Hvað er ósagt í 105. ræðu?

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Þegar þetta er skrifað hef­ur önn­ur umræða um út­lend­inga­frum­varpið, svo­kallaða, staðið yfir í 10 daga. Flutt­ar hafa verið nokk­ur hundruð ræður. Pírat­ar ganga vakt­ir í ræðustól Alþing­is og hafa gefið fyr­ir­heit um að ekki sjái fyr­ir end­ann á umræðunni. Þegar þing­fundi lauk aðfaranótt þriðju­dags hafði önn­ur umræða staðið yfir í um 75 klukku­tíma. Í fyrstu umræðu töluðu þing­menn í um ell­efu klukku­tíma. Áður en frum­varpið kom til annarr­ar umræðu var það á dag­skrá alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar á 13 fund­um. Nefnd­in sendi út 116 um­sagn­ar­beiðnir til marg­vís­legra aðila og 27 sendu skrif­leg­ar um­sagn­ir.

Fá laga­frum­vörp hafa fengið jafn viðamikla um­fjöll­un, jafnt í þingsal og nefnd og út­lend­inga­frum­varpið. Og ekki er þetta fyrsta til­raun­in sem gerð er til að ná fram breyt­ing­um á lög­um um út­lend­inga. Frum­varp þessa efn­is var lagt fram á 149. lög­gjaf­arþingi og end­ur­flutt ári síðar með nokkr­um viðbót­um. Í hvor­ugt skipti náði málið fram að ganga, ekki frek­ar en í þriðju til­raun á 151. lög­gjaf­arþingi. Á 152. lög­gjaf­arþingi var frum­varpið end­ur­flutt. Fjórða til­raun gekk ekki. Útlend­inga­frum­varpið er því til meðferðar á þingi í fimmta sinn en hef­ur auk þess verið kynnt í sam­ráðsgátt nokkr­um sinn­um og tekið hef­ur verið mið af um­sögn­um og ýms­um at­huga­semd­um sem gerðar hafa verið.

Talað til þraut­ar

En þrátt fyr­ir allt sem á und­an er gengið telja þing­menn Pírata að rík ástæða sé til að ræða málið til þraut­ar í þingsal. Ætlun þeirra er að koma í veg fyr­ir samþykkt þess þrátt fyr­ir að skýr meiri­hluti sé fyr­ir mál­inu. Í þessu eru Pírat­ar heiðarleg­ir og hafa aldrei reynt að fela ásetn­ing sinn.

Þeir sem standa utan þings og hafa haft tæki­færi (og búið yfir þol­in­mæði) til að fylgj­ast með umræðum um út­lend­inga­frum­varpið eru best dómbær­ir á það hvort málþófi sé beitt eða ekki.

Kannski er það auka­atriði hvort fram­ganga Pírata, sem sum­ir hverj­ir hafa þegar haldið á annað hundrað ræður, er skil­greind sem málþóf eða póli­tísk­ur skæru­hernaður til að koma í veg fyr­ir að vilji meiri­hlut­ans nái fram að ganga. Sex þing­menn Pírata telja eðli­legt að 38 þing­menn rík­is­stjórn­ar­inn­ar, auk þeirra þing­manna stjórn­ar­and­stöðunn­ar sem styðja frum­varpið, láti und­an. Við get­um kallað þetta minni­hlutaræði yfir meiri­hluta. Lýðræðis­legt? Varla.

Hitt er annað að það er óskoraður rétt­ur minni­hluta að beita málþófi. All­ir flokk­ar hafa með ein­um eða öðrum hætti beitt þessu vopni. En vopnið er vandmeðfarið, það hef­ur verið mis­notað og oft hef­ur það snú­ist í hönd­um þeirra sem því beita. Málþóf, þegar tek­ist er á um grund­vall­ar­atriði, get­ur verið nauðsyn­legt. Þegar tek­ist er á um stjórn­ar­skrá þarf að verj­ast, al­veg með sama hætti og koma verður í veg fyr­ir með öll­um ráðum ef rík­is­stjórn ætl­ar sér að þjóðnýta skuld­ir einka­fyr­ir­tækja og leggja þung­ar byrgðar á al­menn­ing um ókom­in ár.

