Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Árás Rússlands á Úkraínu hefur vakið sumar Evrópuþjóðir af værum svefni. Sumar sváfu að vísu enn fastar en aðrar. Forystumenn í Evrópu juku þannig viðskipta- og hagsmunatengsl við rússnesk stjórnvöld á undanförnum árum þrátt fyrir varnaðarorð Úkraínumanna og nágrannaþjóða þeirra og þrátt fyrir ógnartilburði og árásargirni Rússlands. Forystumennirnir eru því ábyrgir fyrir þeirri stöðu Evrópu að hafa verið orðin háð Rússlandi um orku þannig að orkukreppa ríkir á meginlandi álfunnar.
Frá upphafi þessarar nýjustu innrásar í Úkraínu hefur samstaða lýðræðisríkja verið áberandi. Og í Evrópu virðast menn loks hafa áttað sig á því að innrás í fullvalda evrópskt ríki væri sameiginlegt viðfangsefni Evrópuþjóða. Full samstaða og sameiginlegar fórnir eru lykilatriði í að verja sameiginleg gildi okkar: frelsi, mannréttindi og lýðræði. Annars væri Úkraína einungis byrjunin á efndum Pútíns á langtímastefnu sinni.
Tæpt ár er liðið frá innrásinni sem kostar fjölda mannslífa á hverjum degi. Ákall Úkraínu hefur enn aukist um að Þjóðverjar útvegi þeim bryndreka til þess að verjast eftir mætti, eða banni a.m.k. öðrum ríkjum það ekki. Úkraínumenn saka suma bandamenn sína um hik og óákveðni sem leiði til mikils tjóns og sárgrætilegs mannfalls í þeirra röðum. Undir þetta hafa nágrannaþjóðir þeirra tekið heils hugar, Eystrasaltsþjóðirnar, Tékkland, Slóvakía og Pólland. Já og einnig Bretar og þjóðir Skandinavíu. Því nær sem ógnin er, þeim mun sterkari viðbrögð og samstaða. Bretar hafa því tekið ákvörðun um að auka við stuðning sinn og senda búnað til að aðstoða Úkraínumenn á vígvellinum og með því sent öðrum þjóðum skýr skilaboð.
Viðbrögð forystumanna í ESB, ekki síst Þýskalands, við innrásinni á Krímskaga og hátterni þeirra bæði fyrir og eftir eru forkastanleg og hafa tvímælalaust átt sinn þátt í því að Pútín afréð að láta til skarar skríða. Hafa þeir hafi lært af mistökum sínum eins og þeir hafa látið skína í með yfirlýsingum sínum frá innrásinni í fyrra? Þar munu verkin tala. Það er vonandi að þeir hafi lært að undirlægjuháttur og meðvirkni leiða til einskis annars en frekari hörmunga. Þýskaland verður að bæta fyrir athafnir, en einkum athafnaleysi sitt undanfarin ár.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. janúar 2023.