100 ár frá því Ingibjörg H. Bjarnason tók sæti á Alþingi

Hundrað ár eru í dag síðan Ingibjörg H. Bjarnason tók sæti fyrst kvenna á Alþingi. Ingibjörg var kjörin á þing fyrir Kvennalistann eldri sem landskjörinn þingmaður í kosningunum 8. júlí 1922. Síðar gekk hún til liðs við Íhaldsflokkinn og svo til liðs við Sjálfstæðisflokkinn þegar hann var stofnaður í maí 1929.

Landsamband sjálfstæðiskvenna og félög sjálfstæðiskvenna um allt land fagna þessum tímamótum og ætla sjálfstæðiskonur að bjóða í kokteil á Vinnustofu Kjarval nk. sunnudag, 19. febrúar kl 17:00. Hér má sjá facebook-viðburð á kokteilinn.

Ingibjörg sat á Alþingi frá 1923 til 1930 og var varaforseti efri deildar Alþingis um hríð. Ingibjörg átti öll sín þingár sæti í fjárveitinganefnd efri deildar og lengst af í menntamálanefnd.

Hún var fædd á Þingeyri við Dýrafjörð 14. desember 1867 en lést 30. október 1941, 73 ára að aldri. Foreldrar hennar voru Hákon Bjarnason kaupmaður og Jóhanna Kristín Þorleifsdóttir húsmóðir. Ingibjörg var ógift og barnlaus.

Ingibjörg tók kvennaskólapróf við Kvennaskólann í Reykjavík 1882. Var í námi hjá Þóru Pétursdóttur 1882-1884. Stundaði framhaldsnám í Kaupmannahöfn 1884-1885 og aftur 1886-1893. Dvaldist síðar aftur erlendis 1901-1903 og kynnti sér skólahald, aðallega í Þýskalandi og Sviss.

Hún var við kennslustörf í Reykjavík 1893-1901. Kennari við Kvennaskólann í Reykjavík 1903-1906 og skólastjóri skólans frá 1906 til æviloka.

Ingibjörg var formaður Landspítalasjóðsnefndar frá stofnun sjóðsins 1915 til æviloka. Sat í Landsbankanefnd 1928-1932 og í Menntamálaráði 1928-1934.

Komin til að gæta hagsmuna þjóðarinnar

Í ávarpi sínu til kjósenda sagði hún um hlutverk sitt á Alþingi: „ … mun ég álíta mig komna þangað til þess að gæta hagsmuna þjóðar minnar, svo sem ég best veit – til að fylgja því sem flestum má að gagni koma á sameiginlegu þjóðarheimili karla og kvenna. En auðvitað býst ég við að þau mál gætu komið fyrir, að ég sérstaklega yrði að gæta hagsmuna kvenna.“

Stuttu eftir að þingsetu hennar lauk var haft eftir henni í blaðinu Lögréttu: „Fyrstu konurnar, brautryðjendurnir, verða auðvitað fyrir ýmsu hnjaski, aðeins vegna þess að þær eru konur – en slíkt má ekki setja fyrir sig. Þegar konum fjölgar á Alþingi Íslendinga hverfur það, að ráðist sé á þær sérstaklega af því, að þær eru konur.“

Sem þingmaður lagði Ingibjörg mikla áherslu á byggingu Landspítalans. Til marks um það var það hennar fyrsta verk eftir að hún settist á Alþingi að leggja fram þingsályktunartillögu um að bygging spítalans yrði sett í algjöran forgang. Á næsta þingi flutti hún svo aðra þingsályktunartillögu með nánari tilhögun um byggingu spítalans. Báðar þessar tillögur voru samþykktar.

Fór svo að árið 1925 var gerður samningur um byggingu Landspítala. Skömmu eftir að Ingibjörg lét af störfum sem alþingismaður tók Landspítalinn til starfa, eða í lok árs 1930.

Beitti sér fyrir málefnum kvenna og í velferðarmálum

Hún lét sig einnig mjög varða málefni kvenna, velferðarmál og réttindamál. Hún flutti m.a. tillögu til þingsályktunar um undirbúning breytinga á fátækralöggjöfinni sem fólu í sér að útilokað yrði að mæður yrðu að láta frá sér börn sín vegna fátækraflutninga. Sú tillaga var samþykkt á Alþingi. Þá lagði hún fram tillögu um styrki til gamalmenna og sjúklinga og mál um bætta stöðu óskilgetinna barna.

Ingibjörg beitti sér einnig mjög fyrir menntun kvenna. Þar tókust á þau sjónarmið hvort mennta skyldi konur sem húsmæður eða hvort þeim skyldi standa opið að að taka þátt og starfa úti á vinnumarkaðnum. Ingibjörgu var mjög umhugað um hið síðarnefnda. Hún sagðist ekki sjá að það eina sem byðist konum væri að „sitja undir askloki því sem kallast að gæta bús og barna“ og sagði að nútíminn heimti meira af konum, að þær vildu fá tækifæri til þess að búa sig undir störf á sem flestum sviðum. Sjónarmið Ingibjargar á þessum árum urðu undir og hófst í kjölfarið mikil uppbygging húsmæðraskóla um allt land. Örfáar konur stunduðu á þessum árum langskólanám.

Ingibjörg H. Bjarnason var brautryðjandi í íslenskri stjórnmálasögu sem Sjálfstæðisflokkurinn minnist í dag á þessum merku tímamótum.