15 mánaða byrjunarerfiðleikar Klappsins – Úrbóta er þörf

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Laga þarf greiðslukerfi Strætó sem fyrst en borgarstjórnarmeirihlutinn kýs að stinga höfðinu í sandinn

Klapp, greiðslukerfi Strætós bs., var tekið í notkun í nóvember 2021. Frá upphafi virkaði kerfið ekki sem skyldi og hafa fjölmargir strætisvagnafarþegar lent í miklum vandræðum vegna þess. Haft var eftir stjórnendum Strætó að einungis væri um að ræða smávægilega byrjunarerfiðleika, sem leyst yrði úr á skömmum tíma.

Því miður hefur það ekki gengið eftir. Nú eru 15 mánuðir liðnir síðan greiðslukerfið var tekið í notkun og það er enn langt frá því að vera fullnægjandi samkvæmt ummælum og ábendingum frá fjölmörgum vagnstjórum og strætisvagnafarþegum.

Strætó bs. er dótturfyrirtæki Reykjavíkurborgar, sem fer þar með rúmlega 60% eignarhlut. Sem meirihlutaeigandi ber borgin því mikla ábyrgð gagnvart fyrirtækinu og viðskiptavinum þess. Ef borgarfyrirtæki er í vanda ber borgarstjóra og eftir atvikum borgarstjórn að kynna sér málið og grípa til aðgerða.

Mikilvægt að nýta umsagnir til úrbóta
Hundruð ef ekki þúsundir umsagnir og reynslusögur strætófarþega um Klappið má finna á netinu. Einfaldast er að skoða umsagnir þar sem farþegar sækja forritið í gegnum klappid.is, þ.e. á Google Play (Einkunnir og umsagnir) og á App Store (Ratings and Review). Einnig á Facebook-síðu Klappsins (Rating), sem og á sjálfsprottnum síðum strætófarþega.

Í langflestum þessara umsagna fær Klapp-greiðslukerfið slæman vitnisburð og þar má jafnvel lesa hrikalegar reynslusögur. Ekki þýðir að afneita slíkum ábendingum farþega. Þvert á móti á að nýta þær til skjótra úrbóta á greiðslukerfinu svo unnt sé að efla almenningssamgöngur á grundvelli þess.

Ótrúleg upplýsingatregða
Í júní sl. óskuðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir ýtarlegum upplýsingum um Klappið og stöðu innleiðingar þess gagnvart farþegum. Innleiðingin hafði þá staðið yfir í sjö mánuði en kvartanir bárust stöðugt frá farþegum.

Eftir sjö mánaða innleiðingu, var ekki lengur hægt að afsaka lélega virkni Klappsins með því að einungis væri um byrjunarerfiðleika að ræða. Erfitt er að ímynda sér að þjónustufyrirtæki eins og t.d. banki eða leigubílastöð, myndi bjóða viðskiptavinum sínar slíkar skýringar.

Með fyrirspurn okkar sjálfstæðismanna vildum við leiða í ljós af hverju kerfið virkaði ekki og stuðla þannig að úrlausn. Það er auðvitað óþolandi fyrir hvaða fyrirtæki sem er að styðjast við greiðslukerfi, sem er haldið svo miklum vanköntum. Slíkt er óviðunandi gagnvart viðskiptavinum. Að auki má Strætó ekki við því að missa frá sér tekjur og viðskiptavini vegna bágs fjárhags.

Greiðslukerfið sagt virka vel
Illa gekk að fá upplýsingar um Klappið og svaraði forstjóri Strætós ekki fyrirspurninni fyrr en eftir fimm mánuði. Í svarinu skorti skýr svör við ýmsum spurningum og annað orkaði tvímælis. Í svarinu stóð þó eftirfarandi yfirlýsing forstjórans upp úr: ,,Byrjunarörðugleikar hafa verið leystir og virkar greiðslukerfið vel.” (Svarið miðaðist við 25. nóvember 2022, rúmu ári eftir að kerfið var tekið í notkun.)

Þessi yfirlýsing kom á óvart því á sama tíma bárust borgarfulltrúum ábendingar frá fjölmörgum vagnstjórum og farþegum um að enn væru miklir vankantar á greiðslukerfinu þótt vissulega hefði virknin skánað eftir árslangt innleiðingarferli. Fékk ég sjálfur að kynnast þessu þegar ég reyndi ítrekað en árangurslaust að kaupa staka strætóferð með Klappinu.

Sú spurning vaknar því óneitanlega hvort forstjórinn hafi vísvitandi gefið rangar upplýsingar um virkni Klappsins í nóvember eða hreinlega ekki vitað betur. Ég veit ekki hvor skýringin er verri.

Meirihlutinn víkur sér undan Klapp-umræðu
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því að fram færi umræða um stöðu Klapp-greiðslukerfisins á fundi borgarstjórnar þriðjudaginn 7. febrúar 2023. Höfum við einnig lagt til að óháðu ráðgjafarfyrirtæki verði falið að gera úttekt á Klappinu og koma með tillögur til úrbóta í því skyni að leysa umrædd vandræði.

Fljótlega varð ljóst að borgarfulltrúar meirihlutans óttuðust slíka umræðu og kærðu sig lítt um að hún færi fram að svo stöddu. Töfðu þeir borgarstjórnarfundinn 7. febrúar með málalengingum en þvinguðu síðan fram fundarlok fyrir kvöldmat í krafti atkvæða. Þannig sáu þeir til þess að Klappið og þrjú önnur mál fengu ekki umræðu, hvað þá afgreiðslu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæltu að sjálfsögðu slíkum bolabrögðum en hafa óskað eftir því ásamt borgarfulltrúum Sósíalista, að aukafundur verði haldinn í borgarstjórn í vikunni vegna málefna Strætó. Hefur verið boðað til þess fundar föstudaginn 10. febrúar. Þar verða vonandi rædd þau mál, sem borin hafa verið fram af áðurnefndum flokkum án frekari undanbragða meirihlutans.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. febrúar 2023