ESB og evran til bjargar

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Á Íslandi er spenna í hagkerfinu og of mikil þensla. Það er vandamál af öðrum toga en flest samanburðarlönd okkar glíma við. Baráttan við verðbólguna sem er samfara of mikilli þenslu ætlar að vara lengur en við höfðum vonað. Það er til mikils að vinna að við náum henni niður, en við erum blessunarlega vel í stakk búin til að takast á við verðbólgu.

Því er hins vegar alltaf hægt að treysta á að ESB-þingmenn á Alþingi grípi öll tækifæri til að tengja viðfangsefni okkar og vandkvæði við aðild að Evrópusambandinu og upptöku evrunnar. Í því skyni finna þeir hagstæðustu dæmin í hverju landi, en vísa svo gjarnan almennt í ESB eða evrusvæðið um þessi dæmi.

Við getum verið sammála um að hér er allt of há verðbólga. Verðbólgan er þó um 10%, sem er sama tala og meðalverðbólgan í ESB, en á því svæði er verðbólgan hæst yfir 26% um þessar mundir.

Þrátt fyrir verðbólgu og aðrar áskoranir hefur kaupmáttur allra tekjuhópa aukist hér verulega á síðustu árum. Laun á Íslandi eru mjög há í alþjóðlegum samanburði og hafa hækkað hér u.þ.b. tvöfalt meira á undanförnum árum en í helstu samanburðarríkjum. Tekjur íslenskra heimila hafa þannig aukist mikið og mun meira en sem nemur verðbólgu. Staða heimilanna birtist skýrt í þeirri staðreynd að vanskil heimilanna á lánum hafa ekki mælst lægri í langan tíma og aldrei hafa færri heimili átt erfitt með að ná endum saman.

Hér er atvinnustig jafnan hátt og atvinnuleysi í janúar síðastliðinn var 3,6%. Meðal atvinnuleysi á evrusvæðinu samkvæmt OECD var hins vegar 6,7% á sama tíma, þar af yfir 7% í Frakklandi og 13% á Spáni. Meðal atvinnuleysi ungs fólks á evrusvæðinu var reyndar tæp 15% á sama tíma.

Vegna hárra nafnvaxta hér eru lágir vextir algeng sölulína hjá ESB-sinnum nú sem fyrr. En eins og með svo margt annað innan ESB, þá er vaxtaprósentan þar eins misjöfn og löndin sem sambandið mynda. Ekki er því hægt að setja samasemmerki milli vaxta, og annarra lánskjara, og aðildar og ekki heldur myntar. Vaxta­prósentan segir aukinheldur ekki alla söguna þar sem vextir eru mjög lágir. Meðal annars þarf að skoða hvort stöðnun ríkir í viðkomandi ríki. Samanburður á hagvexti í Evrópusambandinu og Íslandi telst langt í frá vera aðild til framdráttar, enda er hagvöxtur sjaldan ræddur af ESB-sinnum.

Lágur framfærslukostnaður er önnur vinsæl sölulína hjá ESB-sinnum. Þar er umræða um orkukrísuna á meginlandinu þó sett til hliðar, sem ESB-leiðtogar bera mikla ábyrgð á og kostar marga íbúa ESB mánaðarlega reikninga sem nemur húsnæðisafborgun.

Þeir sem halda að evran sé töfralausnin við öllum okkar vanda hljóta að klóra sér í hausnum yfir framangreindum staðreyndum. Og ef þetta er einfaldlega spenningur yfir nýrri skínandi mynt, af hverju skyldum við veðja á evru? Ekki er það vegna velgengni hagkerfa sem nota þá mynt. Ísland er auk þess útflutningsdrifið hagkerfi og Bandaríkjadollar er okkar langmikilvægasti viðskiptagjaldmiðill, af hverju tala sjálfnefndir alþjóðasinnar ekki fyrir upptöku dollara? Nú auðvitað af því að aðild að ESB hangir á spýtunni og í þeirri vegferð er bara hentugum upplýsingum haldið til haga.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. mars 2023.