Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Aukafundur var haldinn í borgarstjórn Reykjavíkur sl. föstudag vegna málefna Strætó bs., dótturfyrirtækis Reykjavíkurborgar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins óskuðu eftir fundinum eftir að fulltrúar meirihlutans höfðu einhliða og í krafti atkvæða tekið umrædd málefni af dagskrá borgarstjórnarfundar 7. febrúar og síðan slitið fundi. Tilgangur fundarofbeldis meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar var augljóslega sá að forðast umræður um málefni Strætó.
Óviðunandi greiðslukerfi
Klapp, greiðslukerfi Strætó, er málefnið sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins báru fram á fundinum. Miklir erfiðleikar hafa fylgt notkun kerfisins fyrir farþega og vagnstjóra Strætó frá því það var innleitt fyrir rúmum 15 mánuðum. Ljóst er að eftir svo langt „innleiðingarferli“ er ekki lengur hægt að afsaka lélega virkni kerfisins með því að um smávægilega byrjunarörðugleika sé að ræða. Eitthvað hlýtur að vera að kerfinu og/eða þróun þess.
Vegna mikilvægis Strætó og ótal kvartana frá farþegum og vagnstjórum, er löngu orðið tímabært að borgarstjórn sé gerð grein fyrir eðli og umfangi vandans og hvað sé til ráða. Einnig þarf að taka afstöðu til þess hvort raunhæft og hagkvæmt sé að halda áfram að lappa upp á Klappið, sem virkar ekki betur en raunin sýnir. Slíkt mun væntanlega hafa mikla, tímafreka og kostnaðarsama þróunarvinnu í för með sér. Annar kostur væri sá að kaupa nýtt og notendavænt kerfi, sem hafi sannað sig erlendis. Kerfi sem hefði ekki ómælda þróunarvinnu í för með sér en væri hægt að innleiða á nokkrum vikum.
Úrbætur aðkallandi
Ljóst er að borgarstjóri og aðrir fulltrúar meirihlutans hefðu fyrir löngu átt að hafa gert borgarráði og borgarstjórn grein fyrir vandanum og hvernig unnið væri að því að leysa hann. Það hafa þeir ekki gert heldur kosið að stinga höfðinu í sandinn.
Á borgarstjórnarfundinum lögðu fulltrúar meirihlutans höfuðáherslu á að koma á framfæri gremju sinni yfir því að tekist hefði að koma Klapp-klúðrinu á dagskrá borgarstjórnar í síðustu viku. Leitt var að heyra meirihlutann gera þannig lítið úr Klapp-klúðrinu. Að sjálfsögðu er það alvarlegt ef Strætó, næststærsta borgarfyrirtækið, stendur frammi fyrir alvarlegu vandamáli, sem varðar greiðslukerfi þess, vinnuumhverfi hundraða bílstjóra og þjónustu við tugþúsundir farþega.
Gekk einn borgarfulltrúi Pírata svo langt að segja að verið væri að sóa tíma borgarstjórnar með því að ræða Klappið í sölum hennar. Borgarfulltrúi Samfylkingar jós skömmum yfir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fyrir að hafa dirfst að knýja fram umræðu um málefnið í borgarstjórn.
Skotið á sendiboðann
Undarlegt er að heyra fultrúa borgarstjórnarmeirihlutans gera sem minnst úr umfangi vandans þrátt fyrir að fyrir liggi ótal munnlegar og skriflegar kvartanir frá farþegum og vagnstjórum vegna Klappsins. Er tilgangur þeirra greinilega sá að forðast umræðu um kjarna málsins og draga athyglina að aukaatriðum, m.a. með persónulegum árásum á málshefjendur.
Slík viðhorf lýsa óvirðingu gagnvart þeim lýðræðislega vettvangi sem borgarstjórn er. Það lýsir einnig óvirðingu gagnvart hinum fjölmörgu vagnstjórum og viðskiptavinum Strætó, sem eru tilneyddir að nota Klappið daglega og eiga betra skilið en þriðja flokks greiðslukerfi.
Sérstaklega var athyglisvert að sjá borgarfulltrúa Pírata og Samfylkingar afhjúpa þannig afstöðu sína til þess að mikilvæg málefni séu rædd með gagnrýnum hætti í borgarstjórn. Á tyllidögum segjast þessir flokkar auðvitað vilja fullkomið gagnsæi um opinber málefni og að allt sé uppi á borðum.
Bolabrögð í borgarstjórn
Fyrir um áratug létu margir þingmenn Samfylkingar og Framsóknarflokks sér sæma að hafa forgöngu um að fyrrverandi forsætisráðherra væri dreginn fyrir landsdóm, m.a. fyrir að setja mikilvæg málefni ekki á dagskrá ríkisstjórnarfunda.
Að undanförnu hafa borgarfulltrúar sömu flokka ítrekað beitt bolabrögðum til að koma í veg fyrir eða tefja að umræður um mikilvæg málefni séu sett á dagskrá borgarstjórnarfunda. Fyrst í desember og janúar vegna margra milljarða króna fjárfestinga Ljósleiðara Orkuveitunnar, sem ekki mátti ræða í borgarstjórn fyrr en heilum mánuði eftir að útgjöldin höfðu verið samþykkt. Og nú í febrúar vegna málefna Strætó. Bæði fyrirtækin eru dótturfélög borgarinnar.
Það má velta því fyrir sér hvernig þingmenn Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar létu ef þeir væru beittir sömu brögðum af meirihluta Alþingis? Lýðræðislegar umræður um mikilvæg málefni væru tafðar vikum saman vegna þess að ríkisstjórnin teldi tímasetninguna óþægilega fyrir sig?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. febrúar 2023.