Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Hinir sanntrúuðu eru í nokkru öfundsverðir. Ekkert haggar sannfæringu þeirra – ekki einu sinni staðreyndir. Þeir sem telja sig hafa fundið lausn allra vandamála okkar Íslendinga láta fátt slá sig út af laginu. Og hvert tækifæri sem gefst er nýtt til að boða „stóru lausnina“ – aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru.
Kórónuveirufaraldurinn og efnahagslegar þrengingar sem honum fylgdu átti að vera enn ein ástæða þess að Ísland gengi til liðs við Evrópusambandið. Niðurstaðan var þveröfug. Fáar þjóðir sigldu af meira öryggi í gegnum efnahagslega erfiðleika en Ísland. Þrátt fyrir tímabundinn samdrátt náðist að verja kaupmátt launa og gott betur. Í gegnum Covid jókst kaupmáttur launa og er hann sá þriðji mesti meðal ríkja OECD. Kaupmáttur meðallauna hér á landi er sá hæsti á Norðurlöndunum.
Innrás Rússa í Úkraínu átti að sýna og sanna nauðsyn þess að Ísland gengi Evrópusambandinu á hönd. Hvernig bandalag sem fremur treystir á NATO í varnar- og öryggismálum, en á eigin hernaðarmátt, tryggir betur öryggishagsmuni Íslands hefur aldrei verið skýrt út. Hér skal fullyrt að öryggishagsmunum Íslands er betur borgið en Evrópusambandsins, með aðild að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin.
Verðbólga og hinir sanntrúuðu
Og nú er það verðbólgan sem hinir sanntrúuðu telja að hafi gengið til liðs við þá. Enn og aftur er hamrað á því að íslenska krónan sé ónýt og aðeins með Evrópusambandsaðild og upptöku evru verði hægt að kveða þennan forna fjanda niður.
Það geta verið ýmis rök fyrir því að Ísland taki upp evru (rök sem sá er hér skrifar er í flestu ósammála), en aukin verðbólga hér á landi rennir ekki stoðum undir evru-drauma. Það er rangt sem látið er í veðri vaka að lönd innan evru-svæðisins búi við meiri verðstöðugleika en við Íslendingar. Fáir þekkja þetta betur en íbúar Lettlands, Eistlands og Litháen. Þar var verðbólga á bilinu 18-21% miðað við breytingu vísitölu neysluverðs frá janúar 2022 til janúar 2023. Á sama tíma mældist verðbólga hér á landi rétt um 10%. Líkt og sést á meðfylgjandi súluriti er verðbólga mjög mismunandi eftir löndum. Hvorki evran né aðild að Evrópusambandinu tryggir verðstöðugleika. Aðrir þættir ráða meiru um árangur í efnahagsmálum, ekki síst í baráttu við verðbólgu, en ESB-aðild eða evra. Hvert land er í þessum efnum sinnar eigin gæfusmiður – „stóra lausnin“ hefur ekki verið lausn fyrir allar þjóðir.
Minni hækkun matarverðs
Þegar litið er á þróun matarverðs í löndum Evrópusambandsins er niðurstaðan enn meira afgerandi. Þróun matarverðs skiptir auðvitað launafólk miklu í öllum löndum.
Matarverð hækkaði hér á landi um 11% á umræddu tímabili – nokkuð meira en vísitala neysluverðs í heild. Allir hafa fundið yfir þessum hækkunum. En þrátt fyrir þessa hækkun getum við þakkað fyrir að matarverð hafi ekki hækkað jafn mikið og á evrusvæðinu í heild eða um nær 17%, hvað þá í öllum löndum Evrópusambandsins. Aðeins á Kýpur hækkaði matarverð minna en hér á landi. Í öllum löndum Evrópusambandsins hækkaði matarkarfan meira, allt upp í liðlega 48%. Í þeim fjórum löndum evrunnar, þar sem matarverð hækkaði mest, var hækkunin frá 28,5% upp í 32%.
Og ekki verða rökin fyrir evru sótt í samanburð á lífskjörum hér á landi og öðrum löndum Evrópu. Þvert á móti. Lífskjör á Íslandi eru með því besta sem þekkist í heimunum og sé litið til þeirra ættu a.m.k. að læðast örlitlar efasemdir að talsmönnum sameiginlegs gjaldmiðils. Boðberar „stóru lausnarinnar“ hafa aldrei svarað því hvernig Íslendingum tókst að brjótast úr því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í upphafi 20. aldar og komast í hóp mestu velferðarríkja sögunnar með „ónýtan“ gjaldmiðil í farteskinu.
Illa er hægt að leggjast gegn því að einstaka stjórnmálamenn, og jafnvel heilu stjórnmálaflokkarnir, berjist fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptöku evru. Það er hluti af eðlilegri og nauðsynlegri hugmyndabaráttu. En það er í besta falli villandi að gefa í skyn að með því komist á meiri verðstöðugleiki hér á landi. Og rökin fyrir aðild og evru verða enn ótrúverðugri þegar þau byggjast á vantrú á flestu sem íslenskt er. En kannski er vantrúin hluti af sjálfsmynd stjórnmálaflokka?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. mars 2023.