Málþóf er hins veg­ar tví­eggjað sverð líkt og Pírat­ar eru hægt og bít­andi að kom­ast að. Mál­fundaæf­ing­ar þeirra, dag eft­ir dag og oft langt fram á nótt, vekja litla at­hygli. Net­heim­ar loga ekki og hefðbundn­ir fréttamiðlar telja það helst frétt­næmt að málþóf sé í gangi. Á meðan umræðan um út­lend­inga­frum­varpið held­ur áfram í boði Pírata, kom­ast önn­ur mál ekki að – hvorki stjórn­ar­mál né þing­manna­mál sem mörg­um eru hjart­fólg­in. Þeim fjölg­ar mál­un­um sem nefnd­ir þings­ins hafa af­greitt en kom­ast ekki til um­fjöll­un­ar í þingsal. Frum­vörp og þings­álykt­un­ar­til­lög­ur kom­ast ekki til nefnda og því ekki send út til um­sagn­ar.

Póli­tísk sjálf­helda

Pírat­ar eru komn­ir í sjálf­heldu málþófs og ekki aug­ljóst hvernig þeir ætla að brjót­ast út úr víta­hringn­um. Stjórn­ar­meiri­hlut­inn ætl­ar að tryggja að út­lend­inga­frum­varpið verði loks­ins af­greitt og nokk­ur hundruð ræður Pírata breyta þar engu um. Það ligg­ur einnig fyr­ir að frum­varpið verður tekið til efn­is­legr­ar meðferðar í nefnd eft­ir að ann­arri umræður lýk­ur. En eft­ir því sem umræðan teyg­ist á lang­inn því þrengra verður um efn­is­lega um­fjöll­un í nefnd­inni.

Málþóf eða ekki málþóf? Dæmi hver fyr­ir sig. En öll­um má vera ljóst að þingið er í herkví Pírata sem aft­ur eru í póli­tískri sjálf­heldu. Ef til vill er þeirra eina von að meiri­hluti þings­ins beiti í fyrsta skipti í ára­tugi ákvæðum 71. grein­ar þing­skap­a­laga. Sam­kvæmt henni get­ur for­seti „stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig get­ur for­seti lagt til, hvort held­ur í byrj­un umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma“. Þá geta níu þing­menn kraf­ist þess að umræðu skuli ljúka. Til­lög­ur af þessu tagi skal bera umræðulaust und­ir at­kvæði og ræður afl at­kvæða.

Þessu ákvæði þing­skap­a­laga hef­ur aðeins verið beitt tvisvar á lýðveld­is­tím­an­um, síðast fyr­ir um 65 árum. Eng­inn stjórn­ar­meiri­hluti hef­ur talið rétt eða skyn­sam­legt að beita 71. grein­inni – sem hægt og bít­andi hef­ur orðið merk­ing­ar­laus í hug­um flestra þing­manna.

Á meðan Pírat­ar halda málþófinu áfram og ná ekki að brjót­ast út úr póli­tískri sjálf­heldu, held­ur umræðan um út­lend­inga­frum­varpið áfram, þing­fund­ir verða lang­ir og langt inn í nótt­ina, dag eft­ir dag. Önnur þing­mál bíða og komið er í veg fyr­ir efn­is­lega umræðu um efna­hags­mál, heil­brigðismál, eldri borg­ara og ör­yrkja, mennta- og skóla­mál, kjara­mál, sam­göngu­mál og fjöl­mörg önn­ur hags­muna­mál.

Það eina sem er í boði er að fá svar við því hvað sé ósagt eft­ir 105 ræður eða svo um út­lend­inga­frum­varpið.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. febrúa 2023.