Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Þegar þetta er skrifað er hörð deila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins enn í hnút. Fyrr eða síðar mun hann leysast með einum eða öðrum hætti. En í lok ársins blasir við erfitt verkefni. Þá verða aðilar vinnumarkaðarins að ná saman um kjarasamninga til langs tíma. Áskorunin er mikil. Aðstæður vinna ekki með atvinnurekendum eða launafólki. Tveggja stafa verðbólga vinnur ekki með neinum.
Ég hef aldrei verið hrifinn af því að ríkisvaldið komi með beinum hætti að lausn deilna um kaup og kjör. En ríkisstjórnir hafa hvað eftir annað lofað ákveðnum aðgerðum (sem flestar auka útgjöld) til að auðvelda atvinnurekendum og verkalýðshreyfingunni að ná saman. Oft eru ríkisstjórnir upp við vegg og geta ekki annað en komið með „ákveðið útspil“ til að tryggja kjarasamninga og þar með sæmilegan frið á vinnumarkaði og stöðugleika.
Lætur vel í eyrum
Samþykkt hefur verið að auka húsnæðisstuðning, hækka vaxtabætur, hækka barnabætur, stuðla að fjölgun félagslegra leiguíbúða og byggingu hagkvæmra íbúða og svo má lengi telja. Sem sagt: Bóta- og millufærslukerfið er þanið út.
Líklegt er að krafan um leiguþak verði hávær við gerð nýrra kjarasamninga. Ég óttast að meirihluti Alþingis láti undan. Þegar ríkisvaldið grípur inn í verðmyndun endar það alltaf með ósköpum og þjónar allra síst þeim sem ætlað er að veita aðstoð. Hugmyndir um leiguþak byggjast á misskilningi um að ríkið eða embættismenn hafi þekkingu til að grípa inn í verðmyndun á markaði og að niðurstaðan verði farsæl fyrir alla. Hið þveröfuga gerist.
- Eigendur leiguhúsnæðis hætta að leigja út, þar sem það svarar ekki kostnaði. – Framboð dregst saman.
- Fjárfestar sjá ekki tilgang í að leggja fé í að byggja leiguíbúðir. – Framboð minnkar.
- Viðhald íbúða í útleigu situr á hakanum. – Gæðum húsnæðis hrakar.
- Hálaunafólk á leigumarkaði nýtur þess að verðþak sé í gildi á sama tíma og láglaunafólk á í erfiðleikum með að finna hentugar íbúðir. – „Ávinningurinn“ lendir fremur hjá þeim sem betur eru settir en hjá þeim sem verr standa.
- Hreyfanleiki á húsnæðismarkaði minnkar. – Hvatinn til að eignast eigið húsnæði minnkar, ekki síst hjá þeim sem hæstu tekjurnar hafa.
Það er eðli stjórnmálamanna að vilja sem mest fyrir alla gera, ekki síst þá sem standa lakar að vígi en aðrir. Auknar bóta- og millifærslur eru tiltölulega auðveld leið. Leiguþak er ríkinu að kostnaðarlausu og lætur vel í eyrum.
Hvað með skattaklóna?
Sjaldgæft er að meirihluti Alþingis telji ástæðu til að slaka aðeins á skattaklónni sem kremur venjulegt launafólk. En það kemur fyrir. Þannig hefur tekjuskattur flestra lækkað nokkuð á síðustu árum og þá fyrst og fremst þeirra sem lægri launin hafa. Skattkerfisbreytingarnar hafa hins vegar ekki sniðið af gallana á tekjuskattkerfinu – galla sem vinna gegn launafólki.
Ég hef aldrei skilið af hverju forysta verkalýðshreyfingarinnar gerir ekki skýrar kröfur um uppstokkun tekjuskattskerfisins, þannig að það verði heilbrigðara og refsi ekki launafólki.
Gildandi tekjuskattskerfi með þremur skattþrepum, tekjutengingum og tilheyrandi jaðarsköttum íþyngir ekki síst þeim sem lægri launin hafa. Þeim er refsað fyrir að bæta sinn hag. Gallar kerfisins liggja einnig í þeirri staðreynd að þegar gerðar eru breytingar á skattleysismörkum – persónuafslætti – þá gengur sú breyting upp allan tekjustigann. Eftir því sem laun eru lægri, því meira vægi hefur persónuafslátturinn. Hækkun persónuafsláttar skiptir launamanninn með 400 þúsund krónur í mánaðarlaun meira máli en þann sem hefur á aðra milljón í tekjur.
Þegar tekið er tillit til allra galla tekjuskattskerfisins er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að stokka verði allt kerfið upp. Markmiðið er einfalt kerfi, þar sem dregið er úr jaðarsköttum, byggt undir hvata og hætt er að refsa fólki þegar hagur þess vænkast.
Flatur tekjuskattur
Ég hef oftar en einu sinni vakið athygli á kostum þess að taka upp flatan tekjuskatt – eina skattprósentu, óháð tekjum. Um leið verði innleiddur nýr og töluvert hærri persónuafsláttur sem lækkar eftir því sem tekjur hækka. Hugsanlegt er að ónýttur persónuafsláttur verði greiddur út.
Flatur tekjuskattur með stiglækkandi persónuafslætti þjónar betur markmiði sínu en margþrepa tekjuskattur með öllum sínum tekjutengingum og jaðarsköttum. Það verður einfaldara, staða láglaunastétta og millitekjuhópa verður sterkari. Í stað þess að fólk sé barið niður með háum jaðarsköttum með tilheyrandi tekjutengingum og hærra skattþrepi er ýtt undir það. Refsingar og letjandi hvatar kerfisins eru sniðnir að mestu af.
Það væri gleðilegt ef forysta verkalýðshreyfingarinnar kæmi með skýr skilaboð til ríkisstjórnarinnar um að stokka upp tekjuskattskerfið í tengslum við kjarasamninga til langs tíma. Samtök atvinnulífsins ættu að leggjast á árarnar. Og þó ég sé ekki hrifinn af því að ríkið komi með beinum hætti að kjarasamningum mun ég munstra mig í áhöfnina sem berst fyrir betra, einfaldara og réttlátara tekjuskattskerfi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. mars 2023.