Klapp er best með forsjá
'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Auka­fund­ur var hald­inn í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur sl. föstu­dag vegna mál­efna Strætó bs., dótt­ur­fyr­ir­tæk­is Reykja­vík­ur­borg­ar. Borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins og Sósí­al­ista­flokks­ins óskuðu eft­ir fund­in­um eft­ir að full­trú­ar meiri­hlut­ans höfðu ein­hliða og í krafti at­kvæða tekið um­rædd mál­efni af dag­skrá borg­ar­stjórn­ar­fund­ar 7. fe­brú­ar og síðan slitið fundi. Til­gang­ur fund­arof­beld­is meiri­hluta Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar, Pírata og Viðreisn­ar var aug­ljós­lega sá að forðast umræður um mál­efni Strætó.

Óviðun­andi greiðslu­kerfi

Klapp, greiðslu­kerfi Strætó, er mál­efnið sem borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins báru fram á fund­in­um. Mikl­ir erfiðleik­ar hafa fylgt notk­un kerf­is­ins fyr­ir farþega og vagn­stjóra Strætó frá því það var inn­leitt fyr­ir rúm­um 15 mánuðum. Ljóst er að eft­ir svo langt „inn­leiðing­ar­ferli“ er ekki leng­ur hægt að af­saka lé­lega virkni kerf­is­ins með því að um smá­vægi­lega byrj­unar­örðug­leika sé að ræða. Eitt­hvað hlýt­ur að vera að kerf­inu og/​eða þróun þess.

Vegna mik­il­væg­is Strætó og ótal kvart­ana frá farþegum og vagn­stjór­um, er löngu orðið tíma­bært að borg­ar­stjórn sé gerð grein fyr­ir eðli og um­fangi vand­ans og hvað sé til ráða. Einnig þarf að taka af­stöðu til þess hvort raun­hæft og hag­kvæmt sé að halda áfram að lappa upp á Klappið, sem virk­ar ekki bet­ur en raun­in sýn­ir. Slíkt mun vænt­an­lega hafa mikla, tíma­freka og kostnaðarsama þró­un­ar­vinnu í för með sér. Ann­ar kost­ur væri sá að kaupa nýtt og not­enda­vænt kerfi, sem hafi sannað sig er­lend­is. Kerfi sem hefði ekki ómælda þró­un­ar­vinnu í för með sér en væri hægt að inn­leiða á nokkr­um vik­um.

Úrbæt­ur aðkallandi

Ljóst er að borg­ar­stjóri og aðrir full­trú­ar meiri­hlut­ans hefðu fyr­ir löngu átt að hafa gert borg­ar­ráði og borg­ar­stjórn grein fyr­ir vand­an­um og hvernig unnið væri að því að leysa hann. Það hafa þeir ekki gert held­ur kosið að stinga höfðinu í sand­inn.

Á borg­ar­stjórn­ar­fund­in­um lögðu full­trú­ar meiri­hlut­ans höfuðáherslu á að koma á fram­færi gremju sinni yfir því að tek­ist hefði að koma Klapp-klúðrinu á dag­skrá borg­ar­stjórn­ar í síðustu viku. Leitt var að heyra meiri­hlut­ann gera þannig lítið úr Klapp-klúðrinu. Að sjálf­sögðu er það al­var­legt ef Strætó, næst­stærsta borg­ar­fyr­ir­tækið, stend­ur frammi fyr­ir al­var­legu vanda­máli, sem varðar greiðslu­kerfi þess, vinnu­um­hverfi hundraða bíl­stjóra og þjón­ustu við tugþúsund­ir farþega.

Gekk einn borg­ar­full­trúi Pírata svo langt að segja að verið væri að sóa tíma borg­ar­stjórn­ar með því að ræða Klappið í söl­um henn­ar. Borg­ar­full­trúi Sam­fylk­ing­ar jós skömm­um yfir borg­ar­full­trúa Sjálf­stæðis­flokks­ins fyr­ir að hafa dirfst að knýja fram umræðu um mál­efnið í borg­ar­stjórn.

Skotið á sendi­boðann

Und­ar­legt er að heyra ful­trúa borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­ans gera sem minnst úr um­fangi vand­ans þrátt fyr­ir að fyr­ir liggi ótal munn­leg­ar og skrif­leg­ar kvart­an­ir frá farþegum og vagn­stjór­um vegna Klapps­ins. Er til­gang­ur þeirra greini­lega sá að forðast umræðu um kjarna máls­ins og draga at­hygl­ina að auka­atriðum, m.a. með per­sónu­leg­um árás­um á máls­hefjend­ur.

Slík viðhorf lýsa óvirðingu gagn­vart þeim lýðræðis­lega vett­vangi sem borg­ar­stjórn er. Það lýs­ir einnig óvirðingu gagn­vart hinum fjöl­mörgu vagn­stjór­um og viðskipta­vin­um Strætó, sem eru til­neydd­ir að nota Klappið dag­lega og eiga betra skilið en þriðja flokks greiðslu­kerfi.

Sér­stak­lega var at­hygl­is­vert að sjá borg­ar­full­trúa Pírata og Sam­fylk­ing­ar af­hjúpa þannig af­stöðu sína til þess að mik­il­væg mál­efni séu rædd með gagn­rýn­um hætti í borg­ar­stjórn. Á tylli­dög­um segj­ast þess­ir flokk­ar auðvitað vilja full­komið gagn­sæi um op­in­ber mál­efni og að allt sé uppi á borðum.

Bola­brögð í borg­ar­stjórn

Fyr­ir um ára­tug létu marg­ir þing­menn Sam­fylk­ing­ar og Fram­sókn­ar­flokks sér sæma að hafa for­göngu um að fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra væri dreg­inn fyr­ir lands­dóm, m.a. fyr­ir að setja mik­il­væg mál­efni ekki á dag­skrá rík­is­stjórn­ar­funda.

Að und­an­förnu hafa borg­ar­full­trú­ar sömu flokka ít­rekað beitt bola­brögðum til að koma í veg fyr­ir eða tefja að umræður um mik­il­væg mál­efni séu sett á dag­skrá borg­ar­stjórn­ar­funda. Fyrst í des­em­ber og janú­ar vegna margra millj­arða króna fjár­fest­inga Ljós­leiðara Orku­veit­unn­ar, sem ekki mátti ræða í borg­ar­stjórn fyrr en heil­um mánuði eft­ir að út­gjöld­in höfðu verið samþykkt. Og nú í fe­brú­ar vegna mál­efna Strætó. Bæði fyr­ir­tæk­in eru dótt­ur­fé­lög borg­ar­inn­ar.

Það má velta því fyr­ir sér hvernig þing­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Pírata og Viðreisn­ar létu ef þeir væru beitt­ir sömu brögðum af meiri­hluta Alþing­is? Lýðræðis­leg­ar umræður um mik­il­væg mál­efni væru tafðar vik­um sam­an vegna þess að rík­is­stjórn­in teldi tíma­setn­ing­una óþægi­lega fyr­ir sig?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. febrúar 2023.