Nanna Kristín Tryggvadóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra. Undanfarið ár hefur Nanna Kristín starfað sem framkvæmdastjóri Byggingarfélagsins Hyrnu og Húsheildar. Þar áður starfaði hún í Landsbankanum, lengst af sem aðstoðarmaður bankastjóra. Hún er jafnframt formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna og ein af forsvarskonum góðgerðarfélagsins Konur eru konum bestar. Þetta kemur fram í frétt á vef fjármálaráðuneytisins.
Nanna Kristín er verkfræðingur að mennt. Hún útskrifaðist með BSc. í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík 2010 og lauk meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Duke háskóla í Norður-Karólínu 2011. Hún er jafnframt með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík.
Hersir Aron Ólafsson hefur verið aðstoðarmaður Bjarna frá árinu 2020. Páll Ásgeir Guðmundsson var áður aðstoðarmaður hans, en hann hvarf til annarra starfa í mars 2022. Með ráðningu Nönnu Kristínar eru aðstoðarmennirnir því aftur orðnir tveir.