér á landi renn­ir ekki stoðum und­ir evru-drauma. Það er rangt sem látið er í veðri vaka að lönd inn­an evru-svæðis­ins búi við meiri verðstöðug­leika en við Íslend­ing­ar. Fáir þekkja þetta bet­ur en íbú­ar Lett­lands, Eist­lands og Lit­há­en. Þar var verðbólga á bil­inu 18-21% miðað við breyt­ingu vísi­tölu neyslu­verðs frá janú­ar 2022 til janú­ar 2023. Á sama tíma mæld­ist verðbólga hér á landi rétt um 10%. Líkt og sést á meðfylgj­andi súlu­riti er verðbólga mjög mis­mun­andi eft­ir lönd­um. Hvorki evr­an né aðild að Evr­ópu­sam­band­inu trygg­ir verðstöðug­leika. Aðrir þætt­ir ráða meiru um ár­ang­ur í efna­hags­mál­um, ekki síst í bar­áttu við verðbólgu, en ESB-aðild eða evra. Hvert land er í þess­um efn­um sinn­ar eig­in gæfu­smiður – „stóra lausn­in“ hef­ur ekki verið lausn fyr­ir all­ar þjóðir.

Minni hækk­un mat­ar­verðs

Þegar litið er á þróun mat­ar­verðs í lönd­um Evr­ópu­sam­bands­ins er niðurstaðan enn meira af­ger­andi. Þróun mat­ar­verðs skipt­ir auðvitað launa­fólk miklu í öll­um lönd­um.

Mat­ar­verð hækkaði hér á landi um 11% á um­ræddu tíma­bili – nokkuð meira en vísi­tala neyslu­verðs í heild. All­ir hafa fundið yfir þess­um hækk­un­um. En þrátt fyr­ir þessa hækk­un get­um við þakkað fyr­ir að mat­ar­verð hafi ekki hækkað jafn mikið og á evru­svæðinu í heild eða um nær 17%, hvað þá í öll­um lönd­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Aðeins á Kýp­ur hækkaði mat­ar­verð minna en hér á landi. Í öll­um lönd­um Evr­ópu­sam­bands­ins hækkaði mat­arkarf­an meira, allt upp í liðlega 48%. Í þeim fjór­um lönd­um evr­unn­ar, þar sem mat­ar­verð hækkaði mest, var hækk­un­in frá 28,5% upp í 32%.

Og ekki verða rök­in fyr­ir evru sótt í sam­an­b­urð á lífs­kjör­um hér á landi og öðrum lönd­um Evr­ópu. Þvert á móti. Lífs­kjör á Íslandi eru með því besta sem þekk­ist í heim­un­um og sé litið til þeirra ættu a.m.k. að læðast ör­litl­ar efa­semd­ir að tals­mönn­um sam­eig­in­legs gjald­miðils. Boðber­ar „stóru lausn­ar­inn­ar“ hafa aldrei svarað því hvernig Íslend­ing­um tókst að brjót­ast úr því að vera ein fá­tæk­asta þjóð Evr­ópu í upp­hafi 20. ald­ar og kom­ast í hóp mestu vel­ferðarríkja sög­unn­ar með „ónýt­an“ gjald­miðil í fartesk­inu.

Illa er hægt að leggj­ast gegn því að ein­staka stjórn­mála­menn, og jafn­vel heilu stjórn­mála­flokk­arn­ir, berj­ist fyr­ir aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu og upp­töku evru. Það er hluti af eðli­legri og nauðsyn­legri hug­mynda­bar­áttu. En það er í besta falli vill­andi að gefa í skyn að með því kom­ist á meiri verðstöðug­leiki hér á landi. Og rök­in fyr­ir aðild og evru verða enn ótrú­verðugri þegar þau byggj­ast á van­trú á flestu sem ís­lenskt er. En kannski er van­trú­in hluti af sjálfs­mynd stjórn­mála­flokka?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. mars 2023.